135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. Ég ætla að reyna að vera skorinorður í andsvari mínu og skil eftir tvær spurningar í lokin. Varðandi mál á Keflavíkurflugvelli þá vísa ég til þess sem kom fram í nefndinni. Ríkisendurskoðandi staðfesti við nefndina að umræddar tekjur byggðust á yfirferð embættisins á sölusamningum og að þeir væru tryggir að mati embættisins. Þar af leiðandi teljum við einsýnt að tekjufæra og um leið gjaldfæra. Þá kemur fyrirspurnin: Lýsir hv. þingmaður Jón Bjarnason því yfir við þingið líkt, eins og skilja mátti á ræðu hans, að hann dragi í efa skýringar og yfirlýsingar ríkisendurskoðanda og starfsmanna Ríkisendurskoðunar?

Í öðru lagi vík ég að 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins sem segir, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Um það eigum við að fjalla hér. Ég hef boðað ýmsar breytingar og stundum skil ég ekki hv. þingmann í þeirri vegferð sem ég hef boðað og allir nefndarmenn hafa tekið undir, bæði er varðar fjáraukalög, fjárlög, rammafjárlög, framkvæmd fjárlaga og jafnvel lög um fjárreiður ríkisins.

Ég ítreka að hv. þm. Bjarni Harðarson og Guðjón A. Kristjánsson hafa boðað í ræðum sínum í nefndinni og á þingi að þeir séu tilbúnir til þess að setjast með okkur hinum í hásetasæti. Ég skil ekki alltaf hv. þm. Jón Bjarnason, stundum segir hann í nefndinni að hann vilji vera með en þegar hv. þingmaður kemur í þingsali virðist hann finna því allt því til foráttu sem ég hef boðað og hann sættir (Forseti hringir.) sig ekki við málsmeðferðina. Síðari spurningin er, með leyfi forseta: Vill hv. þm. Jón Bjarnason vera með í vegferðinni sem aðrir þingmenn (Forseti hringir.) fjárlaganefndar hafa lýst yfir að þeir vilji taka þátt í?