135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:20]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það gæti verið áhugaverð umræða hvort við ættum að breyta fjárveitingu til Samkeppniseftirlitsins í samræmi við Fjármálaeftirlitið en við höfum þar mjög skýra eftirlitsskylda aðila og varðandi Samkeppniseftirlitið er kannski ekki fyrir því að finna. Hlutverk Samkeppniseftirlitsins lýtur að mínu mati ekki að einhverjum skilgreindum eftirlitsskyldum aðilum. Samkeppniseftirliti ber að hafa eftirlit með öllum markaðnum og þeim aðstæðum sem geta komið þar upp. Ég held að við þyrftum að skoða það afskaplega vel ef við vildum breyta fjárveitingaleiðum til Samkeppniseftirlitsins.

Það er líka mjög umhugsunarverður punktur sem hv. þm. Atli Gíslason bendir á, sektir Samkeppniseftirlitsins eru hærri upphæð en sem nemur því fjárframlagi sem eftirlitið fær frá ríkinu. Ég vona að hann sé ekki að tala um að Samkeppniseftirlitið eigi einfaldlega að vera sjálfbær stofnun hvað það varðar að sektirnar fari í þann rekstur. Ég held að lögreglan gæti hugsanlega líka notað þá röksemd en það væri a.m.k. ný nálgun á stjórnsýslusektir eins og sektarúrræði Samkeppniseftirlitsins.

En bara í þessu seinna andsvari mínu ítreka ég það að við erum að reyna að efla Samkeppniseftirlitið. Mér finnst þessi ríkisstjórn ganga lengra í að efla Samkeppniseftirlitið en við þegar við vorum í stjórnarandstöðu, hvort sem var Samfylkingin eða Vinstri grænir. Við sameinuðumst stundum í tillöguflutningi um að efla Samkeppniseftirlitið. Ég man ekki eftir að við höfum lagt fram eins ríflega aukningu til Samkeppniseftirlitsins og þessi ríkisstjórn hefur gert þannig að ég held að hér geti allir vel við unað. 60% hækkun á tveimur árum, 30% hækkun milli ára, 52% hækkun til Fjármálaeftirlitsins þannig að hér erum við sannarlega að efla þessar lykilstofnanir, bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, og því hljóta allir þingmenn og almenningur að fagna.