135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun Íslenskrar málnefndar.

[10:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu utan dagskrár um ályktun Íslenskrar málnefndar en um leið þakka henni fyrir afar skemmtilegt og faglegt innlegg, bæði í upphafi þessarar umræðu og ekki síður áðan. Ég undirstrika það.

Það er ákaflega brýnt að ræða reglulega stöðu íslenskunnar í nútíð og framtíð og við verðum að átta okkur á því að við höfum tekið móðurmálið okkar, þjóðtunguna, í arf og þess vegna er það skylda okkar að varðveita þá arfleifð, rækta hana og efla. Ég hef sjaldan, herra forseti, fundið fyrir jafnmiklum og almennum vilja til slíkrar ræktarsemi og á undanförnum vikum. Vafalaust á afmæli þjóðskáldsins úr Öxnadal ríkan þátt í því og sú dagskrá sem efnt var til í tilefni af degi íslenskrar tungu, afmælisdegi hans, víðs vegar um landið, í skólum, menningarstofnunum og annars staðar. Það er trú mín að mikill og lifandi áhugi á íslenskri tungu skýrist, a.m.k. að hluta til, af því að við verðum þess betur áskynja að tungan okkar er í hættu, það er að henni sótt og það er skylda okkar allra að standa vörð um hana.

Ég tel að Alþingi hafi stigið gæfuspor á síðasta ári þegar samþykkt var frumvarp sem fól í sér sameiningu fimm stofnana sem allar tengjast menningarlegri arfleifð okkar sem þjóðar, sögunni og tungunni, í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Tilgangur sameiningarinnar var að efla rannsóknir og miðlun á sviði íslenskra fræða, auk þess að efla fræðilega ráðgjöf til styrktar og eflingar íslenskri menningu og tungu.

Íslensk málnefnd gegnir um margt veigameira hlutverki en áður og er enn sem fyrr mikilvægur og breiður samráðsvettvangur um íslenskt mál. Í lögum um stofnunina eru ákvæði sem varða íslenska tungu og þar eru ýmis nýmæli. Samkvæmt lögunum er það hlutverk Íslenskrar málnefndar að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu. Nefndinni er þar falið að gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, sem er nýmæli, og nefndinni er falið að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Tilgangurinn með því að leiða í lög ákvæði um þessi atriði er einfaldur. Árleg ályktun um stöðu íslenskrar tungu þjónar þeim tilgangi að fá fram álit þeirra sem málnefndina skipa á því hver staða tungunnar sé á hverjum tíma og við viljum efna til reglubundinnar, upplýstrar og almennrar umræðu um stöðu tungunnar.

Þann 10. nóvember sl. stóð Íslensk málnefnd fyrir málræktarþingi, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, og sendi frá sér sína fyrstu ályktun um stöðu íslenskunnar. Ályktunin er vönduð og yfirgripsmikil en megininntak hennar er að staða íslenskunnar er almennt sterk og sköpunarmáttur hennar er mikill. Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma og við megum ekki sofna á verðinum. Málnefndin vinnur nú ötullega að því að leggja drög að íslenskri málstefnu sem er hlutverk hennar að lögum. Á vegum Íslenskrar málnefndar starfa nú fimm vinnuhópar sem fjalla um stöðu íslenskunnar og málstefnu í skólum landsins, um málstefnu í fjölmiðlum og listum, um íslensku sem annað mál og íslenskukennslu erlendis. Jafnframt fjalla hópar um háskóla, vísindi og fræði og um tungumál og málfar í stjórnsýslu en ekki síður í viðskiptum.

Í byrjun næsta árs munu vinnuhóparnir skila skýrslum og á grundvelli þeirra verða útbúin fyrstu drög að mótun íslenskrar málstefnu. Í kjölfarið ráðgerir málnefndin að halda 10 málþing í samvinnu við stofnanir eða samtök sem hagsmuna eiga að gæta á þeim sviðum þjóðfélagsins sem til umfjöllunar eru. Menntamálaráðuneytið mun leggja sérstaka áherslu á málefni íslenskrar tungu á komandi missirum og styðja við þetta mikilvæga starf nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að íslensk málstefna verði síðan kynnt í árslok 2008.

Ég hef í hyggju, herra forseti, að beita mér fyrir því sem ráðherra mennta- og menningarmála að málstefnan verði lifandi stefna sem hafi skýra skírskotun til samtíðar okkar og sjálfsmyndar, menningarvitundar okkar sem þjóðar. Ég tel að þá málstefnu sem við viljum beita okkur fyrir eigi að kynna í ríkisstjórn, og hana á að leggja fram og ræða gaumgæfilega hér á Alþingi. Það kemur til greina að minni hyggju að Alþingi álykti sérstaklega um málstefnuna þannig að staða hennar og gildi verði ótvírætt. Þingheimi gæfist þá jafnframt tækifæri á að ræða stefnuna og álitamál sem henni tengjast og sjálfsagt má telja að sú umræða fari fram reglulega á nokkurra missira fresti.

Samfélagið breytist, málið breytist og áherslur sem varða tunguna hljóta því að breytast. Þetta allt kallar á og á að kalla á umræðu í samfélaginu öllu en ekki síst hér á Alþingi.