135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:28]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég kem hér til að ræða um fjáraukalög og gera um leið grein fyrir þeirri breytingu sem á hefur orðið og er nú vel við hæfi inn í þá umræðu sem hér var síðast um samstöðu, því að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, gerði að umtalsefni og spurði hvort allir ætluðu að vera saman í brúnni. Ég get upplýst hér að samstarf innan fjárlaganefndar hefur verið mjög gott og okkur hefur gengið vel að vinna saman að ýmsum þjóðþrifamálum, nú síðast því sem formaður vék að, samstarfi um skiptingu á liðum varðandi löggæsluembætti, framhaldsskóla og hjúkrunarheimili, og þó svo að við hefðum auðvitað öll viljað hafa þar úr meiru að spila þá urðum við ásátt um þá skiptingu sem varð.

Úr því að verið er að tala um samstöðu vil ég beina því aftur til formanns varðandi það að menn standi saman, því að rætt hefur verið um hverjir skrifa undir álit hjá hverjum í þessum meiri og minni hluta, að ég hygg að margar af þeim aðfinnslum sem eru í áliti okkar minnihlutamanna við framkvæmd og gerð fjárlaga og fjáraukalaga séu þess eðlis að allir í nefndinni geti verið nokkuð sammála um þær. Auðvitað á það ekki við um allt en það á við um mikinn hluta þess og kannski flest af því sem mestu skiptir.

Við höfum verið sammála um að breyta þurfi vinnubrögðum og ég sagði við 2. umr. fjáraukalaga að ég skildi það alveg að það tæki meiri hlutann eða nefndina lengri tíma en svo að það gerðist á fyrsta ári en vissum hlutum hefði ég vissulega viljað breyta og gat um það þá líka, því að ég tel reyndar að menn hafi í vissum tilfellum verið að setja liði inn í fjáraukalög sem ættu frekar heima í fjárlögum og jafnvel í fjárlögum næsta árs. Það megi finna þess dæmi að það sé í rauninni verið að rétta af erfiða stöðu næsta árs með fjárveitingum inn á fjáraukalögum og það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að laga í verklagi.

Því er ég að víkja að þessu að þannig er nú komið að leiðir hefur skilið milli Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd og hins hv. meiri hluta og þótti mér það að mörgu leyti miður og gat ekki merkt annað á orðum hv. formanns innan nefndarinnar að honum þætti það líka, þannig að það má með sanni segja að við höfum kvaðst þar með tárum yfir fundarborðið. (Gripið fram í.) Svo það komist inn í þingtíðindi þá hefur hv. formaður nefndarinnar meira að segja staðfest þessa frásögn mína með mjög hógværu frammíkalli. En til alls eru orsakir nokkrar og í þessu tilviki snýr það að því máli sem við ræddum fyrr í morgun. Ég sé í rauninni ekki ástæðu til að eyða tímanum í að ræða fjáraukalögin að öðru leyti, þar hef ég sagt flest sem ég tel þurfa að koma fram varðandi aðra liði þess frumvarps og ég sé enga ástæðu til að endurtaka fyrri ræður og þreyta þannig fundinn að óþörfu.

