135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[19:11]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þar sem við áttum síður von á að kæmi til atkvæðagreiðslu í kvöld kem ég hér upp þar sem fulltrúi okkar í fjárlaganefnd, hv. þm. Bjarni Harðarson, er kominn út á land og kemst ekki í atkvæðagreiðsluna frekar en aðrir úr okkar hópi sem einnig voru komnir út á land. Við teljum að mjög margt sé athugavert við frumvarpið sem við greiðum brátt atkvæði um og höfum áhyggjur af ýmsum tillögum sem þar eru. Sumar eru til bóta, aðrar eru þess eðlis að við höfum verulegar áhyggjur og vil ég sérstaklega nefna heilbrigðisstofnanir sem við vitum að fá ekki nægjanlegt fjármagn. Þar sem um er að ræða frumvarp ríkisstjórnarmeirihlutans viljum við ekki bera ábyrgð á tillögunum þannig að við munum almennt sitja hjá við afgreiðslu þeirra nema við munum samþykkja tillöguna sem fulltrúi okkar í fjárlaganefnd stendur að ásamt öðrum fulltrúum í minni hlutanum í nefndinni.