135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skýrsla forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

[11:36]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kem léttari að klyfjum en síðasti ræðumaður en rétt er það að mikið er komið af gögnum um þetta mál. Miðað við allar þær upplýsingar sem fram hafa komið varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með skýrslu hæstv. forsætisráðherra í morgun. Ég varð líka fyrir vonbrigðum þegar ég áttaði mig á því þegar ég kom til Reykjavíkur um áttaleytið að ekki stæði til að dreifa þeirri skýrslu en ég verð að taka tillit til þess að forsætisráðherra hefur átt mjög annríkt við góðverkin sem ber vissulega að þakka þótt ég hefði talið, með tilliti til efnahagsástands og stöðu á hlutabréfamörkuðum, að önnur verk væru þar brýnni. Það mál sem við ræðum hér snýr að ráðstöfun eigna sem voru í það minnsta í eigu ríkisins en hafa nú harla óvissa stöðu.

Ég vil í fyrstu upplýsa að ég hef séð þá samninga sem hér hefur mikið verið rætt um, þ.e. ég sá afrit af þeim í fjárlaganefnd á þessum morgni. Þar voru okkur sýndir þessir samningar undir trúnaði og við fórum ekki með þá út, en þeir voru óundirritaðir. Ég verð að viðurkenna að margt þótti mér mjög merkilegt í þeim samningum og kom mér nokkuð á óvart, sérstaklega með þann samning sem stærstur er. Ef ég stikla mjög stórt á helstu kennitölum þar hleypur hann á 14 milljörðum sem ríkið afsalar sér í eign gegn fullri og ótakmarkaðri veðheimild viðkomandi kaupanda sem getur þar með veðsett eignina að fullu þar sem um er að ræða námsmannaíbúðir með tiltölulega hagstæðum lánum frá Íbúðalánasjóði og jafnvel 100% láni en þarf í rauninni, til að koma þessu veði á, ekki að greiða nema sem nemur 1 milljarði. Þó að ég vilji alls ekki gera því skóna að þetta fari öðruvísi en vel undrast ég vissulega þennan samning og ég verð að viðurkenna að miðað við það sem ég hélt áður kemur mér nokkuð á óvart að svona skuli samið. Það er ekki nóg með að þarna sé veðheimildin ótakmörkuð heldur eru afborganirnar sem greiðast á næstu þremur árum vaxtalausar og tæpast verðtryggðar.

Mig langar að víkja aðeins að þessari umræðu og geri fyrst að umfjöllunarefni að í þessum samningum er margt mjög óljóst fyrir mér um hvað hefur verið gert og hvað af þeim muni standa. Eins og ég tók fram hef ég ekki séð undirritaða samninga og ég hef ekki séð samninga sem eru hafnir yfir lög. Ég hef ekki séð það sama og meiri hluti fjárlaganefndar telur sig hafa séð, að það sé óyggjandi að færa þessa 14 milljarða til tekna hjá ríkissjóði inn á fjáraukalög þessa árs og fjárlög næsta árs. Fyrir því eru margar ástæður. Ein er vitaskuld vanhæfisreglurnar sem ég er enginn sérfræðingur um en verð að játa að af því sem ég hef áður lesið þarf ég að fara allt aftur til Hvamms-Sturlu til að finna annan eins vef ættartengsla og pólitískra tengsla og hér eru.

Málum er sem sagt þannig hagað að fulltrúar í sama stjórnmálaflokki sitja allt í kringum borðið. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er í stjórn Þróunarfélags Keflavíkur og hann er stjórnarformaður Keilis. Hann á persónulega hlut í báðum þessum félögum [* sjá leiðréttingu á þessum orðum í ræðu þingmannsins kl. 14.28 síðar í dag] eftir því sem mér er sagt og hann er þarna líka sem fulltrúi Reykjanesbæjar.

