135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

áfengisneysla og áfengisverð.

225. mál
[20:59]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Hann spyr hvað ráðherra telji að áfengisneysla mundi aukast mikið frá því sem nú er ef samþykkt yrði að selja áfengi í smásöluverslunum.

Það er skemmst frá því að segja að það er erfitt að átta sig á því hvaða forsendur liggja hér til grundvallar. Ef verið er að vísa í það frumvarp sem liggur fyrir þinginu núna, og það væri þá einhver útgangspunktur í umræðunni, er skemmst frá því að segja að það er engin leið að áætla hvort eða hversu mikið áfengisneysla kæmi til með að aukast við það að selja áfengi í smásöluverslunum. Ýmsir þættir hafa áhrif á áfengisneyslu aðrir en aðgengi að því. Þar má nefna verðlag og kaupmátt auk þess sem forvarnastarf hefur áhrif til að draga úr áfengisneyslu.

Rétt er að hafa í huga, að hið opinbera hefur aukið til muna aðgengi að áfengi síðustu ár, m.a. með fjölgun vínbúða og rýmri afgreiðslutíma þeirra. Árið 1990 voru vínbúðir 20 talsins. Árið 2000 voru þær orðnar 35. Og á árunum 2001–2007 fjölgaði þeim um 12 og eru því 47 árið 2007. Flestar þær verslanir sem opnaðar hafa verið á undanförnum árum eru smáverslanir á landsbyggðinni og í dag rekur hið opinbera um 25 smáverslanir um sölu áfengis. Það eru verslanir ÁTVR sem eru í raun og veru með þjónustusamning við aðrar verslanir. Þessar verslanir eru oft reknar í rými við hliðina á öðrum verslunum og þjónustu, svo sem bensínsölu, matvöruverslun og barnafataverslun.

Ef við höldum áfram að nota fyrirliggjandi frumvarp sem útgangspunkt kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um breytingar ýmissa lagaákvæða um sölu áfengis og tóbaks að hið opinbera hefur dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum á undanförnum árum og áratugum. Nú er svo komið að til algjörra undantekninga heyrir ef ríkið eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Ein þeirra undantekninga er sala á áfengum drykkjum til einstaklinga, en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur enn sem komið er einkaleyfi á því að selja almenningi áfengi í smásöluverslun auk tóbaksgerðar og heildsöludreifingar á tóbaki.

Með afnámi einkasölu ríkisins á áfengi eins og frumvarpið gerir ráð fyrir mundi fyrirkomulag áfengissölu óhjákvæmilega breytast, en í stað ríkisins mundu einkaaðilar sjá þá um söluna með skilyrðum sem sveitarstjórnir á hverjum stað mundu setja. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum verði eftir sem áður heimilt að binda smásöluleyfi ýmsum skilyrðum, svo sem afgreiðslutíma og staðsetningu verslana, aðgengi og merkingum. Sveitarstjórnum væri í sjálfsvald sett hve ströng þessi skilyrði yrðu.

Hvorki er unnt að svara á þessari stundu hvort aðgengi að áfengi mundi aukast með tilkomu lagabreytingarinnar né hvort áfengisneyslan mundi breytast með nokkrum hætti. Eins og fram kemur er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að sveitarstjórnir hafi heimild til að setja strangari reglur en nú eru til staðar þar sem eru áfengisverslanir.

Varðandi seinni spurninguna, hvaða áhrif helmingslækkun áfengisgjaldsins hefði á áfengissölu og neyslu, hefur sá sem hér stendur engar forsendur til að svara henni. Það eru mismunandi þættir sem þar koma inn enda veit ég ekki til þess að nein tillaga liggi fyrir þinginu í frumvarpsformi um að gera slíkt. Það er í það minnsta ekki í því frumvarpi sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni.

Varðandi reynsluna frá Svíþjóð þekki ég það ekki beint. Það kemur mér hins vegar nokkuð á óvart hvernig hv. þingmaður lýsir þessu. Ég fer nokkuð mikið til Stokkhólms og þar eru þessar verslanir inni í matvöruverslunum og hef ég séð það með eigin augum. Ég hef svo sem ekki gert neina sérstaka könnun á því á milli landa en fyrirkomulagið sem menn eru með í hverju landi fyrir sig er nokkuð mismunandi eins og við þekkjum.