135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[13:45]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar við 3. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2007. Þeir sem standa að þessu nefndaráliti ásamt mér eru hv. þingmenn Bjarni Harðarson, fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, og Kristinn H. Gunnarsson, sem situr í fjárlaganefnd fyrir hönd Frjálslynda flokksins í fjarveru hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar sem á þar fasta setu fyrir hönd síns flokks.

Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson, hefur mælt fyrir áliti meiri hlutans og ég vil taka það fram, eins og hv. þingmaður rakti hér, að mörg af þeim verkefnum sem unnið er að og unnin eru í fjárlaganefnd eru unnin í góðu samstarfi, kallað er eftir upplýsingum og mat lagt á upplýsingar og gögn sem berast og reynt er að vinna verkið þannig í heild á sem gleggstan og ábyggilegastan hátt. Ég vil hvað þá hlið áhrærir í störfum nefndarinnar þakka fyrir gott samstarf innan hennar, milli nefndarmanna og milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu. Í sjálfu sér eru fjárlögin það verkefni þingsins sem allir koma að og reyna að gera það á sem ábyrgastan hátt en að sjálfsögðu skilja leiðir í veigamiklum atriðum. Fjárlögin eru hið pólitíska plagg, þau eru hin pólitíska yfirlýsing ríkisstjórnar á hverjum tíma og því er eðlilegt að þar séu ólíkar leiðir í áherslum og stefnumörkun.

Um fjáraukalagafrumvarpið gildir hins vegar annað. Fjáraukalög eru fyrst og fremst til þess að taka á atriðum innan fjárlagaársins sem samþykkt fjárlög hafa ekki náð að taka utan um. Um fjáraukalög og heimildir til fjáraukalaga gilda mjög ströng og ákveðin ákvæði í lögum um fjárreiður ríkisins. Hér hefur ítrekað verið vakin athygli á því, bæði í umræðu um fjárlög og fjáraukalög í haust og einnig á fyrri þingum, hve framkvæmdarvaldið hefur í rauninni farið frjálslega og óábyggilega á ýmsan hátt með fjárlagavaldið, tekið sér heimildir til að samþykkja eða greiða útgjöld, skuldbindingar sem Alþingi hefur ekki samþykkt. Margar af þeim skuldbindingum sem framkvæmdarvaldið hefur gert á eigin spýtur er nú verið að taka inn í fjáraukalögin í heild sinni.

Þessi vinnubrögð hef ég gagnrýnt mjög harðlega og tel að eitt brýnasta málið á þingi sé að breyta lögum um fjárreiður ríkisins með þeim hætti að skýrt sé tekið fyrir það að framkvæmdarvaldið, ráðherrarnir, taki sér ráðherraræði, taki sér þingræðið og ákveði gjöld og upphæðir, greiðslur og skuldbindingar án atbeina þingsins. Þá eigi að afgreiða fjáraukalög á Alþingi í raun svo oft sem þurfa þykir ef ný verkefni koma inn sem fjárlögin hafa ekki náð að taka utan um, ellegar að það sé skylda að fjáraukalög komi að vori og taki þá á þeim lagabreytingum og verkefnum sem þingið kann að hafa samþykkt og hafa í sér skuldbindandi ákvarðanir, útgjöld eða tekjuöflun sem fjárlög gerðu ekki ráð fyrir þegar þau voru samþykkt. Ég hef flutt um þetta frumvarp á undanförnum árum en því miður hefur Alþingi ekki orðið við því og við búum við sömu vinnubrögðin áfram og stöndum frammi fyrir eins konar ráðherrafjárlögum þegar við fjöllum um fjáraukalögin í heild sinni.

