135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í 16 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt ríkisstjórnina, nánast allan tímann, og stuðlað að einföldun og lækkun skatta á atvinnulífið og fyrirtæki sem hefur leitt til þess að tekjur ríkissjóðs hafa stóraukist og gert honum kleift að bæta kjör aldraðra og öryrkja í mörgum skrefum. Hér erum við að taka enn eitt skrefið samkvæmt þeirri yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í gær.

Tekjutryggingin var tekin upp 1971 og þar áður, löngu áður, var tekið tillit til tekna maka við úrskurð um lífeyri. Alla tíð hefur verið tekið tillit til tekna maka en núna á að hverfa frá því og ég er mjög ánægður með að menn hverfi frá þeim kratisma og þeirri félagshyggju sem felst í því að taka tillit til tekna maka. Ég styð einstaklingshyggjuna sem felst í því að líta á einstaklinginn sem sjálfstæðan aðila gagnvart lífeyri. Þetta er náttúrlega alveg í takt við stefnu míns flokks.

Ég vil líka benda á að það er í gangi vinna gagnvart öryrkjum þar sem meira verður litið á getu manna til starfa en vangetu eins og núverandi kerfi byggir á. Meiningin er að hverfa frá núverandi kerfi en það kerfi er afskaplega slæmt fyrir öryrkja og líta frekar til endurhæfingar og þess hvað öryrkinn getur gert en ekki hvað hann getur ekki gert. Það held ég að sé veigamesta breytingin sem að er stefnt með þessum aðgerðum. Ég er mjög ánægður með þetta skref en bendi á að þetta er að sjálfsögðu mögulegt vegna þess að menn hafa einfaldað og lækkað skatta á einstaklinga og fyrirtæki.