135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[20:05]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Það er vissulega alvarlegt mál þegar opinbert fyrirtæki er komið í beina samkeppni við einkaaðila á markaði. Þá er spurningin: Hvernig á að bregðast við? Er ásættanlegt að þannig sé það eða ber á grundvelli viðhorfa í sambandi við samkeppnislög að hafa það með öðrum hætti? Það er ekki nægjanlegt að mínu viti að gera þarna bókhaldslegan aðskilnað. Það er nauðsynlegt að þegar einkaaðilar hafa stundað, geta stundað og gert eitthvað betur en opinber aðili fái þeir að gera það.

Önnur hugsanleg leið er að afnema einkaleyfi Íslandspósts og gefa þennan markað frjálsan. Það er sú leið sem væri mér mest að skapi því að að mörgu leyti má segja að forustumenn og starfsmenn Íslandspósts hafi unnið gott starf en eiga að gera það á samkeppnissviði á sama hátt og aðrir einkaaðilar (Forseti hringir.) á markaðnum.