135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

tæknifrjóvganir.

239. mál
[20:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýr svör við mörgum spurningum í mörgum liðum frá þeirri sem hér stendur. Svörin voru þess eðlis að þau gefa í sjálfu sér tilefni til töluvert mikillar umræðu og meiri en kannski gefst tóm til að taka á þeim tveimur mínútum sem ég hef til umráða í þessum stutta ræðutíma núna. Ég held hins vegar að það sé full ástæða til að við ræðum þetta mál í betra tómi í þinginu, þ.e. starfsemi ART Medica, en eins og ég sagði áðan eru samningar ríkisins við ART Medica lausir núna. Það er alveg ljóst af svörum ráðherrans að töluvert góður árangur hefur náðst hér, 40,8% árangur telst býsna góður í þessum bransa, ef svo má að orði komast, þar sem margir óvissuþættir spila inn í.

Ég tók hins vegar eftir því í svari ráðherrans við fimmtu spurningunni, og það kann að skrifast á mig, um kostnaðinn við meðferðir, að hæstv. ráðherra talaði um kostnað ríkisins, heildarkostnað, og síðan heildarkostnað ART Medica. Ég er kannski meira upptekin af kostnaði notendanna, þ.e. þeirra para sem í hlut eiga. Ég held að því miður hafi kostnaðarhlutdeild verið að aukast á undanförnum árum og það sé eitthvað sem við verðum að skoða. Það getur ekki verið stefna okkar að þeir sem glíma við þennan sjúkdóm, því að ófrjósemi er jú skilgreind sem sjúkdómur, og þurfa hugsanlega fara í þrjár til fjórar meðferðir standi uppi með kostnað sem hleypur kannski á einni til einni og hálfri milljón.

Þar sem ég sé að tími minn er að verða útrunninn tel ég að full ástæða sé til að ræða þetta mál frekar, hæstv. forseti, við betra tækifæri í þinginu.