135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[16:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Fjáraukalagafrumvarp er nú loks að koma til lokaafgreiðslu hjá meiri hlutanum og hæstv. ríkisstjórn. Þegar í það er rýnt og breytingartillögur skoðaðar er ýmislegt sem vekur athygli og gefur tilefni til athugasemda og hugleiðinga um það hvernig með þessi mál er farið bæði nú og framvegis. Nefndarmenn hafa að vísu sjálfir, talsmenn meiri hlutans í fjárlaganefnd, haft uppi fögur fyrirheit um að þeir ætli sér að betrumbæta vinnubrögð og koma þessum málum í fastari skorður en það hafi ekki unnist tími til þess á þessu ári. Nú ætti tímaskortur að vísu ekki að há Sjálfstæðisflokknum sérstaklega til að taka sig á í vinnubrögðum í fjárlagagerð því flokkurinn er búinn að vera við völd og í meiri hluta í 16 ár en Samfylkingin notar þetta mikið og ber óspart fyrir sig í öllum tilvikum þegar stendur upp á efndir fagurra fyrirheita, að ekki hafi unnist tími til þess að taka til á heimilinu.

Það er margt sem er umhugsunarefni þegar kemur að því að skoða hvernig menn umgangast lög, fjárlög og fjárheimildir, lög um fjárreiður ríkisins, hvernig sambúð Alþingis og framkvæmdarvalds er háttað í þessum efnum. Samkvæmt stjórnskipun okkar er eitt mikilvægasta hlutverk Alþingis, fyrir utan almennt lagasetningarvald, það sem kallað er í stjórnsýslumáli fjárstjórnarvaldið, þ.e. að Alþingi er fjárlagagjafi og fer með fjárstjórnarvald. Það vald má í raun ekki framselja og frá því eru eingöngu ákvæði sem ætlunin er að hægt sé að grípa til í hreinum neyðartilvikum.

Fjáraukalagafrumvarp hefur því miður á síðustu árum verið að þróast í einhvers konar ígildi þess sem áður voru kallaðar aukafjárveitingar og voru ástundaðar og ætlunin var að taka í raun og veru fyrir með öllu með hertum ákvæðum í fjárreiðulögum og betrumbættum vinnubrögðum að þessu leyti. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur á undanförnum þingum á það bent og gagnrýnt að það skuli ekki vera flutt frumvarp til fjáraukalaga að vori ef þá þegar liggja fyrir ástæður til að gera breytingar á fjárheimildum framkvæmdarvaldsins innan ársins og að því skuli vera frestað til hausts og eins og nú stendur á, að það sé að líða að lokum ársins og fjárlagaárið nánast runnið sitt skeið á enda þegar loksins er aflað lagaheimilda fyrir því sem í stórum stíl er þegar búið að ákveða. Þetta er auðvitað alls ekki eins og vinnubrögðin eiga að vera í þessum efnum. Þegar upp koma aðstæður og hlutir breytast á fyrstu mánuðum árs þá er það auðvitað ekkert annað en vanvirðing við Alþingi, sem þá er að störfum kannski á útmánuðum, að koma ekki strax til Alþingis og afla heimilda fyrir þeim útgjöldum, helst áður en þær eru ákveðnar og áður en ríkið er skuldbundið.

Það er ýmislegt sem kemur í þá safnkistu sem fjáraukalögin eru. Að sjálfsögðu geta verið tilvik sem eru þess eðlis að það eru full efnisleg rök fyrir því að gera breytingar. Menn ætla sér kannski innan ársins að fara út í einhverja hluti, stofna til einhverra útgjalda, ráðstafa eignum eða gera hluti sem menn vilja þá fá heimildir til að gera og ættu að sjálfsögðu að gera þá í fjáraukalögum sem væru afgreidd áður en þing fer heim að vori.