Það er skýrt kveðið á um að ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði án heimildar Alþingis. Þó er ein undantekning, sem er í 33. gr. fjárreiðulaganna, en þar er alveg skýrt kveðið á um vinnulag og hvernig þetta skuli gert. Þar er einungis veitt sú undanþága að verði náttúruhamfarir eða mjög óvænt og skyndileg útgjöld, kjarasamningar eða slíkar skuldbindingar, sem heimila ríkisstjórn að samþykkja útgjöld án atbeina Alþingis þá beri ríkisstjórninni skylda til að koma með það strax, bæði til fjárlaganefndar og inn á Alþingi til umfjöllunar og samþykktar. Aðrar heimildir eru ekki fyrir hendi og allar aðrar heimildir á að bera fram á Alþingi á hverjum tíma eftir því sem þörf krefur. Það er ekki svo að margar þeirra upphæða, skuldbindinga sem ríkisstjórnin, ráðherrarnir eru að samþykkja upp á sitt eindæmi eða með samþykki ríkisstjórnarinnar séu ekki góð og gild mál en þingið á að staðfesta og samþykkja þær aðgerðir fyrir fram, ekki eftir á eins og við erum að gera hér.

Frú forseti. Ég minnist þess að á fyrri árum, í sameiginlegri stjórnarandstöðu Vinstri grænna og Samfylkingar, héldu einmitt fulltrúar Samfylkingarinnar mjög ákveðnar ræður í þessum efnum og fordæmdu ráðherravaldið, ráðherraræðið, ráðherrafjárlögin, og að fara á svig við fjárreiðulögin. Þó að ég reyndi að flytja mál mitt af miklu kappi á þeim tíma þá beittu þingmenn Samfylkingarinnar, bæði í hv. fjárlaganefnd og á Alþingi, sér enn harðar í að gagnrýna þessi vinnubrögð, ráðherraræðið.

Nú fjöllum við um ný fjáraukalög sem ná yfir allt árið 2007, ekki bara hálft árið, hjá nýjum ríkisstjórnarmeirihluta — Framsókn fór út úr ríkisstjórninni um mánaðamótin maí/júní, á miðju ári, og Samfylkingin kom inn í ríkisstjórnina í byrjun júní, hefur verið í ríkisstjórn í hálft ár — og við horfum upp á nákvæmlega sömu vinnubrögðin við afgreiðslu fjáraukalaga. Hér er áfram sullað inn ákvörðunum sem ráðherrar Samfylkingarinnar hafa tekið í ráðuneytum sínum alveg eins og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu í sínum ráðuneytum og ráðherrar Framsóknarflokksins gerðu meðan þeir voru í ríkisstjórn, og meiri hlutinn hefur engu breytt þar um. Enginn mælir þessum vinnubrögðum bót, er það, hvort sem hann er ráðherra hjá Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki eða Samfylkingu?

Það sem ég er aðallega að höfða til hér er að ég hefði viljað sjá þessa breytingu nú en segja ekki eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður nefndarinnar: Við reynum að gera það næst. Ég virði þau orð og vonast til að svo verði en ég hefði viljað sjá það núna strax að tekið hefði verið á þessu máli af meira afli og meiri þunga en hér sér stað. Læt ég útrætt um það, frú forseti, en minni á að ekki hefur orðið nein breyting í sjálfu sér, eðlisbreyting á vinnubrögðum varðandi fjáraukalagagerðina frá því sem verið hefur fyrri ár, því miður.

Snúum þá aðeins að þessu máli í heild sinni. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Gunnar Svavarsson mælti hér fyrir um að nefndin vann að skiptingu á ákveðnu fjármagni sem sett var inn í ákveðna liði, bæði á lið menntamálaráðuneytis vegna framhaldsskóla, og lið heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis vegna öldrunarstofnana og heilbrigðisstofnana og skipaðir voru þeir starfshópar sem hv. þingmaður minnist á til að skipta þeim fyrir fram gefnu peningum sem voru. Ég sagði strax í upphafi að þessir peningar væru of litlir, þetta væru of lágar upphæðir til þess að þær næðu utan um þau verkefni sem þarna stóðu út af. Því miður vildi meiri hlutinn ekki fallast á að verja meiri fjármagni til þessara verkefna en raun varð á.

