135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[19:56]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um starfsemi Íslandspósts hf. en tilefni hennar er það að fyrir nokkru bárust fréttir af því að fyrirtækið hygðist opna fjölda nýrra og glæsilegra pósthúsa víðs vegar um landið og jafnframt vinna ný lönd á nýjum mörkuðum. Eins og kunnugt er er hlutverk Íslandspósts fyrst og fremst það að veita almenna og sérhæfða bréfa-, pakka- og sendingaþjónustu en fyrirtækið nýtur einkaleyfis í lögum til að veita þá þjónustu, a.m.k. að hluta.

Nú er í sjálfu sér ekkert við það að athuga að Íslandspóstur vilji auka þjónustu sína til að styrkja og efla hina einkaleyfisskyldu grunnstarfsemi sína. Á þessari uppbyggingu er hins vegar önnur hlið sem ég sé ástæðu til að setja stórt spurningarmerki við, framtíðaráform fyrirtækisins sem ekki tengjast grunnstarfseminni. Ekki er langt síðan Íslandspóstur keypti prentsmiðjuna Samskipti af einkaaðilum. Með þeim kaupum blandaði fyrirtækið sér af fullum þunga í samkeppni á prentmarkaði, markaði sem einkafyrirtæki hafa sinnt fram að þessu. Í tengslum við fréttir um opnun pósthúsanna nýju kynntu forsvarsmenn fyrirtækisins þau framtíðaráform sín að útvíkka starfsemi félagsins með útrás á fleiri mörkuðum. Íslandspóstur hyggst nú auka þjónustu sína svo um munar, m.a. með sölu á skrifstofuvörum, pappír, geisladiskum, kortum, föndurvörum og öðrum svipuðum vörum, auk þess sem viðskiptavinum verður boðið upp á að kaupa netaðgang, prenta út gögn og ljósmyndir svo eitthvað sé nefnt.

Það væri engin ástæða til að gera athugasemdir við þessa þróun mála ef Íslandspóstur hf. væri einkafyrirtæki. Svo er hins vegar ekki. Þó að Íslandspóstur sé hlutafélag er félagið að öllu leyti í eigu ríkisins og telst því vera ríkisfyrirtæki. Í ljósi þeirrar staðreyndar væri óskandi að fyrirtækið einbeitti sér að því að veita grunnþjónustu sína en léti vera að vinna ný lönd á samkeppnismarkaði. Um áratugaskeið hafa einkaaðilar einir annast rekstur ritfangaverslana og prentsmiðja. Því miður hefur ríkisfyrirtækið Íslandspóstur nú hafið nýja markaðssókn á þessum sviðum. Slík áform brjóta í bága við grundvallarsjónarmið um þátttöku ríkisins á samkeppnismarkaði. Þau brjóta einnig í bága við þá stefnu sem síðustu ríkisstjórnir hafa fylgt í þessum efnum, þau skerða samkeppni og koma í veg fyrir að einkafyrirtæki vaxi og dafni og sæki inn á nýja markaði, m.a. á landsbyggðinni. Í ljósi þess að ríkið er nú farið að selja ritföng, föndurgögn og reka prentsmiðju, eins furðulega og það kann að hljóma, vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra tveggja spurninga:

Er hæstv. ráðherra fylgjandi því að Íslandspóstur hf. stundi rekstur í samkeppni við einkaaðila á mörkuðum sem einkaleyfi fyrirtækisins nær ekki til?

Hyggst ráðherra grípa til einhverra aðgerða til þess að koma í veg fyrir að Íslandspóstur hf. stundi slíka samkeppni? Þá mætti hugsa sér t.d. tilmæli til stjórnenda fyrirtækisins, nauðsynlegar lagabreytingar eða að einkavæða fyrirtækið.