135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

styrking byggðalínu.

300. mál
[21:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um þetta. Ég verð að viðurkenna eins og ég sagði í fyrra svari mínu áðan að fyrst og fremst fyrirspurnir hv. þingmanna til mín um þessi efni hafa opnað augu mín fyrir þeim möguleikum sem liggja í þessu, þ.e. að styrkja verulega flutningskerfið og hugsanlega að nýta fjárfestinguna í virkjunum miklu betur en gert er núna.

Ég get trúað hv. þingmanni fyrir því að það er ekki auðvelt að draga upplýsingar um þetta út úr ríkiskerfinu, hugsanlega vegna þess að menn vilja standa á bremsunum. Þeir gera sér grein fyrir því sem vinna eftir raforkulögunum að þar eru ákvæði sem beinlínis kveða á um skyldur þeirra, að fara heldur gætilega í þessum efnum vegna þess að þegar upp er staðið eru það iðnaðurinn, atvinnulífið og einstaklingarnir í landinu sem bera kostnaðinn af uppbyggingunni. Menn verða að gæta þess ákaflega vel að leggja ekki of mikið fé í uppbygginguna á þessu kerfi umfram þarfirnar.

Hins vegar er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, þetta er spurning um jafnræði. Ég nálgast þetta svolítið út frá þeirri einbeittu og háleitu stefnu ríkisstjórnarinnar sem ég þreytist ekki á að hafa uppi, bæði við kollega mína og þingið, að gera landið allt að einu atvinnu- og búsvæði. Það er nokkuð sem ekki mun takast á einu kjörtímabili, ég geri mér alveg grein fyrir því. Lykilatriðið í því er að tryggja öllum aðgang að grunngæðum eins og þeim að geta fengið afhenta orku. Ég tel að enn um langa hríð verði uppbygging atvinnulífs á landsbyggðinni töluvert tengd orkuvinnslu og þá held ég ekki endilega hinni hefðbundnu stóriðju. Ég verð einfaldlega var við það í starfi mínu sem iðnaðarráðherra að áhuginn á Íslandi og hinni grænu orku eykst mjög verulega hjá fyrirtækjum sem eru í hátækniiðnaði. Enn sem komið er beinist hann einkum að suðvesturhorninu en menn eru líka farnir að skoða annað og ríkisstjórnin er farin að ýta þessum möguleikum að öðrum (Forseti hringir.) en þá verðum við að geta afhent þeim orkuna.