135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja.

[10:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér eins og sumir aðrir þingmenn til að fagna mjög innilega þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsætisráðherra gaf áðan. Hér er verið að stíga ákaflega stórt skref til að bæta hag og kjör þeirra sem verst eru settir í samfélaginu. Fyrir hönd Samfylkingarinnar þakka ég Sjálfstæðisflokknum fyrir gott samstarf að þessu máli. (Gripið fram í.)

Hér hafa þrír þingmenn Vinstri grænna kvatt sér hljóðs í kjölfar þessarar sögulegu yfirlýsingar. Tveir þeirra hafa eðlilega kosið að gera að umræðuefni allt annað en þessa merku yfirlýsingu. Það má kannski leita skýringa á viðbrögðum vinstri grænna í þeirri staðreynd að þessi tillaga ríkisstjórnarinnar sem felur í sér að það er verið að færa á ársgrundvelli 5 milljarða til þessara hópa gengur lengra en tillögur vinstri grænna. (SJS: Nei.)

Hv. þingmanni Steingrími J. Sigfússyni fyrirgefst að vera rétt einu sinni hrokkinn inn í sitt gamla hlutverk að vera alltaf fúll á móti. Hér er verið að stíga verulega mikilvægt skref. (Gripið fram í.) Og hér hefur það gerst að eftir sex mánuði er ríkisstjórnin búin að uppfylla meira en helminginn af þeim loforðum sem hún gaf þessum hópum.

Og hrós sé hv. þm. Guðna Ágústssyni og Kristni H. Gunnarssyni sem töluðu málefnalega um þessa gjörð. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að þetta væri áfangi í rétta átt, góður áfangi, og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði að auðvitað væri verið að taka utan um þá verst settu eins og vera ber.

Hér er verið að uppfylla margt af því sem ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon höfum árum saman barist fyrir. Og hvernig væri að hv. þingmaður kæmi einu sinni og leyfði sér þann munað að vera glaður og gleðjast (Forseti hringir.) fyrir hönd þeirra sem verið er að liðsinna? (Gripið fram í.)