135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:54]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins til að spyrjast fyrir um svar ríkisendurskoðanda við tilmælum og beiðni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá 22. ágúst sl. um mat á lögmæti þessa gernings hér sem er samkomulag íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár. Hvar er það?

Ég átti satt best að segja, herra forseti, von á því að svar ríkisendurskoðanda mundi bíða okkar þingmanna hér þegar við kæmum til starfa á þessum morgni, og jafnvel að þingmenn eða a.m.k. þingflokksformaður þingflokks vinstri grænna fengi það fyrst í hendur eðli máls samkvæmt.

En nei, herra forseti, þrátt fyrir yfirlýsingu forseta hér í gær bólar ekkert á þessu svari. Þess í stað liggur á borðum þingmanna áróðursplagg frá þróunarfélaginu á Keflavíkurflugvelli. Það kemur vel á vondan, finnst mér, í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið um einmitt það efni og er til umfjöllunar á eftir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gert mjög alvarlegar athugasemdir við þennan gjörning og bent á að hann stenst ekki 40. gr. stjórnarskrárinnar og heldur ekki 29. og 36. gr. fjárreiðulaga. Við óskuðum eftir áliti ríkisendurskoðanda á þessum gjörningi og, herra forseti, nú eru liðnar sléttar 15 vikur síðan það erindi fór í gegnum forsætisnefnd þingsins. Það er ítrekað búið að kalla eftir þessu og þrátt fyrir yfirlýsingu forseta úr forsetastól í gær um að þetta kæmi í dag bólar ekkert á þessu (Forseti hringir.) plaggi. Ég hlýt að spyrja. Hvar er svarið?