135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

framkvæmdir á Vestfjarðavegi.

246. mál
[20:21]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram í svari hæstv. samgönguráðherra, að það sé markmiðið að þessum vegabótum verði lokið árið 2010 og vænti þess að ekki verði nein töf á þeim áformum. Það er margt sem hefur tafið framkvæmdirnar á undanförnum árum sem hefur komið fólki illa sem býr við þessar slæmu aðstæður sem eru með þeim verstu á landinu, ef ekki þeim allra verstu — hugsanlega jafnslæmar á norðausturhorni landsins.

Ýmislegt hefur orðið mönnum til þess að seinka þessum brýnu framkvæmdum, t.d. sú einkennilega hugdetta sem kom yfir menn á síðasta ári eða þarsíðasta, að það þyrfti að draga úr vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til þess að vinna á móti þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég vona að þeir sem eru í ríkisstjórn um þessar mundir fái ekki þá sömu veiki (Forseti hringir.) og gekk yfir þá, virðulegi forseti.