135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni, ég hafði skilið það þannig að fyrir ættu að liggja drög að ræðu forsætisráðherra eða skýrslu um það mál sem á að taka hér fyrir á eftir. Ég hef ekki fengið skýringar á því hvernig stóð á því að það hefur ekki gengið eftir.

Það er í sjálfu sér gott að fyrir skuli liggja ákveðin gögn sem hefur verið dreift til fjárlaganefndar. En ekki hefur verið staðið við það sem var lofað á sínum tíma, á fundi þingflokksformanna með forseta, og það kemur þá væntanlega skýring á því hvernig á því stendur.

Varðandi það sem hér er um að ræða, þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað varðandi aldraða, ber að fagna því sem þar kemur fram. Á sama tíma verður þó að taka fram að stjórnarandstaðan hefur hér lagt fram, sérstaklega við frjálslynd, ýmsar tillögur í þessa veru og jafnvel þar sem gengið er lengra. Ekkert hefur þó verið gert með þær, þær ekki hlotið umræðu af hálfu stjórnarliða.

Mér finnst mjög athugunarvert fyrir þingið þegar framkvæmdarvaldið boðar til blaðamannafundar og kynnir að það eigi að verða verulega mikil fjárútlát á árunum 2008 og 2009 í kjölfar 2. umr. fjárlaga en ekki var um það getið við þá umræðu. Hins vegar er boðað til sérstaks blaðamannafundar til að gera grein fyrir því að ríkisstjórnin ætli að gera hluti sem heyrir undir Alþingi að samþykkja.

Ég verð að segja að mér finnst móðgun við Alþingi Íslendinga að standa þannig að málum, að koma ekki fyrst fram með þetta sjónarmið og hugmyndir í þinginu og heyra þingmenn tjá sig um þessi atriði og hvort vilji sé til að framkvæma hugmyndirnar. Það er dónaskapur við Alþingi Íslendinga að taka málið ekki fyrst upp hér.