135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:21]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það markmið í hverjum rekstri að það þurfi ekki að koma til fjáraukalaga. Það er líkt eins og hjá sveitarfélögunum. Sveitarfélögin stefna að því hverju sinni, öll 79 að tölu, að ekki þurfi að koma til endurskoðun á fjárhagsáætlunum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

En eins og við höfum horft á rekstur hins opinbera, hvort sem er sveitarfélag eða ríkið, þá hefur það verið venjan að sveitarfélögin hafa samþykkt breytingar á fjárhagsáætlun oft á ári en það er komið niður í kannski einu sinni, tvisvar og flest sveitarfélögin samþykkja núna breytingar einu sinni á ári. Hér hefur venjan verið að samþykkja breytingar á fjáraukalögum einu sinni á ári.

Ef við horfum á fjárlögin sem heimildaráætlanir þá ber að virða heimildirnar og þar af leiðandi ættu ekki að koma til breytingar nema með fjáraukalögum nema vegna einhverra atvika sem ekki eru fyrirséð, eins og segir einhvers staðar í lögunum. Það hlýtur því að vera markmið og ég held að við séum ásátt um það óháð pólitískum flokkum.

Örlítið meira um það sem ríkisendurskoðandi staðfesti. Hann sýndi auðvitað umrædda samninga og ég tel rétt að það komi fram í umræðunni því mér finnst það ekki vera dregið fram að fjárlögin byggja bæði á rekstrargrunni og greiðslugrunni. Í umræddum tillögum er greiðslugrunnurinn annar en rekstrargrunnurinn eða tekjufærslan. Og þó að tekjufærslan sé þetta há þá er sjóðstreymið eða greiðslugrunnurinn 3,5 milljarðar á þessu ári og 5,5 milljarðar á næsta ári. Það hefur legið fyrir og efnahags- og skattanefnd hefur farið yfir það.

Við berum fullt traust til ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðunar í þessum efnum. Ég vil nota tækifærið í þessu stutta andsvari að þakka ríkisendurskoðanda og starfsmönnum stofnunarinnar fyrir að bregðast svo skjótt við sem raun ber vitni og koma fyrir fjárlaganefndina og gefa upplýsingar um öll þessi gögn.