Við fulltrúar minni hlutans flytjum því breytingartillögur sem dreift verður hér á eftir sem lúta einmitt að því að styrkja fjárhag þessara stofnana, heilbrigðisstofnana, elli- og hjúkrunarheimila í landinu, til viðbótar því sem hv. þingmaður gerði grein fyrir. Ég vil minna á, og því verða nánar gerð skil seinna í umræðunni, ég vil minna á heilsugæsluna í Reykjavík. Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu skortir verulega fjármagn og á henni er mikill halli sem torveldar starfsemi og þjónustu hennar. Fulltrúar heilsugæslunnar komu á fund nefnda þingsins til að gera grein fyrir því og mér finnst fullkomlega óábyrgt að ekki sé tekið á þeim halla sem þar er. Þess vegna flytjum við tillögur um að varið verði fjárhæð upp á 400 millj. kr. til að taka á þeim halla sem nú er.

Sömuleiðis er gríðarlegur vandi á elli- og hjúkrunarheimilum landsins, bæði á höfuðborgarsvæðinu og út um land, þó að nokkurt fjármagn hafi verið veitt til þessara heimila til að rétta af hallann. Við vitum hvernig staðan hefur verið á undanförnum missirum. Það hefur verið mikil samkeppni um starfsfólk, allt of lág laun, stofnanirnar hafa orðið að greiða mikla yfirvinnu en þjónustan verið í fjársvelti og eðlilegur og nauðsynlegur rekstrarkostnaður ekki viðurkenndur. Ég tel mjög óábyrgt að taka ekki á starfsemi þessara stofnana.

Ég er með bréf frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu þar sem rakinn er halli þeirra stofnana sem eru undir þeim samtökum, þar eru m.a. Ás, Dalbær, Droplaugarstaðir, Eir, Fellsendi, Garðvangur, Grund, Hjallatún, Hlíðarvangur, Holtsbúð, Hrafnista, Hulduhlíð, Hvammur, Höfði, Kumbaravogur, Lundi, SÁÁ, Seljahlíð, Sjálfsbjargarheimilið Skjól, Skógarbær, Sóltún, Sunnuhlíð, Víðines, Vífilsstaðir, Öldrunarstofnun Akureyrarbæjar.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu hefur tekið saman upplýsingar um rekstrarhalla öldrunarheimilanna frá 2002 til 2007. Uppsafnaður rekstrarhalli 20 stofnana þessa árs eru rúmlega 2,5 milljarðar kr. Er þá ekki tekinn með halli áranna fyrir árið 2002 en það eru verulegar upphæðir. Í töflunni hér að neðan er rakinn rekstrarhallinn sundurliðaður á hvert ár samkvæmt niðurstöðu rekstrarreiknings eins og hann birtist í ársreikningi stofnana ár hvert.“

Það er síðan rakið upp á 2,5 milljarða kr. samtals hjá þessum stofnunum. Enn segir, með leyfi forseta:

„Daggjöld öldrunarheimila hafa verið of lág og a.m.k. þrisvar á undanförnum sex árum hefur verið veitt fé á fjáraukalögum til að leiðrétta fjárhag heimilanna. Sú leiðrétting hefur reyndar ekki gert upp rekstrarhalla heimilanna að fullu og hafa heimilin því þurft að velta honum á undan sér, sum í mörg ár. Við rekstrarvanda undanfarinna ára og of lág daggjöld bætast síðan erfiðleikar við mannahaldið síðustu missiri og hefur launakostnaður af þeim sökum aukist meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.“

Þetta eru aðeins þessi hjúkrunarheimili en síðan höfum við líka elli- og hjúkrunarheimili úti á landsbyggðinni sem mörg eru rekin á ábyrgð sveitarfélaganna. Þar er líka halli, mikill uppsafnaður halli og rekstrarvandi. Við sem erum í fjárlaganefnd þekkjum mörg dæmi um verulegan uppsafnaðan halla og fjárhagsvanda á elli- og hjúkrunarheimilum. Mér finnst ábyrgðarlaust að taka ekki á þeim málum. Við fulltrúar í minni hlutanum leggjum því til að fjármagni verði varið upp í halla þessara stofnana til að mæta honum að hluta.

