135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2007, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

268. mál
[19:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Koma á til atkvæða fullgilding tilskipunar, vatnatilskipunar eða vatnsverndartilskipunar Evrópusambandsins á eftir. Svo tókst til við fundarstjórn áðan að málið var fyrirvaralaust tekið á dagskrá með því að hoppa yfir nokkur dagskrármál og þeirri umræðu lauk svo hratt að m.a. ég, sem skrifa undir nefndarálit utanríkismálanefndar í málinu með fyrirvara, náði ekki að komast til umræðunnar þó að ég væri nokkra tugi metra í burtu. Ég hef þegar komið athugasemdum mínum við þá fundarstjórn á framfæri. Ég tel ekki vera í samræmi við góðar venjur að þeir sem gert hafa aðvart um að þeir hyggist tala fyrir áliti sínu séu ekki aðvaraðir eða eigi þess ekki kost að koma til umræðunnar. Nóg um það.

Afstaða okkar og fyrirvari lúta ekki að því að við teljum ekki rétt að Ísland fullgildi tilskipunina, það er tvímælalaust margt til bóta í henni og að sjálfsögðu rétt að við Íslendingar innleiðum það sem má til heilla horfa hvað varðar vatnsvernd. Þó er það flókið mál lagalega að innleiða tilskipunina vegna þess að hún felur í sér ýmis ákvæði sem liggja utan gildissviðs EES-samningsins, þar á meðal allan líffræðilegan hluta tilskipunarinnar. Þar af leiðandi þarf að fara rækilega í gegnum málið og skoða hvernig tilskipunin verður tekin inn í íslenskan rétt, annars vegar sá hluti hennar sem við erum skuldbundin af á grundvelli EES-samningsins og hins vegar hvernig við meðhöndlum önnur ákvæði sem þar liggja fyrir utan að því marki sem þau eru ekki þegar til staðar í íslenskri náttúrverndarlöggjöf.

Varðandi undirbúning málsins er hann er afar skammt á veg kominn hér heima ef hann er þá hafinn. Hann lýtur aðallega að tvennu, þ.e. væntanlega að undirbúningi og setningu nýrra vatnsverndarlaga á verksviði umhverfisráðuneytis og hins vegar hefur löggjöfin margþætt samhengi við vatnalög sem nú eru til endurskoðunar eða á að fara að endurskoða á vegum iðnaðarráðuneytisins. Samkvæmt upplýsingum í utanríkismálanefnd er sú vinna reyndar ekki enn hafin. Fyrirvari okkar lýtur fyrst og fremst að stöðu málsins hér heima og með hvaða hætti verði unnið að því að taka ákvæðin inn í íslenskan rétt og endurskoða lög í því sambandi. Það er afar mikilvægt að verkið verði allt vandað og við viljum sjá hvernig því máli reiðir af.