135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:48]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að ræða yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra en í ljósi orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar vil ég greina frá því að á fundi fjárlaganefndar í morgun voru samningarnir lagðir fram, þeir kynntir fjárlaganefndarmönnum og öllum gefinn kostur á að skoða þá og fara yfir þannig að þinginu hafa a.m.k. á þann hátt verið kynntir þessir samningar.

En eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra er félagsmálaráðherra fjarstaddur en á herðum hennar hvíldi talsverð vinna varðandi þær tillögur sem ríkisstjórnin kynnti í gær. Nefnd á hennar vegum með aðkomu aðila vinnumarkaðarins og annarra hagsmunaaðila tók þátt í að vinna þessa vinnu og ég held að það sé mikil ástæða til að fagna því skrefi sem ríkisstjórnin hefur tekið. Í reynd er það þannig að þegar á fyrsta ári er ríkisstjórnin að uppfylla stóran hluta af þeim loforðum sem hún gaf í sáttmála sínum. Það hlýtur að vera full ástæða til að fagna því af heilum hug en ekki að draga úr því eins og mér hefur þótt sumir gera í þessari umræðu.

Þessi vinna er þó vitaskuld rétt aðeins hafin og það er mikið eftir af henni og það er mikið eftir í því að einfalda þetta kerfi. Það er mikil vinna sem eftir á að vinna varðandi það að spinna saman atvinnutekjur, lífeyristekjur og almannatryggingabætur og tryggja að þar rekist ekki hvað á annars horn. Markmið okkar er að sjálfsögðu það að tryggja þeim sem minnst mega sín öflugt kerfi þannig að við getum búið til samfélag sem við erum virkilega stolt af. Þetta er skref í þá átt. Þetta er steinn í að hlaða þann múr að gera samfélagið eins öflugt og gott fyrir alla og nokkur er kostur.