Svo eru það sjálfar heilbrigðisstofnanirnar á landsbyggðinni. Ég nefni t.d. Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og fleiri heilbrigðisstofnanir. Þótt að einhverju leyti hafi verið komið til móts við uppsafnaðan halla hjá þessum stofnunum sitja þær samt uppi með gríðarlegan halla. Hvernig eiga stofnanirnar sem slíkar að greiða upp slíkan halla og horfa svo jafnvel fram á það að fjárveitingar næsta árs standi ekki undir rekstri sem þar kemur?

Þegar á heildina er litið, frú forseti, sýnist mér að í heilbrigðisþjónustunni, heilsugæslunni og á öldrunar- og hjúkrunarheimilunum, þrátt fyrir nokkra viðleitni af hálfu fjárlaganefndar til að koma til móts við halla ýmissa þeirra, sé gríðarlegt gap sem beri að taka á. Tillögur okkar lúta að því.

Ég vil því næst, frú forseti, ræða aðeins um svokallaðar mótvægisaðgerðir, sem ríkisstjórnin hafði boðað, og koma inn í fjáraukalagafrumvarpið og eiga þá að koma til framkvæmda á þessu ári. Nú er þetta ár að verða liðið, ég hef ítrekað kallað eftir skiptingu á þeim fjármunum sem þar eru. Tökum dæmi: Verja á fjármagni til framkvæmda við fasteignir ríkisins á svæðum þar sem aflasamdráttur leiðir til fækkunar starfa. Hér eru tilgreindar 333 milljónir sem eiga að notast á árinu 2007, sem er að verða liðið. Ég hef beðið um skiptingu á þessu fé því að það skiptir hvert byggðarlag máli hvert sú upphæð fer. Ég kalla enn eftir þeirri skiptingu, hún hefur ekki komið fram og er þó árið að verða liðið og samkvæmt lögum og fjáraukalögum á að ráðstafa þessu fé á þessu ári enda væri ekki annars verið að flytja um það tillögu. (Gripið fram í: Eigum við ekki að samþykkja lögin fyrst?) Ég kalla eftir tillögu að skiptingunni. (Gripið fram í: Áður en lögin eru samþykkt?) Kalla eftir tillögu að skiptingunni, því að hún er jú hluti af afgreiðslu málsins.

Einnig er hér líka tillaga að skiptingu um átak — því að þetta er árið 2007, athugið það. Mér sýnist að hv. þingmenn, sem grípa hér fram í, átti sig ekki á því að árið 2007 er að verða liðið. (Gripið fram í.) Það er nú með þennan rekstrarræfilsgrunn oft og tíðum að hann getur verið erfiður til greiðslu.

Þarna eru fleiri liðir eins og Atvinnuleysistryggingasjóður og einnig líka styrkur, framlag upp á 250 millj. kr., til sveitarfélaga sem verða fyrir tekjumissi vegna samdráttar í aflamarki þorsks og á að koma til framkvæmda á þessu ári. Ég vil sjá þá tillögu að skiptingu.

Svona er þetta enn, frú forseti. Þegar síðan litið er á málin í heild verð ég að segja að oft og tíðum hefur gengið erfiðlega að ná tilhlýðandi upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu um stöðu einstakra stofnana og viðfangsefna. Ég tel það eitt af brýnustu verkefnum fjárlaganefndar að finna leið til að tryggja meiri skilvirkni í boðleiðum og upplýsingagjöf á milli Alþingis og ráðuneyta. Það veldur mér vonbrigðum að færa eigi margar af þeim stofnunum sem nú á að fara að færa á milli ráðuneyta með uppsafnaðan halla á bakinu. Ég nefni Landbúnaðarháskólann, ég nefni Hólaskóla, ég nefni fleiri stofnanir á vegum landbúnaðarráðuneytisins sem verið er að skipta upp og tvístra og bera með sér halla. Ég tel það ekki góð vinnubrögð. Þetta eru A-hluta stofnanir og eiga ekki að fara með uppsafnaðan halla frá fyrri árum og ég tala nú ekki um, ef af verður, þegar þær fara inn í ný ráðuneyti. Það væri þá vert að þær fengju að byrja þar á sléttum grunni. Fleiri atriði mætti gagnrýna, hvaða stofnanir eru valdar til þess að fá uppsafnaðan halla sléttaðan og hverjar ekki og með hvaða hætti þær eru síðan sendar ráðuneytum.

