135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[20:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég geri ekki athugasemd við það ef Íslandspóstur bætir og eflir þjónustu sem ekki er fyrir hendi á viðkomandi stöðum og svæðum. Hins vegar finnst mér áhöld um að Íslandspóstur skuli fara til staðar eins og Stykkishólms þar sem gróin kaupmannsbúð hefur veitt þessa þjónustu og fara að selja í samkeppni við gróinn kaupmann á svæðinu. Ég dreg í efa að það sé heillavænlegt.

Annað vil ég spyrja samgönguráðherra um. Samningur sem gerður var við Súðavíkurhrepp eða við íbúa við Ísafjörð um póstdreifingu og póstflutning við Ísafjörð rennur út núna, verður hann endurnýjaður eða með hvaða hætti verður tekið á honum? Bréf liggur einnig fyrir frá Reykhólahreppi um að þar eigi að fækka póstburðardögum þvert ofan í gefin fyrirheit þegar ný lög um Íslandspóst voru sett. Mun ráðherra einnig beita sér í þessum tveimur málum til að viðhalda þjónustunni sem í gangi (Forseti hringir.) hefur verið?