135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

ný ályktun íslenskrar málnefndar.

[11:21]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um tunguna og kannski hlutverk okkar sem hér sitjum í þeim efnum. Ég fagna því að íslensk málstefna eigi að liggja fyrir 2008 og tek undir þau orð hæstv. menntamálaráðherra sem hér talaði að það skiptir máli að hún verði lifandi og virk. Ég minni auðvitað aftur á að besta leiðin til þess er kannski að líta til móðurmálskennslunnar en svo horfa líka á grasrótarstarfið, horfa á hvernig fólk talar. Sjálf varpaði ég einhvern tíma fram þeirri hugmynd í grein hvort íslenskir rapparar væru í raun Fjölnismenn vorra tíma því að þeir væru búnir að þýða hér ameríska tónlistarhefð. Sumir voru ekkert sérstaklega ánægðir með þessa kenningu en ég tel þó að þetta hafi skipt miklu máli, einmitt til þess að ungt fólk haldi áfram að tala íslensku og það geti tjáð sig um hvað sem er á henni.

Mig langar aðeins að taka aftur upp þann þráð sem tengist hlutverki háskólanna, sem kannski líka má líta á sem uppeldisstöðvar nýrra Fjölnismanna. Það er ekkert kveðið á um það í lögum á hvaða tungumáli starfsemi þeirra skuli fara fram. Við höfum þó tekið eftir því að það er ákveðin þróun í þá átt að mest er kennt á íslensku í grunnnámi en enskan sækir í sig veðrið í framhaldsnámi. Ég tel að það skipti máli — þó að við skikkum hér ekki háskóla til að kenna tiltekna hluti — að við hvetjum til þess að þeir velti alvarlega fyrir sér skyldum sínum. Ég tel að málþróun og nýyrðasmíð eigi að vera hlutverk eða hluti af hlutverki hvers háskóla og að háskólar eigi endilega að velta því fyrir sér hvort ekki skipti líka máli að kenna hreinlega málnotkun samhliða aðferðafræði í öllum fræðum, ekki bara íslenskum fræðum. Eins og ég segi hlýtur það að vera hagur þeirra að skila samfélaginu nemendum sem eru vel heima í sínu móðurmáli. Ég tel að þetta mundi gera háskólanemendur almennt meðvitaðri um móðurmál sitt og mikilvægi þess. Slík viðleitni mundi vafalaust skila sér út í atvinnulífið þar sem við höfum áhyggjur af því að fólk tali saman á ensku, þ.e. að fólk sé vel sjóað í því að tala um sitt fag á íslensku.