135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir greinargóð svör. Þau komu mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ég hef fætt tvö börn sjálf og veit að það er vel tekið á móti ungbörnum og foreldrum á sjúkrastofnunum á Íslandi. Við getum verið stolt af þeim og því góða starfi sem þar er unnið.

Þegar drengurinn minn fæddist fyrir 27 árum var hann klæddur í rósóttan flúnnelsjakka en dóttir mín hins vegar í bleik föt þegar hún fæddist. Ég hef klætt dóttur mína í bleik föt í 12 ár og tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra að bleiki liturinn er litur sem femínistar hafa upphafið, hafa tekið í þjónustu baráttu sinnar fyrir jöfnum rétti karla og kvenna. Ég hef tekið þátt í að upphefja bleika litinn og skammast mín ekki fyrir það. Ég er stolt af því.

Hins vegar breytir það ekki því að umræðan um það hvort aðgreining kynjanna strax við fæðingu hafi þau áhrif að stúlkur fái blíðara viðmót en drengir, stálinu sé meira stappað í drengi, talað með öðrum tóni við drengi en stúlkur á fyrstu dögunum, finnst mér skipta máli. Við þurfum að ræða það og skoða.

Já, hæstv. iðnaðarráðherra, ótal rannsóknir hafa verið gerðar á því á hvern hátt börn laðast að litunum eftir kyni og við hvað þau eru vanin. Ég ætla að gefa hæstv. iðnaðarráðherra eina grein sem ég vitnaði í áðan því til staðfestingar.

Varðandi síðan miðstýrða ákvörðun um það hvað er í boði á opinberum sjúkrastofnunum þætti mér hollt að við prófuðum að láta það bleika og bláa ganga úr sér og skilja eftir það græna og gula og athuga bara með sjálfum okkur hvort eitthvað mundi breytast og þá hvað. Væri það ekki holl æfing fyrir okkur? Ég er ekki að tala um einhverja (Forseti hringir.) miðstýrða ákvörðun að ofan, heldur einungis að við verðum að opna huga okkar fyrir því (Forseti hringir.) hvað það er sem hefur áhrif á það hvernig við komum (Forseti hringir.) fram við kynin.