Við 2. umr. fjáraukalaga lögðum við fram breytingartillögur sem lutu annars vegar að svokallaðri Grímseyjarferju. Þar lögðum við í minni hlutanum, fulltrúar VG, Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins, til að komið yrði með fjármagn beint til að mæta kostnaðinum við Grímseyjarferju upp á 487 millj. kr. frekar en að vera að taka það sem millifærslur innan Vegagerðarinnar. Það er áfram skoðun tillögumanna að þannig eigi að gera það en í ljósi þess að í sjálfu sér er búið að afgreiða málið við 2. umr. munum við kalla tillöguna til baka en höldum því áfram til haga að þetta hefði verið hin rétta málsmeðferð.

Við fluttum einnig breytingartillögu um að fella brott úr fjáraukalögum heimild til þess fyrir ríkissjóð að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og þar með Deildartunguhver, fyrir því er heimild í fjáraukalögum. Við erum algjörlega andvíg því að ríkið selji hlut sinn í Deildartunguhver og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Við erum minnugir þess hvernig ríkið fór að því að selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, það hleypti af stað máli sem ekki sér fyrir endann á. Ég tel reyndar að það hafi verið á svig við lög, að selja það eins og gert var, og að ríkisstjórnin hafi þar verið að beita heimildargrein með óeðlilegum hætti. Í trausti þess að ríkisstjórnin muni ekki nýta sér heimildina á þessu ári — við flytjum þessa tillögu við fjárlagagerðina næsta ár, heimildin er þar inni líka — munum við ekki óska eftir atkvæðagreiðslu um þessa breytingartillögu nú.

Frú forseti. Það mál sem þá stendur eftir og ég ætla að fjalla um tengist rekstri fyrrum varnarsvæðanna á Keflavíkurflugvelli en það hefur verið hér til umtals í morgun. Hér er verið að tekjufæra — í greinargerð segir, með leyfir forseta:

„Áætlað verðmæti seldra eigna á þessu ári nemi um 15,7 milljörðum kr. og alls er áætlað að heildarsöluverðið geti orðið 18 milljarðar kr.“ — Einnig er tilgreint að gjaldfært — og kostnaður er færður upp á 1.170 millj. kr.

Ég harma að framkvæmdarvaldið, hvort sem fjármálaráðherra eða forsætisráðherra ber ábyrgð á því, — þegar ég innti hæstv. fjármálaráðherra eftir gögnum í gær sagði hann að forsætisráðherra ætti að skila þeim. Ég harma að þau gögn hafi ekki verið afhent sem nauðsynleg eru til að fjárlaganefnd geti unnið vinnu sína með eðlilegum, skilvirkum og ábyrgum hætti. Þarna er verið að biðja um að milli 15 og 16 milljarðar kr. verði tekjufærðir. Ekki liggur þó fyrir með óyggjandi hætti að farið hafi verið að lögum og reglum um útboð og sölu þessara eigna og meira að segja dreg ég það mjög alvarlega í efa. Það var því mikilvægt að öll gögn — ég krafðist þess að fá öll gögn, fá kaupsamninga, fá alla samninga sem lutu að kaupum á verki, þjónustu upp á þennan 1,1 milljarð kr. en þeir samningar hafa ekki komið.

