135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fjöldi óskoðaðra og ótryggðra ökutækja í umferð.

124. mál
[19:49]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Álfheiður Ingadóttir, hefur beint til mín fyrirspurn um fjölda óskoðaðra og ótryggðra ökutækja í umferð í þremur spurningum. Sú fyrsta er svohljóðandi:

„Hversu mörg óskoðuð og ótryggð ökutæki eru í umferð?“

Í ökutækjaskrá eru nú skráð samtals 255.968 ökutæki. Þar af eru 22.057 óskoðuð ökutæki og 3.466 óvátryggð ökutæki. Í sumum tilvikum er um að ræða ökutæki sem tekin hafa verið úr umferð en ekki afskráð með formlegum hætti.

Óvátryggð ökutæki teljast ökutæki þegar vátryggingafélög hafa tilkynnt til Umferðarstofu að vátrygging þeirra sé úr gildi fallin. Sérstakar reglur gilda um þann sem verður fyrir tjóni af völdum óvátryggðar bifreiðar. Ekki eru tiltækar upplýsingar um hve stór hluti af óvátryggðum ökutækjum eru ekki lengur í umferð. Tekið skal fram að XIII. kafli umferðarlaga um fébætur og vátryggingu heyrir undir viðskiptaráðuneytið.

Í öðru lagi er spurt:

„Hversu mörg óskoðuð ökutæki og ökutæki með bráðabirgðaskoðun hafa tengst banaslysum undanfarin fimm ár, flokkað eftir umdæmum?“

Það sem af er þessu ári tengist eitt óskoðað ökutæki banaslysi. Ökutækið hafði verið boðað í endurskoðun en frestur var útrunninn. Á árinu 2003–2007 höfðu tvö ökutæki sem áttu þátt í banaslysum verið boðuð til endurskoðunar en þar var frestur ekki úti. Fjögur ökutæki höfðu verið boðuð til endurskoðunar og frestur úti. Eitt ökutæki hafði verið boðað til skoðunar af lögreglu og þrjú ökutæki voru óskoðuð, þ.e. að komið var fram yfir eitt ár frá því að þau höfðu verið skoðuð. Síðustu fimm ár eru það sem sagt samtals tíu ökutæki sem tengjast banaslysum með tilliti til skoðunar. Þar af voru sjö óskoðuð. Af þessum tíu ökutækjum voru níu þeirra síðast skoðuð á Stór-Reykjavíkursvæðinu en eigandi eins þeirra fékk boðun um skoðun hjá lögreglunni á Selfossi.

Þriðja spurningin er svohljóðandi:

„Hverjar telur ráðherra vera skýringar á fjölda óskoðaðra og ótryggðra bifreiða í umferðinni?“

Ökutækjaeign landsmanna hefur aukist geysilega á undanförnum árum. Þann 28. október síðastliðinn voru alls skráð á landinu 290.831 ökutæki en árið 1997 voru alls 175.573 ökutæki skráð á Íslandi. Af þessu leiðir að það kerfi sem verið hefur við lýði varðandi eftirlit með því að einungis skoðuð og vátryggð ökutæki séu í umferð getur ekki lengur annað þeim fjölda ökutækja sem skráð eru hér á landi. Þessi mál eru til skoðunar í ráðuneytinu og vænst er niðurstöðu á næsta ári.

Reglur um skoðun ökutækja eru enn fremur í athugun með tilliti til þess hve oft skuli færa ökutæki til skoðunar. Hér á landi er gengið lengra hvað þetta varðar en í nágrannalöndum. Í þessu sambandi hefur verið rætt um að skoða nýleg ökutæki sjaldnar, eða fyrst eftir þrjú ár en síðan á tveggja ára fresti og leggja meiri áherslu á skoðun þeirra sem eldri eru og skoðun ýmissa atvinnuökutækja sem eru í stöðugri og mikilli notkun.

Þá er unnið að mótun reglna um lögmæta skráningu eftirvagna bifreiða, bifhjóla og dráttarvéla sem gerðar eru fyrir 750 kílóa heildarþyngd eða minni og um skoðun þeirra og um skoðun hjólhýsa og tjaldvagna. Í þeirri vinnu verður leitast við að koma á skilvirku kerfi á skoðun ökutækja til að tryggja að einungis örugg ökutæki séu í umferð og að eftirlit með því að ökutæki séu færð til skoðunar verði þannig háttað að enginn geti skorast undan þeirri skyldu að færa ökutæki sitt til skoðunar á réttum tíma.