135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir fyrir þessa umræðu sem er afar góð og við eigum jafnvel eftir að flétta hana áfram inn í umræðu dagsins um íslenska skólakerfið.

Ályktun Íslenskrar málnefndar er mjög athyglisverð. Það er líka gaman lesa hana vegna þess að hún er svo vel samin, svo fallegur texti, svo fallegt mál á henni og hún er skemmtilega uppbyggð því Íslensk málnefnd er að brýna þjóðina alla. Hún talar ekki bara til okkar stjórnvalda. Hún talar líka til skólakerfisins. Hún talar sérstaklega til íslenskra framhaldsskóla og segir þeim að óráðlegt sé og óþarft að stofna sérstakar námsbrautir þar sem kennt er á öðru tungumáli en íslensku. Hún talar sérstaklega til íslenskra háskóla og hvetur þá til að tryggja stöðu tungunnar í fræðasamfélaginu og telur að það verði best gert með því að hvika hvergi frá því að kenna fyrst og fremst á íslensku.

Íslensk málnefnd talar sérstaklega til okkar stjórnvalda og hvetur okkur til að efla kennslu í íslensku fyrir útlendinga, efla menntun þeirra sem kenna íslensku sem annað mál og rannsóknir á því sviði sem mér finnst mjög athyglisverð og þörf ábending. Íslensk málnefnd hvetur forráðamenn allra íslenskra fyrirtækja til að bjóða þeim starfsmönnum sínum sem ekki tala íslensku vandaða íslenskukennslu í vinnutíma og að lokum hvetur Íslensk málnefnd allan almenning til að sýna erlendum starfsmönnum íslenskra fyrirtækja jákvætt viðmót og efla þá í viðleitni sinni til að læra íslensku.

Hér talar Íslensk málnefnd til þjóðarinnar allrar. Þess vegna fagna ég sérstaklega þessari ályktun og tel að hún kunni að vera árangur af lagabreytingunni sem við gerðum í mikilli sátt á Alþingi Íslendinga um stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ég vil líka þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að gefa okkur yfirlýsingu um að samþykkt verði íslensk málstefna á næsta ári eftir ítarlega faglega vinnu sem nú er hafin og kemur til með að klárast á næsta ári. (Forseti hringir.) Mig langaði að segja miklu meira, nefna m.a. tvær þingsályktunartillögur sem varða íslenskuna, en það verður að bíða.