135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

kostnaður af áfengisnotkun.

224. mál
[20:54]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þegar menn fara að reyna að nálgast þetta sem er sjálfsagt og eðlilegt er þetta allt saman háð nokkurri óvissu. Hins vegar er sjálfsagt og eðlilegt að velta þessu fyrir sér og reyna að rannsaka málið eins mikið og kostur er.

Það liggur alveg fyrir og menn skulu ekki gera lítið úr því, eins og hv. þingmaður kom að, að vandamál fylgja áfengisneyslu, hafa alltaf gert og munu örugglega alltaf gera meðan menn neyta áfengis. Á sama hátt er erfitt að reikna fram tekjurnar sem menn hafa af hlutum sem þessum og allt er þetta mikilli óvissu háð. Auðvitað kemur hvort tveggja til, bæði hið opinbera og ýmsir aðilar sem hafa tekjur sem tengjast áfengi og ýmiss konar þjónustu sem því tilheyrir

Við höfum í sjálfu sér ekki betri upplýsingar en komið hafa fram. Hv. þingmaður hefur skoðað þær upplýsingar sem eru til staðar í öðrum löndum og það hef ég svo sem reynt að gera líka. Það er alveg ljóst að við erum hér að tala um nokkuð mikla óvissu, hins vegar er engum blöðum um það að fletta að þessu fylgir kostnaður, það liggur alveg fyrir.