135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[17:51]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir málefnalega og skýra yfirferð um sýn sína á fjáraukalögin og var ánægjulegt að fá að taka þátt í umræðu á þeim nótum sem hún hefur flutt mál sitt.

Varðandi efnisatriðin sem fram koma, og ég ætla að reyna að svara því í stuttu máli, er fyrst til að taka blessaða Yarisinn sem kom til umræðu en fjárlaganefnd hefur ekki mjög mikla þekkingu yfir höfuð á bílum, utan einn maður. (KolH: Eigið þið ekki jeppa?) — Ég á ekki jeppa, það skal upplýst. Við tókum hins vegar við fjárbeiðninni, eins og hún kom fyrir af skepnunni, sem var upp á 3 millj. kr. og létum hana ganga inn þannig að við kynntum okkur það ekki frekar.

Það er hins vegar margt til í því sem hv. þingmaður nefndi varðandi náttúrustofur og háskólasetur. Ég deili skoðunum með hv. þingmanni í þeim efnum að það mætti vera unnið með öðrum og markvissari hætti og negla frekar niður hvernig það yrði byggt upp o.s.frv. Í grunninn er ég sammála því að óþarfi er að fara með starfsemina í gegnum milliliði og við eigum að reyna að forðast það.

Varðandi Náttúrufræðistofnun Íslands vil ég benda á að þar eru í pípunum gríðarlega miklar framkvæmdir og breytingar. Verið er að byggja yfir stofnunina í Garðabæ og gert er ráð fyrir leigu á húsnæði fyrir þá merku stofnun en eins og allir gera sér ljóst tekur tíma að ljúka því verki. Væntanlega mun það hýsa glæsilega starfsemi þegar það kemur í not og í ljósi þess er ekki þörf fyrir heimildir sem voru inni varðandi leigu og annað því um líkt fyrr en Náttúrufræðistofnunin kemur til starfa á nýjum vettvangi.