135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

styrking byggðalínu.

300. mál
[21:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég lagði fyrir nokkru fram þrjár tengdar fyrirspurnir til hæstv. iðnaðarráðherra sem allar varða raforkumál, skipulag raforkumarkaðarins og ekki síst flutningskerfið en reyndar einnig fleiri fyrirkomulagsatriði sem öll varða tilhögun og fyrirkomulag í raforkugeiranum. Hér er fyrri fyrirspurnin af tveimur sem svarað verður nú. Hún varðar flutningsgetu byggðalínu, spurninguna um öflugri hringtengingu orkukerfisins og kostnað sem væri því samfara að uppfæra byggðalínuna og auka þannig afhendingaröryggi raforkukerfis í heild. Það er skylt að geta þess að hv. þm. Ólöf Nordal var með fyrirspurn á dögunum sem kom inn á sama mál að nokkru leyti.

Þannig er mál með vexti að menn horfa nú mjög til þess hvernig staða þeirra er gagnvart afhendingaröryggi og afhendingarmöguleikum raforkukerfisins. Það getur skipt sköpum í sambandi við mögulega atvinnuuppbyggingu, og hefur reyndar lengi gert, að hafa fullnægjandi aðgang að nægjanlega öflugu dreifikerfi fyrir raforku. Það er sem sagt ekki nóg að orkan sé til í landinu og fáanleg á skaplegum kjörum — sem hefur mátt deila um hvort í boði hefur verið fyrir hinn almenna markað. Það er einn forréttindahópur sem allir vita hver er, stóriðjan, sem fær þar vildarkjör en hinn almenni markaður sætir öðru. Það er ekki alltaf nóg, heldur eru þess fjölmörg dæmi að menn hafa ósköp einfaldlega ekki getað fengið afhent rafmagn vegna takmarkaðrar flutningsgetu dreifikerfisins. Það á einkum við um hinn lágspenntari hluta þess og byggðalínuna og legg ég út af henni. Ég veit til að mynda eitt dæmi um loðnubræðslu sem ekki gat á sínum tíma tekið upp rafskautskatla vegna þess að það var ekki hægt að flytja rafmagnið á svæðið og menn urðu í staðinn að kynda upp með olíu. Ég sem sagt spyr hæstv. ráðherra:

1. Hversu mikla þörf telur ráðherra á að auka flutningsgetu byggðalínunnar og styrkja hringtengingu raforkunetsins?

2. Hver er áætlaður kostnaður við uppfærslu byggðalínunnar í 220 kV og hversu mikið mundi slík aðgerð bæta afhendingaröryggi í raforkukerfinu í heild?