135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:44]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir það þegar maður lítur á niðurstöður PISA-könnunarinnar að niðurstaðan er auðvitað ákveðin vonbrigði, sérstaklega hvað varðar lesskilning barnanna. Við eigum að taka þessa niðurstöðu alvarlega en við verðum líka að skoða þær forsendur sem hún byggir á. Þessi könnun er ekki endilega yfir alla gagnrýni hafin. En við eigum ekki að nota þessa könnun, eins og hv. þingmaður og málshefjandi gerði, til að tala eða rífa íslenska menntakerfið niður. Það er engum til góðs, hvorki þingmanninum né menntakerfinu og börnunum sem þar læra.

Við eigum líka að líta á aðra hluti sem skipta máli í þessari könnun. Hún sýnir t.d. að sú gagnrýni sem hefur komið fram á stjórnvöld og menntakerfið á síðustu árum á ekki átt við rök að styðjast. Sú gagnrýni hefur alltaf snúist um að meiri peninga vanti í menntakerfið. Könnunin sýnir hins vegar að meiri fjármunir tryggja ekki endilega árangur. Þar eru aðrir þættir sem skipta máli. Ég held, virðulegi forseti, að við eigum að líta á þessa könnun sem skilaboð um að við þurfum að setja undir okkur hausinn og taka skólakerfi okkar og þær aðferðir sem við beitum í menntakerfinu til endurskoðunar með opnum huga og uppbyggilegum hætti. Það hefur hæstv. menntamálaráðherra gert með þeim frumvörpum sem við ætlum að ræða í dag. Sveitarstjórnarmenn, kennarar, foreldrar og nemendur þurfa að gera það sama. Við þurfum að skoða þær aðferðir sem við beitum í skólakerfinu og námsgögnin sem þar liggja frammi með það að markmiði að bæta árangur barnanna okkar. Við eigum ekki að sætta okkur við neitt miðjumoð, hvorki á þessu sviði né öðrum. En við megum ekki gleyma því, vegna þess hvernig þetta mál er lagt upp, að við eigum þrátt fyrir allt gott skólakerfi, við eigum góða kennara og krakkarnir okkar eru bráðefnilegir. Við þurfum bara að finna leiðir til að ná því besta út úr því.