135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon beindi til mín nokkrum spurningum, fyrst varðandi fjáraukalög. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins er tiltekið, með leyfi forseta:

„Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.“

Að öðru leyti vil ég vísa til þess sem ég hef sagt um framkvæmd fjárlaga og þær breytingar sem við höfum boðað varðandi fjárlagagerð og rammafjárlög og um leið að ég hef verið talsmaður þess, líkt og fleiri, að stofnanir og fjárlagaliðir fari ekki fram úr þeim lögum og áætlunum sem við höfum gert. Þar af leiðandi má vel vera að á komandi árum breytist eitthvað í þessa veru. Ég hef einnig vísað til þess og hæstv. fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi hafa tekið undir það, að það vilja allir skoða þetta með hugsanlegar breytingar í huga.

En auðvitað er það þannig að fjárlögin eru eins og hver önnur lög og við höfum fjallað um það í yfirlitum varðandi framkvæmd fjárlaga, að eitt af meginhlutverkum fjárlaganefndar sé að fylgja því eftir. En því miður hefur það ekki verið hér á liðnum árum.

Hvað varðar nefndarálit okkar þá vísa ég til þess sem þar stendur, að ríkisendurskoðandi hefur staðfest við nefndina að umræddar tekjur byggist á yfirferð embættisins á sölusamningum og að þeir séu að mati embættisins tryggir. Það er í ljósi þess sem meiri hlutinn leggur til umrædda tekjufærslu, með yfirliti frá fjármálaráðuneytinu þar sem segir með tilvísun til þess sem tengist þjónustutekjum, með leyfi forseta:

„Í því ljósi hefur ráðuneytið nú óskað eftir viðræðum við félagið um endurskoðun á samningnum hvað varðar þóknun fyrir sölu eigna. Við þá endurskoðun er byggt á nýjustu áætlunum fyrirtækisins um sölu eigna og kostnaðarþörf vegna umbreytingar svæðisins.“