135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

eignarhald Landsnets.

302. mál
[22:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður bendir á hlut sem er einkenni íslensks samfélags og sem við eigum alls staðar við að glíma. Það er návígið. Auðvitað er þetta rétt sem hv. þingmaður segir, það er giska stutt á millum þeirra sem mestu ráða í orkubransanum eins og hann kaus að nefna það og þeirra sem reka flutningsnetið. Bara til að segja það alveg hreint út, auðvitað hefur Landsvirkjun alltaf borið ægishjálm yfir allan markað og a.m.k. getað ráðið því sem hún hefur viljað ráða — þangað til núna. Það er bara svo einfalt mál.

Ég verð samt sem áður að segja að ég hef úr fjarlægð og líka af kynnum dáðst að Landsneti fyrir hvað það er sjálfstætt. Hættan er samt sem áður fyrir hendi. Þessari spurningu hefði kannski hv. þingmaður frekar átt að beina til hæstv. fjármálaráðherra sem fer með þessi mál. Ég get sagt honum það sem mína persónulegu skoðun að mér fyndist æskilegt að í framtíðinni yrði þetta gert skýrara. Ég skal líka segja honum á hvaða tímapunkti ég tel að það komi að því að við þurfum að taka afstöðu til þess. Það tengist fyrirspurn sem hv. þingmaður hefur áður varpað til mín um það sem kalla má þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Það sem mér finnst áhugaverðast eru gleggri skil á millum þeirra sem sjá um flutninginn annars vegar og hins vegar samkeppniseininganna. Þetta er enn þá í tillöguformi, þetta er í einhverju skæklatogi milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins. Við vitum ekki hver niðurstaðan verður.

Eins og ég upplýsti víst þingmanninn um áður eru valkostir í því. Þeir eru, eins og ég þekki þá enn þá, ekkert mjög þekkilegir, finnst mér. Þeir eru viðunandi. En það getur komið að því að við þurfum að ganga alla þessa leið og til að upplýsa þingmanninn um hvað það kostar okkur er mér sagt að það kosti ekkert mjög mikið, þ.e. þegar hlutur Orkuveitunnar var metinn inn í fyrirtækið um daginn þegar hún hætti að leigja línurnar og setti þær inn í það var það ekki metið á nema 6 milljarða (Forseti hringir.) sem er auðvitað fáránlega lágt en menn sem eru mér miklu framar að speki á sviði hagfræði gerðu það.