135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[14:57]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er á hreinu í mínum huga að þessi umsnúningur hefur orðið við þennan viðskilnað meiri og minni hluta í ljósi þeirra svara sem hv. þingmaður gefur. Hvort sem honum líkar það betur eða verr þá gengur breytingartillagan sem hann er meðflutningsmaður að ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni og Kristni H. Gunnarssyni þvert á þau orð sem hv. þm. Bjarni Harðarson hefur viðhaft í fjárlaganefnd og í sölum Alþingis. Það er alveg tvímælalaust í mínum huga.

Með vísun til 2. umr. um fjárlög vil ég víkja að því að á kvöldfundi einum, sem var útbýtingarfundur, vöktu Vinstri grænir máls á því og kröfðust þess að umræðu yrði frestað um fjárlagatillögur meiri hlutans þar sem þær hefðu komið allt of seint fram. Þær komu fram kl. 9 kvöldið áður en fundur átti að hefjast.

Háttvirtur þingmaður er meðflutningsmaður að þessari breytingartillögu ásamt hv. þm. Vinstri grænna, Jóni Bjarnasyni, sem var borin í sal meðan þingmaðurinn flutti ræðu sína áðan. Meiri hlutinn hefur í það minnsta ekki fengið tíma til að gaumgæfa þá breytingartillögu sem hér var dreift meðan hv. þm. Jón Bjarnason hélt ræðu sína. Ég spyr hv. þm. Bjarna Harðarson: Eru þetta vinnubrögð sem til fyrirmyndar þykja? Ætlar hann með þessum hætti að ganga til liðs við minni hlutann í fjárlaganefnd og fara að ástunda slík vinnubrögð? (JBjarn: Þær voru boðaðar inni á nefndarfundi þessar tillögur þannig að þetta er ekki sanngjarnt.) (Forseti hringir.)