135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:16]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að það sem ég dró fram í ræðu minni komi fram sem andsvar við ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, það að fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins aukast stórlega, um 30% á milli ára. Í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fyrir þingið 1. október var gert ráð fyrir 19% hækkun á milli ára. Nú hefur fjárlaganefndin lagt fram breytingartillögu um að bæta enn betur þar í þannig að hækkunin mun nema 30% á milli ára. Fáar ef nokkrar aðrar ríkisstofnanir munu búa við slíka hækkun á milli ára. Þannig sýnum við í verki að við viljum efla Samkeppniseftirlitið. Ef við lítum til ársins 2006 hafa fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins aukist um 63% og ég efa að það sé hægt að finna þá ríkisstofnun sem hefur fengið jafnmikla hækkun á tveimur árum og Samkeppniseftirlitið.

Mig langar líka að draga fram og upplýsa það, því að mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni, að það er gríðarlegur eðlismunur á þeim fjárveitingum sem fara annars vegar til Fjármálaeftirlitsins og hins vegar til Samkeppniseftirlitsins. Ríkissjóður greiðir ekki inn í Fjármálaeftirlitið, heldur eftirlitsskyldir aðilar. Þeir peningar sem fara í Fjármálaeftirlitið koma ekki úr ríkissjóði. Það er sérstök samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila, bankanna, tryggingafélaga o.s.frv., sem ákveður gjaldið og það er hún sem leggur til að það hækki um 52% á milli ára.

Fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins koma úr ríkissjóði þannig að það er grundvallarmunur á hvernig þessi eftirlit eru fjármögnuð svo að það komi alveg skýrt fram. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi sýnt í verki að við höfum eflt Samkeppniseftirlitið en við þurfum að gera enn betur og við munum efla Samkeppniseftirlitið enn frekar á næstu árum og missirum.