135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eignarhald Landsnets.

302. mál
[21:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Já, þetta var í sjálfu sér ágætt svar og alljákvætt en þó alls ekki eins jákvætt og við hinni fyrri fyrirspurn. Ég tek það fram í fyrsta lagi að ég hef ekkert misjafnt um fyrirtækið Landsnet að segja og ég hef engar efasemdir um að þar reyni menn að standa sig vel. Mér eru í öðru lagi mjög ljósir þeir kínamúrar sem menn reyndu að byggja inn í lögin — ég var þá í iðnaðarnefnd og tók þátt í því — og að aðrir menn skuli sitja í stjórn og allt þetta, en orkubransinn á Íslandi er lítill heimur sem við vitum að gríðarlega stórir hagsmunir eru á bak við og getur verið þrýstingur á það frá einstökum stórum eigendum, framleiðendum og hagsmunaaðilum að uppbygging eða eitthvað annað taki mið af þeirra ríku hagsmunum. Við skulum muna eftir orkufyrirtækjunum sem ekki eiga þarna eignaraðild. Það er alveg skiljanlegt að þau spyrji hvort þau séu kannski heldur sett hjá.

Ég held því ekki fram að svo hafi verið gert, ég tek það fram, en með hinni aðferðinni, að ríkið ósköp einfaldlega leysti þetta til sín, ætti þetta og ræki væri væntanlega auðvelt að tryggja að engar grunsemdir, enginn núningur, engar efasemdir væru uppi um að ekki væri reynt að gæta fyllsta jafnræðis. Að hafa þetta í þessu rekstrarformi felur í sér arðsemiskröfu því að það á að reka þetta eins og hvert annað fyrirtæki sem á að skila afgangi. Það er ekki bara spurning um kostnað, að það geti þá verið dýrara. Ríkið getur séð að það fái arðinn með öðrum hætti en endilega í formi peningagreiðslna. Það geta líka verið fólgnar í því hættur eins og ég kom hérna inn á. Rekstur flutningskerfisins er ekki samkeppnisrekstur, það er bara eitt flutningskerfi og það er viðurkennt og það er þarna á milli samkeppnisþáttanna, framleiðslunnar og síðan aftur dreifingarinnar þannig að ríkið getur gert þetta ef því sýnist svo og getur haft fyrir því ýmis þjóðhagsleg rök eins og þau sem við ræddum einmitt áðan. Það geta verið umhverfisástæður, afhendingaröryggi, jafnræðissjónarmið og margt fleira sem kemur inn í (Forseti hringir.) og gæti gert það að verkum að skynsamlegasta fyrirkomulagið væri ríkisrekstur á þessu rétt eins og varð niðurstaðan annars staðar á Norðurlöndunum.