Mig langar að ræða sérstaklega um það sem varð okkur að ásteytingsefni við gerð fjáraukalaga sem eru málefni hins ágæta félags, Kadeco, sem starfar á Keflavíkurflugvelli. Ég ræddi þetta nokkuð í umræðunni fyrr í morgun en mig langar að byrja þessa umræðu á að gera lítils háttar játningu í framhaldi af orðum vinar míns Árna Johnsens, hv. þingmanns Suðurkjördæmis, sem hafði heyrt þau orð mín þannig í ræðu í morgun að ég hefði sagt að náfrændi hans Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, væri hluthafi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Keili. Til að taka af öll tvímæli um þetta gerði ég mér ferð í segulbandið inni á tölvunni til að hlusta á það og þá kemur í ljós að í tilvitnuðum texta sem ég las upp af minnisblaði sem ég hafði búið til fyrir þennan dag þá fataðist mér í lestrinum og er sjálfsagt að viðurkenna það. Ég bið hlutaðeigendur, bæði vin minn Árna Johnsen og frænda hans Árna Sigfússon, velvirðingar á þessu og vil af þessu tilefni, með leyfi forseta, lesa þennan texta að nýju. Ekki man ég nákvæmlega á hvaða línu á þessu minnisblaði ég byrjaði en ég kýs að taka þá frekar aðeins meira en minna til þess að enginn vafi sé á. En ég var akkúrat í þeim kafla þar sem ég líkti ástandi mála á Reykjanesi nokkuð við það ástand sem skapaðist með uppgangi Hvamms-Sturlu, sem var Dalamaður en það býr margt góðra Dalamanna á Suðurnesjum, og því hvernig þar hefði vald þjappast mjög saman á fáar hendur og þræðir orðið mjög flóknir og valdið svo margs konar vandræðum, þ.e. á Sturlungaöld. Ég er ekki að segja að það sé orðið hér nú en þegar slík samþjöppun valda gerist, líkt og algengt er í Sturlungu og menn geta lesið sig betur til um það, þegar menn leika við sama taflborðið marga mismunandi leiki og hafa mörg hlutverk í sama leiknum getur það oft og tíðum valdið ákveðnum vandræðum. Og þó svo að menn á Sturlungaöld hafi haft mjög skilvirkar leiðir til að leysa þau vandræði þá höfum við það ekki nú og þess vegna höfum við haft ákveðnar vanhæfisreglur til að mæta þessu og það er það sem ég tel að menn hafi kannski skautað svolítið glatt yfir í öllu þessu máli. En ég ætla að lesa þessa tilvitnun þar sem ég sleppti úr einu mikilvægu orði í lestrinum í morgun og hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Þá vil ég geta þess að komið hefur fram í fjölmiðlum að fimm af sjö bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ tengjast kaupum og sölu á fasteignum á varnarsvæðinu á einhvern hátt.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurvallar og stjórnarformaður Keilis. Persónulega á hann ekki hlut í þessum félögum samkvæmt því sem ég best veit en er fulltrúi Reykjanesbæjar. Annar bæjarfulltrúi er stjórnarformaður Base sem einnig hefur keypt eignir á varnarsvæðinu. Þessi sami bæjarfulltrúi er einn eigenda Hótel Keflavíkur sem á 9% hlut í Base. Þriðji bæjarfulltrúinn er stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur sem á rúmlega 22% hlut í Háskólavöllum og hlut í Base. Eignarhaldsfélagið 520 ehf., í eigu fjórða bæjarfulltrúans, hefur keypt 800 fermetra skemmu af Base á varnarsvæðinu. Þá er fimmti bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ aðstoðarmaður fjármálaráðherra, en fjármálaráðherra er fulltrúi ríkisins í samningum við þróunarfélagið. Því til viðbótar má nefna að bróðir fjármálaráðherra er stjórnarformaður Klasa og einn af eigendum þess fyrirtækis.“

Svo mörg voru þau orð og ég skal alveg viðurkenna að það er leitt að þurfa að draga persónulega stjórnarþátttöku manna inn í umræðu eins og þessa en það hafa þeir menn kallað yfir sig sem raðað hafa sér við borðið með þessum hætti. Varðandi þetta orð sem ég missti úr í lestrinum í morgun þá má það svo sem vera næsta augljóst af samhengi hlutanna. Ef menn hefðu tekið það alvarlega að það hefði ekki átt að vera þarna þá hefði það þýtt það með öðrum orðum að ég væri að segja að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ væri meðeigandi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar eða Kadeco eins og það heitir öðru nafni en allir vita að í því félagi er aðeins einn eigandi eins og ég hafði reyndar vikið að í ræðu minni fyrr.

Vegna þessarar umræðu og vegna þess að ég hef gert þetta mál sérstaklega að ágreiningsefni við meiri hluta fjárlaganefndar þá vil ég skýra í hverju sá ágreiningur liggur. Nú er það ekki svo að ég hafi einhverja grjótharða sannfæringu fyrir því að mönnum hafi verið gefin hús á Keflavíkurflugvelli. Ég hef í rauninni enga sannfæringu fyrir því, og sagði það í ræðustóli í gær og get sagt það aftur í dag, að þessi hús hafi verið seld á undirverði, á einhverju verði langt undir markaðsverði. Þau voru sannanlega auglýst en ég hef sannfæringu fyrir því að margt sé mjög athugavert við þessa framkvæmd.

Ég er líka sannfærður um að það eru ekki efni til að afgreiða þetta inn í fjáraukalög með þeim hætti sem hér er gert því það sem gert er í þessum efnum er að ákveða að taka öll útgjöld og allar tekjur einkahlutafélagsins Kadeco inn í ríkisreikninga. Hæstv. forsætisráðherra vék að því í morgun í lok umræðunnar um málefni Kadeco að það væri með vissu svo að sá sem hér talar hefði ekki skilning á gerð fjárlaga. Ég get alveg játað að ég á margt ólært varðandi gerð fjárlaga og ég er alveg sannfærður um að hæstv. forsætisráðherra sem áður hefur gegnt embætti fjármálaráðherra skilur margt í þeirri gerð betur en ég. En þá skulum við einnig halda því til haga að það er sameiginlegur skilningur meiri hluta fjárlaganefndar að hér hafi átt sér stað eitthvað sem gengur í rauninni ekki upp í stjórnsýslunni og þess vega þurfi að grípa til þess að setja fjármál hlutafélagsins Kadeco inn á fjárlög þrátt fyrir að þau séu í rauninni einkaútgjöld þess einkahlutafélags. Ég ætla að skýra þetta aðeins nánar.

