135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

tæknifrjóvganir.

239. mál
[20:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Nýlega mælti hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir frumvarpi um stofnfrumurannsóknir. Í þeirri umræðu gerði ég að umtalsefni góðan árangur íslensku tæknifrjóvgunardeildarinnar sem nú er rekin undir hatti ART Medica.

Þegar farið var af stað með meðferðir gegn ófrjósemi á Íslandi árið 1991 voru þær framkvæmdar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Árið 1996 var deildin flutt í stærra húsnæði á Landspítalanum. Í lok árs 2004 fluttist starfsemin í Kópavog og er nú einkarekin af þeim sérfræðingum sem fram að þeim tíma höfðu starfað hjá ríkinu.

Ófrjósemi er vaxandi vandamál á Íslandi og er skilgreint sem sjúkdómur. Á sama tíma er um nokkurt feimnismál að ræða og ekki hafa margir notendur þjónustunnar stigið fram og rætt málið opinskátt. Fyrsta íslenska glasabarnið fæddist árið 1992 og síðan hafa yfir þúsund börn fæðst í kjölfar meðferðar á tæknifrjóvgunardeildinni.

Við hæstv. heilbrigðisráðherra erum sammála um mikilvægi þessarar þjónustu en nú er staðan sú að samningar eru lausir milli ríkisins og ART Medica. Ég vakti athygli á því í umræðunni um stofnfrumur fyrir nokkru að árangur íslensku deildarinnar er það góður að athygli hefur vakið um allan heim. Við getum verið stolt af starfseminni og einmitt þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra eftirfarandi spurninga:

„1. Hversu mörg pör hafa farið í tæknifrjóvgunarmeðferð hjá ART Medica frá og með árinu 1991, flokkað eftir meðferðarúrræðum?

2. Hver hefur árangurinn verið?

3. Hver er meðalaldur kvenna sem hafa farið í meðferð?

4. Hve langir eru biðlistar og hve langur er biðtími eftir meðferð?

5. Hver hefur verið kostnaður við meðferðir ART Medica frá og með árinu 2004, sundurliðað eftir árum og meðferðarúrræðum?

6. Ef kostnaður hefur aukist, hverjar eru helstu ástæður?“

Sjöunda og síðasta spurningin lýtur að framlögum ríkisins og ég óska eftir upplýsingum um það hver framlög ríkisins eru.