Við fengum jú í morgun að sjá á fundi fjárlaganefndar fyrir mikla náð og miskunn virtist vera, fyrir milligöngu ríkisendurskoðanda, afrit eða óstaðfest uppkast að samningum um kaup og sölu þessara eigna. Já, ég segi það vegna þess að samningarnir voru óundirritaðir. (Gripið fram í.) Ég vona að þeir séu sannir og réttir og reynist það en þeir voru lagðir þarna fram óundirritaðir til þess að sýna nefndarmönnum í trúnaði. Ég gagnrýni vinnubrögð af þessu tagi, það var verið að biðja um staðfesta samninga og við því átti að verða.

Ég vil líka draga í efa að málið hafi farið í réttan feril, beiðni fór til fjármálaráðherra, um að skila þessum gögnum og samningum, síðan er haft samband við þróunarfélagið og síðan verður ríkisendurskoðandi einhvers konar milligönguaðili í þessu máli. Þegar horft er til þess að ríkisendurskoðandi er bæði endurskoðandi reikninga hjá einkahlutafélaginu Þróunarfélagi Keflavíkur ehf. — eða hvað þetta nú heitir, ég kann aldrei þessi útlensku nöfn á þessu öllu — og á einnig að fylgja eftir stjórnsýsluendurskoðun, þá hlýtur að verða að vanda mjög til með hvaða hætti hver og einn kemur að þessum þætti málsins.

Mín krafa er óbreytt. Ég krefst þess að fjármálaráðherra, þess vegna forsætisráðherra ef þetta heyrir undir hann, skili þessum gögnum öllum tafarlaust. Þetta eru opinber gögn, sýslað er með opinberar eigur samkvæmt opinberum reglum og á að afhenda að mínu viti refjalaust.

Ég ætla ekki að vitna mikið í samningana enda áttaði ég mig ekki á því þegar ég las þá hvað væri trúnaðarmál og hvað ekki, hvað mætti segja og hvað ekki. Ég gat hreinlega ekki séð af hverju þetta ætti að vera trúnaðarmál, mér sýndist eðlilegt að almenningur vissi hvað þarna væri á ferðinni. Það sem kom mér hins vegar á óvart var ýmislegt með greiðslutilhögunina, ég segi það alveg eins og er. Greiðslur til næstu þriggja ára vaxtalausar og ekki einu sinni verðtryggðar, það eru a.m.k. mjög sérkennilegir viðskiptahættir. Og svo er það spurning um réttmæti þess að færa þessa upphæð hér inn. Það verður að benda á að við höfum ekki staðfestingu á því að búið sé að greiða neitt af þessum peningum, við höfum ekki staðfestingu á að búið sé að greiða neitt af því sem á að fara að færa inn á fjáraukalög sem fé sem sé komið í hendur ríkissjóðs.

Ýmislegt annað er athugavert við alla þessa samningagerð, og hvernig hana ber að, og hvernig innbyrðis atriðum er háttað í þessum málum, sem snertir bæði eftirlitsskyldu fjárlaganefndar og framkvæmd fjárlaga. Mér kom t.d. sérstaklega á óvart að kaupandinn megi síðan ráðstafa eigunum og skipta þeim upp á milli annarra fyrirtækja sem um gæti verið að ræða. Ég segi það eins og er, mér kom það mjög á óvart að hægt væri að skipta því þannig upp.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, um fjáraukalagafrumvarpið hér við 2. umr., ég kem að einstökum öðrum atriðum í því síðar. Ég ítreka að ég tel að almennt sé miklu ábótavant í meðferð fjárlaga og fjármuna ríkisins og að þessi fjáraukalög endurspegli það. Þau staðfesta í flestum atriðum útgjöld sem þegar hefur verið stofnað til hvort sem verið er að draga inn uppsafnaðan halla eða ný verkefni, sem eiga ekki almennt heima á fjáraukalögum — ég tel afar brýnt að á þeim málum sé tekið. Að lokum tel ég að varðandi meðferðina á þeim fjármunum sem komnir eru í gegn vegna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar séum við ekki með nægileg gögn að baki sem réttlæti að hægt sé að setja þessar upphæðir inn í fjárlög ríkisins eins og tillaga er gerð um. Ég hef lagst gegn því.