Í fyrradag fékk fjárlaganefnd til umfjöllunar álit efnahags- og skattanefndar á þessu máli. Þar gerði efnahags- og skattanefnd ráð fyrir því að vegna sölu eigna á fyrrum varnarsvæðum væru 13,7 milljarðar kr. settir inn í fjáraukalög. Það er um það bil sú upphæð — það hleypur að vísu svolítið til og frá á milljónum þarna og þykir okkur Flóamönnum milljónin mikill peningur en það þykir kannski ekki hér við Faxaflóann, ég veit það ekki, gott ef þetta á ekki að vera 13,8 en látum það liggja á milli hluta. Ef sett væri þarna inn talan 13,7 eða 13,8 þá væri viðurkennt að útgjöld hlutafélagsins Kadeco ættu að vera innan þess einkahlutafélags. En nú er það skilningur ríkisendurskoðanda að svo eigi alls ekki að vera heldur beri að líta svo á að einkahlutafélagið Kadeco sé ríkisstofnun — og það er þá nýmæli að einkahlutafélag sé ríkisstofnun og ég held að það sé fleira en bara skilningsleysi mitt sem nýliða á þingi að þurfa að hafa orð á því, ég held að það sé í rauninni alveg fádæmi — og að ekki skuli færðar neinar tekjur á þetta einkahlutafélag heldur skuli þær allar færðar, eins þær sem voru fyrir nauðsynlegum útgjöldum þessa félags til að standa straum af samningsbundnum verkefnum í samningum við ríkið, allar tekjurnar skuli færðar inn í ríkisreikning. Það er vegna þess að það er skilningur meiri hluta fjárlaganefndar og ríkisendurskoðanda að samningurinn sem gerður var milli aðila, milli ríkisins og Kadeco standist ekki lög og sérstaklega þá ekki það ákvæði í honum að hlutafélagið Kadeco skuli fá eins og segir í 2. lið 6. gr. samningsins, með leyfi forseta:

„Til að hefja rekstur og undirbúning starfsemi samkvæmt samningi þessum fær verksali sérstaka þóknun á fjáraukalögum 2006 og fjárlögum 2007. Þóknun verksala felst að öðru leyti í því að hann hirðir þær leigutekjur sem fást vegna leigðra eigna á þróunarsvæðinu auk þess sem verkkaupi greiðir honum þóknun af söluverði seldra fasteigna á svæðinu. Fyrstu tvö ár samningstímans mun þóknunin nema 100% af söluverði fasteigna. Eftir þann tíma mun þóknun til verksala verða tekin til endurskoðunar miðað við verkefnastöðu og fjárhag félagsins.“

Þetta ákvæði gerir það að verkum að það sem raunverulega hefur verið gert er að eignum ríkisins hefur verið ráðstafað til einkahlutafélags án atbeina fjárlaganefndar. Það verður ekki leiðrétt nema samningurinn sé felldur úr gildi og málið allt tekið upp að nýju. Ég held að það sé það sem almenningsálitið kallar á, að málið í heild sinni verði tekið upp að nýju og að hér sé farið að réttum lögum og reglum. Í stað þess að gera það kýs meiri hluti fjárlaganefndar að láta sem þessi samningur sé ekki til, láta sem hlutafélagið Kadeco sé heldur ekki til og að það sé í rauninni ekki annar lögaðili en fjármálaráðuneytið sjálft sem hafi selt þessar eignir, fyrir það sé engin þóknun tekin og það sem Kadeco færir í endurskoðuðum ársreikningi sínum eða níu mánaða yfirliti ársreiknings þessa árs sé marklaust plagg.

Þetta er stóralvarlegt. Það er alvarlegt hvernig þessu máli er öllu fyrir komið út af handvömm við upphaf málsins. Með þessu er ég ekki að segja að þeir sem hafa verið kjörnir til starfa fyrir hlutafélagið Kadeco eða Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, eins og það heitir einnig en hitt orðið er styttra þótt útlenskt sé, hafi gert eitthvað sérstaklega rangt. Ég held að þeim hafi einfaldlega verið lögð alröng forskrift í hendurnar og ég held líka að það liggi ekki alveg hvort til hliðar við félagið sé einhver hönnuð atburðarás sem miðar að því að ákveðnir hlutir gerist í kjölfar stofnunar þess. Allt gerist þetta með óskaplega miklum hraða og hefur í raun ekki fengist nein haldbær skýring á því hvers vegna sömu menn raðast öllum megin við borðið í þessu máli.

