135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun Íslenskrar málnefndar.

[10:53]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kalla eftir þessari umræðu er sú að þetta er í fyrsta sinn sem Íslensk málnefnd sendir frá sér ályktun um stöðu tungunnar enda starfar hún nú eftir nýjum lögum þar sem mælt er fyrir um slíka ályktun og ég tel eðlilegt að ræða hana hér á Alþingi. Það sem kemur fram í þessari ályktun sem send var öllum þingmönnum er að sumu leyti gott því að málnefndin telur stöðu tungunnar allsterka en nefnir þó nokkur atriði sem hún telur ástæðu til að staldra við. Meðal annars mælir hún með því að staða tungunnar verði tryggð í stjórnarskrá, eins og hér hefur verið rætt á þingi, og bendir einnig á nauðsyn þess að þeir útlendingar sem hér búa og starfa njóti íslenskukennslu og hvetur stjórnvöld og fyrirtæki til dáða í því sambandi.

Hvort tveggja hefur verið rætt á þinginu nýlega og því vil ég staldra við aðra þætti, sérstaklega þá sem tengjast móðurmálskennslu og hlutverki skólanna okkar í því samhengi. Þá erum við kannski aftur komin að PISA-könnuninni og lesskilningnum og hvernig við getum tryggt að staða íslenskunnar verði betur tryggð innan skólakerfisins okkar.

Í aðalnámskrá fyrir grunnskóla er ekki fjallað um málstefnu sem slíka en hins vegar má segja að ákveðin málstefna sé viðhöfð því að aðalnámskrá gefur til kynna til hvers er ætlast af kennurum við uppfræðslu barna í skólum. Þau eiga að vera læs, skrifandi og talandi að loknu grunnskólanámi og geta tekið virkan þátt í íslensku samfélagi með því að tjá sig í ræðu og riti á móðurmáli sínu, íslensku.

Því er athyglisvert að skoða tölur í skýrslu sem tekin var saman um grunnskólakennslu og kennslu í framhaldsskólum handa menntamálaráðuneytinu, samanburðarkönnun um skóla á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð árið 2002. Þar má finna athyglisverðar tölur um kennslustundafjölda í grunnskólum landanna, Danir verja 26% kennslustunda í móðurmálskennslu, Svíar nota 22% stundanna í móðurmálskennslu í sænsku en Íslendingar aðeins 16% í íslensku. Á heildarstundafjöldanum er því verulegur munur, í Danmörku er hann um 1.800 stundir í dönsku en á Íslandi aðeins um 1.300, í Svíþjóð um 1.500. Tímafjöldinn segir auðvitað ekki allt, það skiptir líka máli að horfa til inntaksins. Ég hef velt fyrir mér hvort skoða megi hvort ástæða sé til að auka hlut jafnvel ritunar og tjáningar í íslenskukennslu.

Sigurður Konráðsson, íslenskuprófessor við Kennaraháskóla Íslands, hefur rætt þessa skýrslu sérstaklega og hélt fyrirlestur um íslenskukennslu í fyrra á degi íslenskrar tungu þar sem hann setti fram þá skoðun að efla þyrfti íslensku í almennu kennaranámi, ekki síst þar sem við gerum ráð fyrir því að allir kennarar, grunn- og leikskólakennarar, séu í raun íslenskukennarar. Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort rétt væri að einungis þeir sem lokið hafa kennaraprófi á íslenskukjörsviði ættu að verða íslenskukennarar í efri bekkjum grunnskóla. Í ljósi þess frumvarps sem hér verður til umræðu á eftir um menntun kennara og lengingu kennaranáms finnst mér ástæða til að ræða hlut faggreina almennt í kennaranámi því að vitaskuld hlýtur fagþekkingin að skipta máli. Mjög stór hluti máluppeldis fer fram inni í skólum landsins þar sem nemendur eyða æ lengri tíma.

Annað sem ég vil nefna sérstaklega er sú ábending málnefndarinnar að íslenska eigi undir högg að sækja í vissum geirum atvinnulífsins. Við þekkjum þá umræðu úr fjármálageiranum en vissulega víðar. Það hlýtur að vera áhyggjuefni ef íslenskan hopar á tilteknum sviðum samfélagsins því að þá er hættan á að málið staðni og hætti að vera brúklegt, t.d. þegar við ræðum um tæknileg atriði í vísindum, viðskiptum eða á öðrum tilteknum sviðum. Við þekkjum þau rök sem við heyrum að íslenskan eigi hreinlega ekki orð fyrir sumt. Þá minni ég reyndar á orð Einars Benediktssonar um að orð væru til á Íslandi um allt sem hugsað er á jörðu. Eins og Þorsteinn Gylfason heitinn bendir á í grein sinni Að hugsa á íslensku snýst þetta ekki um að íslenskan eigi orð yfir allt sem talað er, heldur einmitt það sem er hugsað. Nýyrðasmíði snýst ekki um að smíða orð, heldur að leita orða og finna þau.

Ástæða þess að dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar er ekki aðeins kveðskapur hans, heldur einmitt framlag til nýyrðasmíðar og endurnýjunar tungunnar. Með hjálp Jónasar og ótal margra fleiri höfum við getað haldið áfram að tala um ólík fræðasvið. Þar held ég að háskólar landsins hafi gríðarmiklu hlutverki að gegna. Það hlýtur að vera þeirra hagur að skila nemendum sem eru vel heima í móðurmáli sínu, koma vel fyrir sig orði og hræðast ekki að kynna fræði sín fyrir öðrum á skýran og greinargóðan hátt. Ég kem kannski aftur að þessu máli á eftir.

Annað sem kannski er þarft að ræða í umræðu sem þessari er lesskilningurinn sem hér var nefndur áðan, breyttar lestrarvenjur barna og unglinga sem ég tel að skipti lykilmáli þegar við ræðum um stöðu tungunnar. Þar tel ég að öflugt bókmenntauppeldi sé besta vörnin. Við þurfum að horfa hér á bæði hlutverk foreldra en ekki síður skólakerfisins því að ég tel að læsi sé jafnvel eitt það mikilvægasta í því að tryggja velferð og jöfnuð í hverju samfélagi.