Það er þannig í þessu frumvarpi og breytingartillögum að hluta til líka að mörg af þeim útgjöldum eða fjárskuldbindingum lágu þegar fyrir á fyrstu mánuðum þessa árs. Það er t.d. alveg makalaust að í þessu frumvarpi skuli nú verið að afla heimilda til stórfelldra útgjalda sem tengjast brottför bandaríska hersins sem var orðin staðreynd 30. september árið 2006. Hlutir sem því tengdust og lágu fyrir og voru tímasettir, t.d. að Íslendingar kæmu til með að taka við rekstri ratsjárstöðvakerfisins, þ.e. ef það yrði rekið áfram. Þetta lá fyrir strax við brottför hersins haustið 2006 að Bandaríkjamenn mundu hætta að greiða af því kostnað 15. ágúst sl. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að það er fyrst nú sem á að fara að afla heimilda fyrir þeim útgjöldum sem ríkisstjórn tók væntanlega löngu áður ákvörðun um að standa fyrir og hefur greitt frá miðjum ágústmánuði sl. laun starfsmanna og annan rekstrarkostnað? Þarna voru útgjöld algerlega fyrirsjáanleg og áttu að sjálfsögðu, ef ekki að vera í fjárlögum síðasta árs þeim sem nú gilda þá í fjárlagafrumvarpi sl. vor.

Í öðru lagi gerist t.d. það að ríkisstjórn tekur pólitískar ákvarðanir um hluti sem fela í sér umtalsverð útgjöld án nokkurra heimilda nokkurs staðar í fjárlögum, í heimildargreinum eða annars staðar. Dæmi um það eru þær heræfingar sem ríkisstjórnin samþykkti að færu fram eða ákvað að færu fram, gott ef ekki bað um og fóru fram sl. sumar og kostuðu ríkissjóð umtalsverð fjárútlát. Þetta er ástæða til að rifja hér upp og gagnrýna og vonandi hafa þá forustumenn fjárlaganefndar sem hér hafa lofað bót og betrun forgöngu um að koma þessum málum í betra horf ekki seinna en á næsta ári eins og þeir hafa lofað.

Það væri reyndar fróðlegt að vita hvort hv. formaður fjárlaganefndar hefur tjáð sig um það hvort þess megi vænta að flutt verði fjáraukalagafrumvarp að vori og öll þau tilefni sem þá kunna að vera upp komin hjá framkvæmdarvaldinu muni líta dagsins ljós í frumvarpi, t.d. í aprílmánuði nk. Það væri áhugavert ef ný forusta í fjárlaganefnd heitir því að sjá til þess að svo verði og rukkar framkvæmdarvaldið þá um það hvort þar hafi verið teknar ákvarðanir sem kunni að fela í sér skuldbindingar innan fjárlagaársins eða vera ávísun á útgjöld á því ári.

Annar liður sem mætir oft hér í fjáraukalagafrumvarpi, virðulegur forseti, eru útgjöld sem stofnað er til, stundum stórfelld, á grundvelli svonefndra heimildargreina fjárlaga sem er sennilega alvarlegasta gatið og mesta lekahættan í því regluverki og þeim umbúnaði sem á að vera hér um vandaða fjárlagasetningu og vandaða fjárstjórn. Það hafa farið af stað stórframkvæmdir á vegum hins opinbera sem hafa enga aðra afgreiðslu fengið á Alþingi en þá að einhvers konar undirbúningsfjárveitingar hafa ratað inn í heimildargrein eða öllu heldur það hefur verið heimilt að hefja undirbúning að einhverjum framkvæmdum eða einhverjum útgjaldaverkefnum. Frægasta dæmið er væntanlega bygging tónlistarhallarinnar við höfnina sem lagði þannig af stað að Alþingi hafði aldrei fjallað um það mál sem slíkt og heimilað það í heild sinni eða tekið afstöðu til málsins á grundvelli kostnaðaráætlana sem fyrir lægju o.s.frv., heldur var sett heimildargrein inn um að heimilt væri að stofna til tiltekinna útgjalda vegna undirbúnings þess máls. Þýðir það að Alþingi sé þar með búið að gefa grænt ljós á kostnað sem hleypur á milljarðatugum, ef svo ber undir? Nei, auðvitað ekki. Auðvitað getur það ekki verið ætlunin að það sé þannig. Það ætti þá að mæta á nýjan leik til þings þegar undirbúningnum er lokið og bera málið upp. Er Alþingi tilbúið til að heimila þessa framkvæmd sem endar í x milljörðum og staðfesta þar með vilja sinn til að ráðist verði í verkið. Það er ekki hægt að túlka hlutina þannig að með því einu að veitt sé heimild fyrir einhverjum tilteknum ráðstöfunum af þessu tagi þá sé kominn opinn tékki til handa framkvæmdarvaldinu að gera samninga, taka skuldbindandi ákvarðanir alveg án nokkurra takmarkana og stilla svo Alþingi upp við vegg og segja: Gerið svo vel og samþykkið þetta í fjáraukalagafrumvarpi ef svo ber undir. Hvers konar fjárstjórn er það? Hún samrýmist ósköp einfaldlega ekki stjórnarskránni og fjárreiðulögunum. Það er þannig vegna þess að í því væri falið alvarlegt framsal á valdi Alþingis sem er óheimilt. Framsalið hlýtur eðli málsins samkvæmt alltaf að takmarkast að þessu leyti og það hlýtur að þurfa að túlka slíkar heimildir þröngt fremur en hitt og Alþingi og hlutverk þess á hér að sjálfsögðu að njóta vafans en ekki öfugt. En það sem gerist er auðvitað að framkvæmdarvaldið lítur svo á að það eigi að njóta vafans og það geti teygt þetta alveg út í hið óendanlega.

