135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur á kreiki ef einhverjir taka það svo að það hafi einhvern tíma staðið til að foreldrar réðu því ekki hvernig þeir klæða börn sín og hvort þeir gefa stúlkum dúkkur og drengjum bíla. Það vakir ekki í þessari fyrirspurn eins og ég skil hana, heldur hitt hvort það sé ástæða til þess að hið opinbera ríði á vaðið með aðgreiningu fyrir sitt leyti. Að sjálfsögðu liggur það í hlutarins eðli að virða óskir foreldra strax á fæðingardeildum ef þær koma fram um það hvernig börnin skuli vera klædd.

Mér finnst fyrirspurnin fullgild og góð. Ég skil ekki alveg það fjaðrafok sem hún olli vegna þess að ég held að umræða um þessa hluti sem og marga aðra sambærilega sé góð, sjálfsagt mál að ræða og fara yfir. Aðgreiningin læðist víða aftan að okkur í þessum efnum, því miður. Hin kyngreinda veröld er ótrúlega föst í sessi með þeim afleiðingum sem við þekkjum á jafnréttisbaráttu kvenna. Þess vegna þakka ég hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að (Forseti hringir.) taka þetta mál upp.