135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

PISA-könnun.

[10:51]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við eigum að vera metnaðarfull fyrir hönd barnanna okkar og við Íslendingar viljum að sjálfsögðu vera í efsta sæti þarna og í fremstu röð meðal þjóða eins og við erum farin að venjast að vera samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum.

Að mínu mati þarf tvennt að fara saman þarna sem og annars staðar, það er aukið valfrelsi og meiri samkeppni. Þarna kemur fram eins og hér hefur verið rætt að fjárskortur virðist ekki vera rótin að vandanum samkvæmt þessari könnun vegna þess að þeir einu sem verja meira til þessa málaflokks en við, Norðmenn, koma meira að segja verr út en við.

Það er satt sem hér hefur komið fram, þetta er enginn áfellisdómur yfir íslenska menntakerfinu, en þarna eru hins vegar sterkar vísbendingar um að við séum kannski ekki alls staðar alveg á réttri braut og það þurfum við að taka alvarlega. Undirstaðan sem er mikilvægust alls, lesskilningurinn, virðist ekki vera nógu sterk. Það er alvarlegt og því þurfum við að breyta. Við höfum kannski tekið þessu sem sjálfsögðum hlut, bókaþjóðin, að hér séu allir vel læsir. Það er hlutur sem við þurfum að athuga betur og þá eigum við foreldrar, eins og hér hefur líka komið fram, mikinn hlut að máli. Mikilvægi þess að við gefum okkur tíma til að lesa með börnunum okkar verður seint ofmetið.

Við getum líka glaðst yfir einstaka niðurstöðum í könnuninni. Getumunur nemenda á landsbyggðinni hefur minnkað sem og munurinn milli drengja og stúlkna. Við þurfum þó að passa það, hvort eru drengirnir að sækja á eða stúlkunum að hraka? Við megum alls ekki festast í meðalmennskunni og jöfnuður á alls ekki að vera markmiðið í þessu sambandi. Við eigum að leyfa einstaklingum sem eiga gott með að læra að skara fram úr og aðstoða þá sem eiga erfiðara um vik (Gripið fram í.) og við megum alls ekki reyna að gera alla námsmenn að meðalnámsmönnum. Við eigum að setja markið miklu hærra og hafa metnað. Börnin okkar eiga það allra besta skilið.