Það eru auðvitað fræg önnur dæmi stór og smá sem mætti ræða um og nærtækt væri t.d. að nefna hina frægu Grímseyjarferju sem í raun er hliðstæður gjörningur upp að vissu marki. Þar er lagt af stað á grundvelli heimildargreinar sem eftir atvikum felur kannski í sér að heimilt sé að selja hlut úr eigu ríkisins og ráðstafa andvirðinu, þeim verðmætum, til einhverra hluta. Gott og vel. Þar fást 50–100 millj. fyrir ferjuna. Heimild Alþingis er þá augljóslega og klárlega takmörkuð við þá upphæð. En hvað gerist? Framkvæmdarvaldið tekur ákvarðanir um mörg hundruð milljóna kr. útgjöld eða sem enda þannig í skjóli þessarar heimildar sem í sjálfu sér fól ekkert í sér samkvæmt orðanna hljóðan og efnislega annað en að það mátti ráðstafa þessum tilteknu verðmætum og verja þeim í tilteknu skyni. Aftur er farið langt út fyrir öll hæfileg mörk í túlkun þessara heimilda.

Þessu verður einfaldlega að breyta ef menn ætla að ná eitthvað áleiðis í því að vanda vinnubrögð, herra forseti. Ég vil þá leyfa mér að nefna þriðja hlutinn sem er undirskriftagleði og borðaklippingasýki ríkisstjórna eins og við upplifðum síðasta vor rétt fyrir kosningar, allt meira og minna skrifað í skýin og án nokkurra fyrirliggjandi heimilda Alþingis. Það breytir í sjálfu sér litlu þar um þó að hlutirnir séu gerðir með fyrirvara um samþykki sem er þó algert lágmark að sé gert. Þannig á ekki að fara með framkvæmdarvaldið að það geti ávísað á Alþingi þegar teknum ákvörðunum um útgjöld alveg út í hið óendanlega og breytir svo sem litlu um hinn stjórnskipulega eða lagalega grunn þó að settur sé fyrirvari um samþykki Alþingis. Hann er þó að vísu heiðarlegur gagnvart þeim sem í hlut eiga, þ.e. fyrirvari um samþykki Alþingis þýðir að sjálfsögðu að Alþingi getur fallið frá gerningnum og hefur til þess fullt vald og gagnaðili ríkisins í slíkum tilvikum á að vera meðvitaður um þá óvissu. Og það hafa fallið hæstaréttardómar sem staðfesta að það er algerlega á valdi Alþingis hvað það gerir við slíka gerninga og Alþingi er heimilt að hafna þeim að sjálfsögðu. Það er þá bara þannig að sá sem fyrir því verður verður að bera þann skaða jafnvel þó að hann sé í mjög góðri trú sem gagnaðili að samningum við ríkið. Það segir mönnum aftur að auðvitað á að fara að ýtrustu gát með þannig samningavald því að annars er hættan sú að menn séu settir í óþolandi stöðu og samningar sem þeir gera í góðri trú við ríkisvaldið haldi ekki.

Verst er þó ef menn gera samninga í algeru heimildarleysi og hafa ekki einu sinni fyrirvara á um að það þurfi atbeina Alþingis til að fullnusta málið en þess eru mörg dæmi og frægastur kannski samningurinn sem gerður var rétt fyrir kosningar um afsal vatnsréttinda í Þjórsá til Landsvirkjunar og var undirritaður fyrirvaralaust af þremur ráðherrum eða svo, ef þeir voru ekki fjórir. Það er algerlega yfirgengilegur gerningur, stenst á engan hátt.

Þetta voru hugleiðingar um almennar aðstæður í sambandi við þessa fjáraukalagaafgreiðslu sem hefur lítið farið batnandi og reyndar markast þetta mál núna af þeirri miklu óvissu sem er uppi í efnahagsmálum og allar kennitölur á floti og hlaupa til um milljarða og milljarðatugi bara milli vikna liggur við. Það eru strax umtalsverðar breytingar á ferðinni bara frá því sem áætlað var að yrði við 2. umr.

Ég tek eftir því, og það er merkilegt, að högum stofnana, sem hér heyra undir og hafa væntanlega allar komið gögnum sínum á framfæri við hv. fjárlaganefnd, er mjög misjafnt skipt. Ég geri ráð fyrir því að fjárlaganefnd sé vel upplýst um það almennt hvernig rekstur og skuldastaða opinberra stofnana er. Það hlýtur eiginlega að vera vegna þess að fjárlaganefnd er samhliða fjáraukalagafrumvarpi að afgreiða og vinna með frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár. Hverju sætir þá að sumar opinberar stofnanir, margar mjög mikilvægar og vel að því komnar, fá þá afgreiðslu að af þeim er höggvinn allur skuldahali, sem vissulega er gott? Ég fagna því t.d. að skuldahalanum sem Landspítalinn hefur dragnast með — og hefur verið til háborinnar skammar fyrir ríkið, að ríkið sé eins og vanskilagemlingur með sinn rekstur og eigi skuld í birgjum mikilvægrar starfsemi af því tagi margra mánaða, hálfs árs, níu mánaða úttektir o.s.frv. með tilheyrandi vaxtakostnaði og óstjórn sem það er. Auðvitað á ríkið ekki að koma þannig fram í viðskiptum sínum við aðila, að sjálfsögðu ekki. Það á að vera traustur og heiðarlegur viðskiptavinur og borga úttektir sínar jafnóðum eða innan tilskilins greiðslufrests o.s.frv. Þetta er gott og því ber að fagna að nokkrar af mikilvægustu heilbrigðisstofnunum þjóðarinnar fá þarna löngu tímabæra afgreiðslu, af þeim er höggvinn skuldahalinn. En það vantar tvennt: Það vantar að þetta endurspeglist síðan í raunhæfum tillögum um fjárveitingar í þennan rekstur á næsta ári. Til hvers er að höggva af skuldahalann í sjálfu sér ef hann byrjar strax að myndast aftur, ef það vantar augljóslega stórar fjárhæðir í reksturinn eins og hann stendur í augnablikinu? Svo er hitt að það fá ekki allir sömu meðhöndlun.

Hvaða vísindi lagði meiri hluti fjárlaganefndar til grundvallar því að fara í skuldaskil eða skuldauppgjör gagnvart sumum stofnunum innan heilbrigðiskerfisins en ekki öðrum? Eða þess vegna yfirleitt öðrum mikilvægum stofnunum á vettvangi hins opinbera rekstrar? Er það ekki þannig að framhaldsskólarnir dragnast með skuldahala sumir hverjir? Það hefur þá mikið lagast ástandið frá því að ég var síðast að spyrja ónefnda menn um það. Það er sannarlega þannig að ýmsir aðrir fjárlagaliðir innan heilbrigðismálageirans fá ekki þessa meðhöndlun og ýmsar minni heilbrigðisstofnanir eru með umtalsverðar skuldir sem þær fá ekki gerðar upp. Mér leikur hugur á að fá aðeins betri útlistun á þessu við hvað var miðað. Hvernig voru þessi landamæri dregin upp? Hverjir voru í náðinni og hverjir ekki og hverju sætir?

Svo er seinna atriðið sem ég ætlaði aðeins að gera að umtalsefni og það er margfrægt og margrætt og er undir í breytingartillögum og nefndaráliti meiri hlutans og varðar hið fræga einkahlutafélag, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Hv. þingmenn hafa reyndar á undan mér, sumir hverjir, vikið að því þannig að ég er kannski að endurtaka að einhverju leyti það sem þar var sagt en það hefur þá bara sinn gang. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Ég held að það séu enn mörg óljós atriði bara í þeim þætti málsins sem snýr að bókfærslu þessara hluta inni í fjárkröfu svo að ég tali ekki um málið í heild sinni sem versnar með hverjum deginum sem líður og eftir því sem það er meira rætt og meiri upplýsingar koma fram þá heldur það frekar áfram að versna heldur en hitt.

Það hefur verið sagt að ríkisendurskoðandi staðfesti að þessi tala megi færast til bókar. Gott og vel. En þá gerir hann það væntanlega vegna þess að hann hefur sannreynt í bókhaldi einkahlutafélagsins og með því að skoða samninga sem það hefur gert um sölu eigna og verðmæti sem eiga að koma fyrir að þetta sé rétt tala, rétt í skilningnum gerðir samningar og ekkert annað. Ég lít svo á eða þannig hef ég skilið málið og það væri fróðlegt að heyra — eru fjárlaganefndarmenn farnir í kaffi, herra forseti, með einni undantekningu sem er auðvitað gleðilegt að hafa í salnum og kannski er hv. þingmaður einmitt á mælendaskrá (Gripið fram í: Hann er það ekki.) þannig að hann gæti hjálpað til við það. Mér finnst það skipta máli að fá það algerlega á hreint, er það réttur skilningur að það eina sem ríkisendurskoðandi sé að gera sé að staðfesta að þessa tölu megi bókfæra af því að hún sé rétt miðað við bókhaldsgögn fyrirtækisins og samninga sem það hefur gert en leggi ekki dóm á hana að öðru leyti? Mér finnst það skipta máli að menn oftúlki ekki það sem er fólgið í því að ríkisendurskoðandi staðfesti þessa tölu. Þá er að sjálfsögðu algerlega jafnóútkljáð og áður hvernig að því var staðið að þessi tala myndaðist og hvort hún er eðlilegt endurgjald eða ekki, segir bókstaflega ekki neitt um það. Það eina sem ríkisendurskoðandi hefur þá gert, hann hefur kíkt og séð: Jú, þetta er rétta talan. Þetta er það sem hér er samkvæmt samningum og bókhaldi.

En þá eru eftir álitamálin sem væri gaman að fá betur útlistuð og hv. þm. Atli Gíslason kom m.a. inn á það að þetta er einkahlutafélag og um það gilda annars vegar lög og hins vegar samningur sem ríkið gerði við það. Í þeim samningi, þeim sem enn gildir, er eftir því sem nú er vitað best ákvæði sem tryggir félaginu, sem er lögaðili úti í bæ að vísu þó hann sé 100% í eigu ríkisins, en tryggir félaginu 100% söluþóknun af þeim eignum sem það selur fyrstu tvö árin. Hvernig stendur þá á því að þessi fjárhæð getur farið út úr efnahagsreikningi félagsins og runnið í ríkissjóð í andstöðu við gildandi samning um málið?

Hæstv. forsætisráðherra sagði að vísu í dag athyglisverðan hlut. Hann sagði: Samningnum verður breytt. Já, verður breytt en á samt að loka fjáraukalögum og gera þau að lögum því að þau verða það innan tveggja sólarhringa eða svo frá því að Alþingi afgreiðir þau, þó að þetta standist enn ekki ákvæði gildandi samnings um meðferð mála innan þessa einkahlutafélags. Hvar brotnar þá? Hvar gerist það? Verður hann afturvirkur, samningurinn sem gerður verður? Verður nýi samningurinn afturvirkur? Ætla menn að færa til dagsetningar til þess að þetta verði samt í samræmi við gildandi lög, fjáraukalög sem kannski verða að lögum á mánudaginn kemur? Ég hef ekki fengið botn í þetta. Af hverju er þá ekki afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins frestað og þessi nýi samningur gerður í hvelli, gengið frá honum og stjórn fyrirtækisins, sem er stjórn og ber að gæta hagsmuna þess og á að láta það starfa samkvæmt lögum, samþykktum og samningum, gefið færi á því að koma saman og samþykkja arðgreiðsluna til ríkissjóðs á grundvelli nýrra samningsákvæða sem þeir eiga að starfa eftir? Það er verið að beygja eitthvað. Það er alveg augljóst mál því að tímaröð atburðanna er þannig að þetta fær ekki staðist miðað við þær upplýsingar sem við höfum í höndunum. Hvað segja þá forsvarsmenn fjárlaganefndar um þetta? Hvernig ætlar formaður fjárlaganefndar að láta þetta koma heim og saman? Er þetta í anda hinna vönduðu vinnubragða sem við viljum fara að ástunda hér? Ég fæ ekki alveg botn í þetta.

Það hafa engin rök komið fram við því af hverju þetta er ekki opinbert hlutafélag. Ég veit ekki hvort það mundi endilega breyta í sjálfu sér í þessu tilviki en það hefði augljóslega þau áhrif að þar með væri það hafið yfir allan vafa að tiltekin ákvæði giltu um félagið sem ekki gilda um almenn hlutafélög eða einkahlutafélög og væri að sjálfsögðu eðlilegra þar sem þetta er í 100% eigu ríkisins en lög og samþykktir og svo þessi samningur virðast öll vísa í þá átt að það er eitthvað skrýtið við það ef þetta getur bókast svona á þessu stigi málsins í ljósi annarra fyrirliggjandi gagna. Það má spyrja að því hvort ekki væri þá nær að uppfæra með einhverjum hætti eða taka inn í bókhald ríkisins aukið verðmæti fyrirtækisins sem stæði eftir á grundvelli þessarar eignasölu frekar en að gera þetta á þann hátt að þetta eigi að koma sem greiðsla í ríkissjóð sem ekki er heimilt samkvæmt gildandi samningum og samþykktum félagsins.

Ég spurði spurningar áðan sem ég veit ekki hvort formaður fjárlaganefndar heyrði. Mér leikur hugur á að vita hvort formaður fjárlaganefndar hafi mótað afstöðu til þess hvort hér megi vænta fjáraukalagafrumvarps að vori ef við stöndum frammi fyrir því eins og oftast er nú strax á útmánuðum næsta árs að þegar séu komin fram rök til þess að gera þurfi breytingar innan fjárlagaársins. Við skulum segja að það hafi stofnast útgjaldatilefni eða ríkisstjórn sé að taka pólitískar ákvarðanir sem séu opinberar og feli í sér að ríkinu verði bundnar skuldbindingar eða stofnað til útgjalda þó ekki væri nema eitt einasta tilvik þá verði grundvallarreglunnar vegna staðið þannig að málum eftirleiðis að þá verði flutt fjáraukalagafrumvarp áður en Alþingi lýkur störfum að vori. Þetta hefur verið margrætt á undanförnum árum og hv. þm. Jón Bjarnason hefur barist fyrir þessu og fært fyrir því gild rök að svona ætti að standa að málum. Það sé ósiður og vanvirðing við Alþingi að safna þessu öllu saman í einn haug og afgreiða þetta svo ekki fyrr en undir lok fjárlagaársins þegar heilmiklar ekki bara skuldbindingar eru fallnar til heldur búið að greiða þær mánuð eftir mánuð eftir mánuð eins og við stöndum frammi fyrir núna. Það er búið að borga út laun vegna reksturs frá miðju ári og loksins núna er fjárheimildin að stofnast með lögum. Þetta er ekki fjárstjórn sem við getum í raun og veru verið stolt af. Við hljótum að vilja breyta þessu og koma á þetta fastari böndum, tryggja að framsal á fjárstjórnarvaldi Alþingis sé ekki teygt úr öllu hófi. Ég höfða sérstaklega til þess sem formaður fjárlaganefndar og fjárlaganefndarmenn hafa haft uppi miklar heitstrengingar um að betrumbæta sín vinnubrögð.

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari að ljúka máli mínu. Það er a.m.k. ein umtalsverð umræða eftir sem gefur færi á að ræða stöðu efnahagsmála og ríkisfjármála áður en við ljúkum störfum fyrir jól og það er 3. umr. fjárlaga. Ég fór aðeins í það áðan að skoða nýjustu hagtölur. Nú eru komnar inn tölur síðasta mánaðar frá Seðlabanka Íslands og greiningardeildir eru farnar að tjá sig um þær, tölur sem birtust í gær og í dag og upplýsingar, og það verður að segja eins og er að það er harla dapurlegt að sjá hvernig hlutirnir eru þarna áfram að þróast, t.d. gríðarleg áframhaldandi skuldaaukning heimilanna. Mann eiginlega snarsvimar þegar maður sér hvernig þetta er að halda áfram. Það er alveg ískyggilegt. Auðvitað hljótum við að þurfa að hafa þetta í huga og margt fleira þegar við erum að loka forsendum ríkisfjármálanna fyrir næsta ár en það gerum við sem sagt endanlega með fjárlögunum í næstu viku og ég geymi mér frekari athugasemdir af því tagi þangað til.