135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[15:50]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Nínu Björk Jónsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Auði Arnardóttur, Kristínu Lindu Árnadóttur og Gunnar Stein Jónsson frá umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007 frá 28. september 2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnsmálum.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar sem gert er ráð fyrir að lokið verði í desember 2009. Ljóst er að verulegur kostnaður mun fylgja innleiðingunni. Fram kom á fundi nefndarinnar að umhverfisráðuneytið hefur óskað fjárheimilda vegna þessa. Nefndin telur mikilvægt að fjárheimildirnar verði í samræmi við umfang þess verkefnis sem fram undan er við innleiðinguna. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita Árni Páll Árnason varaformaður, Steingrímur J. Sigfússon, með fyrirvara, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Magnús Stefánsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir.