135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:12]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hér er um afar mikilsvert mál að ræða. Íslenskri málnefnd hefur verið falið mikilvægt hlutverk. Hæstv. menntamálaráðherra hefur nefndina sér til fulltingis um málstefnu og stöðu íslenskrar tungu. Við vitum öll að hún er það dýrmætasta sem við eigum.

Sú vinna sem Íslensk málnefnd hefur innt af hendi hingað til og einnig það sem fram kemur í stefnuskrá hennar til 2010 er afar mikilvægt. Ég lýsi eindregnum stuðningi og ánægju með hlutverk hennar og ég veit að tillögum nefndarinnar verður vel tekið í menntamálaráðuneytinu og ýtt úr vör þar.

Við höfum áhyggjur af því að börnin okkar lesi ekki nógu mikið og því miður eru teikn á lofti um að lestrarskilningi hafi hrakað. Ég held að sú vísa verði seint of oft kveðin að við þurfum öll að lesa meira. Ég hef áhyggjur af því að börnin lesi ekki nóg en ég hef ekki síður áhyggjur af því að við gleymum mikilvægi tungunnar í allri hugsun. Það er eindregin skoðun mín að nauðsynlegt sé fyrir börn að læra að tjá sig í rituðu máli. Færni og leikni í að skrifa á móðurmálinu eykur lestrarskilning gríðarlega fyrir utan það hve hollt það er fyrir ungan huga að koma hugsunum sínum á blað.

Við höfum borið gæfu til þess að gæta að stöðu íslenskra fræða í samfélagi okkar. Við eigum dýrmætan bókmenntaarf, einstaka tungu og menningu sem er samofin hvoru tveggja. Í mínum huga skiptir meginmáli að íslenskan sé í fyrsta sæti í öllum greinum háskólanáms.

Í allri umræðu um aukin samskipti um gervalla veröldina er eitt meginatriði sem aldrei má gleyma. Íslensk menning vekur forvitni útlendinga. Tungan vekur forvitni og hún hefur á margan hátt mótað okkur og ekki síst í þeim skilningi að okkur finnst við öðruvísi en aðrir og erum þá kannski hugaðri en aðrir. En munum alltaf eftir því að til að kunna framandi tungumál, til þess að ná tökum á málefnum útlendinga, verðum við að kunna móðurmálið vel. Ekkert skiptir meira máli.