135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eignarhald Landsnets.

302. mál
[21:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hér kemur fyrirspurn nr. tvö í röð þriggja sem ég hef, eins og áður sagði, lagt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og varða fyrirkomulag, skipulag og eignarhald í orkugeiranum. Að þessu sinni er spurt um eignarhald á fyrirtækinu Landsneti eða öllu heldur hvernig fyrir verði komið eign og rekstri hins háspennta hluta dreifikerfisins. Það er skoðun mín, hefur lengi verið og var frá byrjun, að úr því að menn lentu úti í þessum aðskilnaði á orkumarkaði á annað borð með innleiðingu Evróputilskipunar sem áskilur aðskilnað framleiðslu, flutnings og síðan dreifingar og smásölu hefði ríkið að sjálfsögðu átt að sjá um rekstur dreifikerfisins um veginn fyrir orkuna um landið og það sé heppilegasta fyrirkomulagið.

Önnur leið var valin og orkufyrirtækin lögðu inn í fyrirtækið Landsnet dreifikerfi sín eða þá hluta flutningskerfisins sem þeir áttu. Það voru fyrst og fremst Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða sem það gerðu og í raun eingöngu í byrjun en síðan mun fyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur hafa lagt eitthvað lítillega inn sem þýðir að það á lítils háttar eignarhlut í fyrirtækinu.

Spurningin lýtur að því hver afstaða hæstv. ráðherra sé til þess að ríkið leysi nú til sín Landsnet í gegnum eignarhald sitt á orkufyrirtækjum sem eiga það fyrirtæki að uppistöðu til, þ.e. ríkið á nú eitt alla Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða þannig að það er eingöngu hinn óverulegi eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur sem aðrir aðilar eiga í fyrirtækinu Landsnet. Það stendur vel á og ber vel í veiði ef menn vilja endurskoða þetta fyrirkomulag. Þetta kostar enga peninga heldur mundi ríkið leysa til sín að þessu leyti eign sína í þessum stóru orkufyrirtækjum og reka eftirleiðis sjálft flutningskerfið til að tryggja aftur jafnræði, til að aftengja með öllu hagsmuni framleiðendanna annars vegar og smásöludreifingaraðilanna hins vegar til að tryggja fullnægjandi afhendingaröryggi, til að tryggja að arðsemiskrafa einkaaðila — eða aðila þó í opinberri eigu sé sem lýtur einkaréttarlegum ákvæðum, m.a. um arðgreiðslur — skapi ekki þá hættu að menn dragi við sig nauðsynlega endurnýjun og uppbyggingu og fjárfestingar til að greiða arð út úr fyrirtækinu, ég tala nú ekki um ef þeir tímar gengju einhvern tíma í garð að einkaaðilar kæmu þarna að málum. Þá hræða sporin mjög samanber reynslu t.d. Breta af því að einkavæða járnbrautarteina, samanber reynslu manna annars staðar sem hafa einkavætt dreifikerfi raforku. Hér eru miklir hagsmunir í húfi þannig að ég er spenntur að heyra hvort (Forseti hringir.) svör hæstv. ráðherra verða jafnjákvæð í þessari fyrirspurn og hinni næstu á undan.