135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. PISA-könnunin sem hér er tilefni umræðunnar er afar flókin könnun og ég hef haft gaman af því að hlusta á skólafólk og fræðimenn fjalla um hana í undanförnum þáttum Morgunvaktarinnar í Ríkisútvarpinu. Þær umræður færa mér heim sanninn um að við getum ekki nema í einhverjum upphrópunarstíl rætt um innihald könnunarinnar hér undir liðnum um störf þingsins.

Ég legg því til að menntamálanefnd fái sérfræðinga á sinn fund eftir jól þegar sérfræðingarnir okkar eru búnir að fá tækifæri til að rýna í könnunina og þá fáum við að vita hvert innihald hennar er í raun og veru. Ég er búin að lesa greinar á vefmiðlum eins og Politiken í Danmörku þar sem könnunin er gagnrýnd harkalega. Þar er sagt að hún geti aldrei gefið ásættanlega mynd af almennri stöðu menntakerfisins vegna þess að hún sé svo takmörkuð og aðferðirnar sem er beitt séu svo umdeilanlegar.

Það er mjög mikilvægt að allar rannsóknir sem fara fram í menntamálum fái umfjöllun í rannsóknasamfélaginu í skólasamfélaginu okkar og síðan þurfum við að finna aðferðir til að tengja þær við skólasamfélagið, við vettvanginn, þannig að þær rannsóknir sem gerðar eru skili sér og nýtist til þess að gera gott menntakerfi betra. Ég tel alveg nauðsynlegt að við skoðum þessa könnun, ég geri ekki ráð fyrir því að þingmenn hér í salnum lesi þennan doðrant sem er á annað hundrað síður og er mjög flókinn til gegnumferðar þannig að ég legg til að við förum í málefnalega umræðu um þessa könnun þegar fólk er búið að fá tækifæri til að kynna sér hana.

Svo fagna ég því að við skulum fá áframhaldandi tækifæri í dag til að ræða menntamálin og stefnu Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum.