135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir athugasemdina og fyrir hlý orð um samstarf okkar, sem hefur verið skemmtilegt.

Ég vil aðeins víkja að orðum hv. þingmanns um að hann tæki meira mark á skoðunum ríkisendurskoðanda um bókhaldsmál heldur en mínum. Það kemur mér ekkert á óvart. Ég tel ríkisendurskoðanda mun betur að sér um bókhald en ég er enda er ég ómenntaður á því sviði, reikningsskilum. En ég varð ekki var við það að ríkisendurskoðandi legði þessa tillögu fram. Ég tók það þannig að hún væri tillaga meiri hlutans. Það eina sem ég veit til að ríkisendurskoðandi beri ábyrgð á í þessum efnum er að samningarnir sem hér um ræðir séu bókunarfærir.

Þá ætla ég að víkja að halaklippingunum. Það er ekki rétt að ég hafi verið andvígur halaklippingum sem slíkum. Ég gerði aftur á móti athugasemdir, og ég bið hv. þingmann að fletta upp ræðum mínum í 2. umr. um fjáraukalög, við að það sem ætti heima í fjárlögum væri sett í fjáraukalög. En vegna þess að ég taldi fénu vel varið, t.d. varðandi Landspítalann, þá fagnaði ég því margoft í minni ræðu að þar skyldu koma til að rétta við haginn. En ég tel að halaklippingar eigi að fara fram í fjárlögum nema þar sem um er að ræða halla viðkomandi árs. Þetta er algerlega skýrt í fjárreiðulögum að halla viðkomandi árs, eins og núna ársins 2007, beri að rétta í fjáraukalögum. En sé hali miklu eldri þá ber að laga það í fjárlögum og sú skoðun stendur algerlega.