Ég lagði áherslu á það í störfum mínum í fjárlaganefnd að látið yrði af því óðagoti sem einkennt hefur þetta mál frá upphafi. Það er löngu mál því að það er ekki gott að við stjórn ríkisfjármála sé óðagot. Það hefur reyndar einkennt margt í starfi þessarar ríkisstjórnar og er mál að linni. Þess vegna lagði ég til að beðið yrði þess að fjármálaráðuneytið tæki upp samningana við Kadeco og að þar væri komið hreint borð, hver prósentuþóknunin ætti að vera fyrir sölu eignanna, hverjar fjárveitingar ríkisins til þessa hlutafélags ættu að vera og þá fyrst væri hægt að færa þetta inn í fjárlög eða fjáraukalög eftir atvikum. Væntanlega væri rétti tíminn til þess í fjáraukalögum næsta árs.

Með því að setja þetta inn með slíkum flýti og að svo lítt athuguðu máli í fjáraukalög þessa árs er í raun aukið á óreiðuna, aukið á þann vanda sem bíður okkar við að greiða úr þessu máli. Ég held að markmiðið sé kannski ekki svo ólíkt hjá okkur öllum en það skiptir máli að ekki verði unnið þannig að framhaldið verði enn erfiðara. Hafi eitthvað óeðlilegt átt sér stað, sem ég vil ekki fullyrða um — ég fullyrði að menn höfðu hagsmuni í þessu máli, mikla hagsmuni þegar þeir voru á annað borð komnir inn í þetta mál en þannig er það alltaf í viðskiptum. Ég hef sagt að þótt bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hafi ekki átt hlutabréf í þessum félögum, það á víst engin hlutabréf í þróunarfélaginu nema ríkið, þá voru persónulegir hagsmunir samt sem áður fyrir hendi. Það eru auðvitað persónulegir hagsmunir þar sem stjórnmálamaður situr öllum megin borðs og gerir samninga milli stjórna þar sem hann skipar sæti beggja megin.

Reyndar lýsir það þeirri nöturlegu mynd sem þarna var á orðin að það var meira að segja á teikniborðinu hjá sömu mönnum að ganga frá því að skipuð yrði sérstök skipulagsnefnd sem hefði skipulagsvald á þessu svæði í stað skipulagsnefndar varnarsvæða sem nú er þar og hefur verið í mörg ár. Þá hefði sami aðili haft með að gera sölu á þessum eignum, stjórnina á þróunarfélaginu, aðkomu að þeim félögum sem koma að uppbyggingu og hafa tekið við eignunum af þróunarfélaginu og síðan skipulagsvaldið. En frá þessu var góðu heilli horfið þannig að segja má að stundum hafi glórað fyrir einhverri skynsemi og óðagotið hafi ekki verið alls staðar. En nú þykir mér það komið á fullan skrið aftur með því að troða eigi þessu inn í fjáraukalög, sem ekkert kallar á. Því hefur vissulega verið haldið fram af ríkisendurskoðanda á fundum í fjárlaganefnd og okkur hefur verið tjáð að samningar á bak við þessar sölur séu bókunarhæfir. Í venjulegu bókhaldi þýðir það að þar með er hægt að tekjufæra þá. Komi samningur inn í fyrirtæki sem mun gefa tekjur þá þarf að bóka hann.

En í þessu tilviki er um að ræða bókunarhæfan samning einkahlutafélags. Ríkið er ekki beinn aðili að þessum samningum. Greiðslur berast ekki samkvæmt þessum samningum nema í mjög óverulegum mæli á þessu ári, óverulegum mæli, af hinum stærsta raunar engar. Í hinum tilvikunum eru tekjurnar mjög litlar þannig að það er ekkert sem kallar á að ríkið flýti sér að færa þetta inn hjá sér nema þá það eitt — þess vegna vil ég ekki taka þátt í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar ef því er virkilega þannig farið, ég vona að svo sé ekki og vil raunar ekki trúa því upp á mína góðu vini þar — að það sé hreinlega verið að reyna að geirnegla þessa vondu smíði enn fastar þannig að erfiðara verði að leysa úr þessum böndum.

Fleira hef ég ekki um þetta mál að segja, hæstv. forseti.