135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

269. mál
[16:08]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skiptir vissulega máli að vanda vel til verka og það á við um allt Evrópusamstarf að yfirleitt komast ríki hvorki lönd né strönd nema hafa góð rök og geta fært málefnaleg rök fyrir þörfum sínum en ekki einfaldlega búið málflutninginn í búning raka til að fela dulbúna verndarstefnu eða sérhagsmuni á kostnað annarra.

Þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi eru alveg hárrétt, upp á síðkastið þegar við höfum komið að málum snemma á mótunarstigi höfum við fengið áheyrn og framlagi okkar hefur verið vel tekið. Vandinn sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er sá að í þeim tilvikum þar sem málin eru lengra komin og við eigum ekki lengur aðkomu, þ.e. þegar málin eru komin á hinn pólitíska mótunarferil, höfum við fyrir því reynslu að þá þurfum við að ná að sannfæra einhver önnur ríki um að okkar hagsmunir séu í reynd þeirra hagsmunir til þess að fá þau til að tala fyrir þeim hagsmunum innan kerfisins. Stundum tekst það en ekki alltaf og í því er vandinn fólginn að við eigum ekki hina pólitísku aðkomu að lokaákvörðunum þegar hagsmunirnir eru í reynd vegnir og metnir.

Það sem ég held hins vegar að standi eftir þessa umræðu alla, sem átt hefur sér stað í haust, er mikilvægi þess að við gerum það besta úr þeirri stöðu sem við höfum, undirbúum eins vel og mögulegt er aðkomu okkar að málum og vöndum okkur þar og eflum starf utanríkismálanefndar að Evrópumálum og undirbúningi ákvarðana á Evrópuvettvangi.