135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

framkvæmdir á Vestfjarðavegi.

246. mál
[20:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Öllum er það ljóst að uppbygging greiðra samgangna er forsenda jákvæðrar byggðaþróunar. Mjög margt hefur verið gert á þeim vettvangi undanfarin ár og enginn vafi er á því að það hefur styrkt byggðir víða um land. Við sjáum ótal dæmi þess að öflugar samgöngur hafa skapað nýja möguleika fyrir byggðir og skapað forsendur til uppbyggingar í atvinnumálum. Nútímalegar samgöngur hafa lækkað flutningskostnað og gert það að verkum að atvinnulífið hefur fengið nýja möguleika. Sú samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi mun enn fremur leggja grunn að miklum samgöngubótum á þeim fjórum árum sem hún nær til.

Dæmi um þetta er uppbygging Vestfjarðavegar frá Svínadal að Flókalundi. Þar hafa náðst góðir áfangar. Nýr vegur um Svínadal og vegagerð um Klettsháls í Austur-Barðastrandarsýslu sýnir okkur það svart á hvítu. Samkvæmt samgönguáætlun er ráðgert að varið verði 2,2 millj. kr. til framkvæmda á þessari leið. Þetta er umtalsvert mikið fé og mun gera okkur kleift að ráðast í miklar framkvæmdir á áætlunartímanum.

Jafnframt þessu var ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar nú í sumar í tengslum við svokallaðar mótvægisaðgerðir vegna minni þorskafla, að flýta framkvæmdum á þessari leið, þ.e. á leiðinni frá Vattarfirði til Vatnsfjarðar. Mikil og brýn þörf er á þessum vegabótum. Þarna er vegurinn löngu orðinn úreltur, hefur lítið burðarþol, þungatakmarkanir eru tíðar, vegurinn teppist vegna snjóa og enginn vafi er á því að vegna hins slæma ástands vegarins er flutningskostnaður til og frá byggðum í Vestur-Barðastrandarsýslu mun hærri en ef vegurinn væri í nútímalegu horfi. Það er því öllum ljóst að löngu er tímabært að á þessu verði ráðin bót.

Áætlað hefur verið að bjóða fyrst út veg á leiðinni frá Þorskafirði í Kollafjörð. Sú leið leysir af hólmi gamlan og úreltan veg sem m.a. liggur um tvo hálsa, Hjallaháls og Ódrjúgsháls, sem báðir eru farartálmar, ekki síst að vetrarlagi. Ætlunin er að hinn nýi vegur liggi út Þorskafjörð og síðan sem leið liggur að Hallsteinsnesi og yfir í Melanes skammt innan við Skálanes. Þar með leggst af lélegur vegur um hálsana báða sem og leiðin um Gufufjörð og Djúpafjörð þó sú leið verði áfram nýtt vegna umferðar innan sveitar.

Vegfarendur á þessari leið og einkanlega íbúar Vestur-Barðastrandarsýslu hafa lengi beðið þess að þessar framkvæmdir yrðu að veruleika. Úrskurður umhverfisráðherra sem heimilaði vegagerð um þessa nýju leið var því mikið fagnaðarefni enda hafði verið ágreiningur um þetta fyrirhugaða vegarstæði.

Enn fremur var mikið fagnaðarefni sú ákvörðun frá því í sumar sem fól í sér flýtingu framkvæmda á leiðinni frá Vattarfirði til Vatnsfjarðar. Sá vegur stenst engan veginn nútímakröfur um vegagerð, gamall moldarvegur sem er torfarinn og seinlegur yfirferðar. Nú skiptir hins vegar miklu máli að sem fyrst verði farið í þessar framkvæmdir. (Forseti hringir.) Fjármunir eru til staðar og vilji stjórnvalda liggur fyrir og enginn efast um þörfina fyrir þær.

Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) hvenær verða boðnar út eftirfarandi framkvæmdir um Þorskafjörð í Kollafjörð og milli Vattarfjarðar (Forseti hringir.) og Vatnsfjarðar?