135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

skipan ferðamála.

92. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Svanhvíti Axelsdóttur frá samgönguráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Ferðamálasamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og Sýslumannafélagi Íslands.

Í frumvarpinu eru lagðar til smávægilegar breytingar á lögum um skipan ferðamála sem einkum er ætlað að lagfæra úrræði vegna brota gegn lögunum. Nefndin leggur til málfarsbreytingu á einu ákvæði frumvarpsins. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

Efnismálsliður a-liðar 1. gr. orðist svo: Skipulagningu ferða hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis.

Herdís Þórðardóttir, Árni Johnsen og Ármann Kr. Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta rita Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður, Ólöf Nordal, varaformaður, Karl Valgarður Matthíasson, Paul Nikolov, Guðni Ágústsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.