Annar bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar, Sjálfstæðisflokks, er stjórnarformaður fyrirtækisins Base — sem er ekki þjóðlegt nafn en látum það vera — og það félag hefur einnig keypt eignir á varnarsvæðinu. Þessi sami fulltrúi er einn eigenda hótels í Keflavík sem á 9% í hlutafélaginu Base.

Þriðji bæjarfulltrúinn er stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur sem á 22% hlut í Háskólavöllum og hlut í Base.

Eignarhaldsfélagið 520 ehf. er svo í eigu fjórða bæjarfulltrúans og hefur keypt 800 fermetra skemmu af Base á varnarsvæðinu.

Fimmti fulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er jafnframt aðstoðarmaður fjármálaráðherra og kemur þannig að samningum ríkisins. Síðan má bæta því við að fleiri sem þessu tengjast eru nátengdir ættarböndum fjármálaráðherra.

Það var vitaskuld svo í tíð Hvamms-Sturlu að vanhæfisreglur voru mjög óvissar en þá höfðu menn líka mjög skilvirkar og skjótvirkar aðgerðir til að leysa úr því sem þeim líkar ekki. Nú þurfum við á reglum sem þessum að halda og það er brýnt að eftir þeim sé farið og brýnt að kannað verði til hlítar hvað þýðingu það vanhæfi sem gæti verið til staðar hefur fyrir þessa samninga, hvaða þýðingu það hefur fyrir lagalegt gildi þessara samninga. Það er einmitt út frá því sem ég hef mjög gagnrýnt þann gerning og mun koma enn nánar að þessu við umræðu um fjáraukalög í dag. Ég hef gagnrýnt þann gerning að fjárlaganefnd skuli ætla að færa tekjur einkahlutafélagsins Kadecos inn á ríkisreikning. Forsendurnar fyrir því eru mjög veikar þar sem fjármálaráðherra hefur um það samið að hlutafélagið Kadeco sem er einkahlutafélag — að vísu í eigu ríkisins en ekki skilyrðislausri eða það er valkvætt hvort svo verði áfram, það er í dag í einkaeigu ríkisins en það er hlutafélag, ekki ohf., það skiptir svolitlu máli. Málið liti strax öðruvísi út ef gengið hefði verið frá því þannig að þetta væri opinbert hlutafélag en þetta er einfaldlega einkahlutafélag. Í samningum ríkisins — því að þetta eru samningar milli tveggja lögaðila — og þessa einkahlutafélags er skýrt kveðið á um tilgang þessa einkahlutafélags og það kemur nokkuð á óvart að tilgangur þess er hvergi að skila arði eða tekjum í ríkissjóð. Það er hvergi lagt upp með það að eignir þær sem hér um ræðir skuli skila neinu í ríkissjóð. Félaginu er með nokkru móti afsalað öllum þessum eigum, til að selja þær eða verja andvirðinu til þeirra verka sem félagið hefur sem sinn tilgang samkvæmt stofnsamþykktum sínum, samningum við ríkið og öðrum gögnum sem öll liggja opinberlega frammi. Ég vil taka fram í þessari umræðu að langmest af þeim gögnum sem skipta máli til að átta sig á þessu öllu saman liggur frammi. Vandamálið er ekki sú pappírsleynd sem hér hefur verið gagnrýnd nokkuð og ég get að hluta til tekið undir. Vandamálið er ef menn taka ekki mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir, ef stjórnarmeirihlutinn er svo sterkur hér að það er alveg sama hvað liggur fyrir, það er alveg sama hversu hrópandi staðreyndirnar eru á að eitthvað verði gert. (Gripið fram í.) Ef stjórnarmeirihlutinn er einfaldlega svo sterkur að hann getur látið það vera að gera nokkuð, hann geti einfaldlega með einfaldri handauppréttingu látið hluti standa sem eru samt utan þess sem eðlilegt getur talist.

