135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að á eftir verða hér umræður um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað farið þess á leit að fá í hendur þá samninga sem þróunarfélagið hefur gert um sölu á almannaeignum. Við hefðum viljað að þessir samningar yrðu kynntir milliliðalaust í nefndum þingsins, skatta- og efnahagsnefndinni og fjárlaganefndinni. Þetta hefur ekki gengið eftir og í þinginu hafa verið lagðir steinar í götu þeirra sem hafa óskað eftir þessum upplýsingum.

Nú geri ég fastlega ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hafi fengið alla þessa samninga í hendur þegar hann samdi þá skýrslu sem hann hyggst flytja þinginu hér innan tíðar. Fyrr mætti nú vera. Við höfum óskað eftir því að hér ríki jafnræði og að við sitjum öll við sama borð auk þess sem hér er um að ræða grundvallaratriði, að þingið fái í hendur þau nauðsynlegu gögn sem því ber til að sinna því aðhaldshlutverki sem því er ætlað að sinna samkvæmt stjórnarskrá landsins.

Við höfðum óskað eftir því á fundi þingflokksformanna með forseta þingsins að fá drögin að ræðu hæstv. forsætisráðherra í hendur áður en hann flytti ræðu sína. Skýrsla hans er að sönnu munnleg en hann mun að öllum líkindum styðjast við skriflegan texta og þann texta hefðum við óskað að fá í hendur.

Það var minn skilningur, og mér er kunnugt um að það var skilningur framsóknarmanna og þingmanna Frjálslynda flokksins einnig, að við ættum að fá þessi drög, þessar upplýsingar, í hendur í gær. Það hefur ekki gengið eftir og þegar grennslast var fyrir um þetta (Forseti hringir.) í morgun kom í ljós að þar var ekki að finna staf á blaði.