Það sem hefur legið fyrir í umfjöllun málsins í fjárlaganefnd er að bæði meiri hluti fjárlaganefndar og ríkisendurskoðandi hafa talið ákvæðið sem ég minntist á hér í gær um 100% söluþóknun — það er kannski rétt að taka af öll tvímæli með að þarna er ekki um venjulega söluþóknun að ræða. Mig langar að vitna aðeins í samning ríkisins og þessa ágæta hlutafélags, Kadecos, en þar segir, með leyfi forseta:

„Til að hefja rekstur og undirbúning starfsemi samkvæmt samningi þessum fær verksali sérstaka þóknun á fjáraukalögum 2006 og fjárlögum 2007.

Þóknun verksala að öðru leyti felst í því að hann hirðir þær leigutekjur sem fást vegna leigðra eigna á þróunarsvæðinu auk þess sem verkkaupi greiðir honum þóknun af söluverði seldra fasteigna á svæðinu. Fyrstu 2 ár samningstímans mun þóknunin nema 100% af söluverði fasteigna. Eftir þann tíma mun þóknun til verksala verða tekin til endurskoðunar miðað við verkefnastöðu og fjárhag félagsins.“

Þegar þetta ákvæði var tekið til umfjöllunar í fjárlaganefnd gat ríkisendurskoðandi þess sérstaklega að við samningsgerð þessa væri mönnum skylt að fara að lögum. Nú er vilji meiri hluta fjárlaganefndar að leiðrétta þær lagamisfellur sem verða hjá Stjórnarráðinu með því að færa tekjur Kadecos inn í ríkisreikning. Það mun algert fádæmi að tekjur einkahlutafélaga séu færðar inn í ríkisreikning. Ríkisreikningurinn er enginn samstæðureikningur ríkissjóðs og einstakra hlutafélaga úti í bæ. Það hefur ekki verið þannig fram að þessu. Nú verður þar brotið blað sem markar nokkur tímamót.

Með þeim samningi sem ríkisvaldið gerir, í þessu tilfelli við einkahlutafélagið Kadeco sem síðan er aftur seljandi þeirra eigna sem eru á Keflavíkurflugvelli, skapast ákveðnar væntingar, þá skapast réttmætar væntingar kaupanda. Þessar réttmætu væntingar kaupanda taka mið af þeim upplýsingum sem liggja opinberlega fyrir um hlutafélagið Kadeco. Þær kveða á um að tekjum Kadecos verði varið til uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli og ég mótmæli þeim skilningi vegna þess að hann er ekki allsendis í samræmi við þær fréttir sem má finna um málið á þeim tíma, að 100% ákvæðið hafi verið sett inn vegna þess að menn teldu víst að svo sáralítið mundi seljast innan tveggja ára. 100% ákvæðið var sett inn vegna þess, og það kemur fram í ýmiss konar gögnum um málið, að það var reiknað með því að hreinsun á svæðinu gæti kostað 10–12 milljarða. Það var reiknað með því að hlutafélagið Kadeco þyrfti á öllu þessu fé að halda þrátt fyrir nokkra óvissu um hversu mikill sá kostnaður væri. Þá voru þær réttmætu væntingar skapaðar hjá kaupendum þessara eigna að allt það andvirði sem þeir mundu greiða fyrir þær færi til uppbyggingar á svæðinu, það rynni ekki inn í ríkissjóð til óvissra verkefna hans. Og þetta skiptir máli upp á gildi þeirra kaupsamninga sem nú liggja fyrir. Við skulum ekki útiloka að við þá tilfærslu að færa þessar greiðslur inn í ríkissjóð gætu þeir samningar verið upphafnir. Nú er ég ekki að mæla því bót að þetta 100% ákvæði hafi verið sett inn með þessum hætti. Ég hefði raunar talið miklu eðlilegra að ríkið sjálft hefði selt þær en ekki sérstakt einkahlutafélag í þess eigu. Ég tel í rauninni allan undirbúning Stjórnarráðsins á þessu máli varðandi stofnun einkahlutafélagsins og (Forseti hringir.) þær reglur sem þar eru settar ekki fullnægjandi og hefði þurft að skoðast miklu betur.