135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[16:09]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla ásamt frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við sömu skólastig. Hér eru lögð fram þrjú frumvörp sem ná til þriggja skólastiga, leik-, grunn- og framhaldsskóla og ég fagna því. Ég vil fagna þeirri samfellu sem ég sé að ríkir í þessum frumvörpum og mér finnst að með því að leggja þau fram hér saman þá sýni hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, framsýni og metnað.

Ég hins vegar vil taka undir orð hv. þm. Dýrleifar Skjóldal að fögur fyrirheit eru ekki næg, blóm sem sprettur verður að fá tækifæri til að blómstra. Við þurfum að veita þessum frumvörpum brautargengi með það í huga.

Það sem hér er og má lesa, um samfellu, sveigjanleika og skóla án aðgreiningar, er framfaraspor á Íslandi. Fyrst og síðast vil ég gera að umtalsefni sveigjanleikann á milli skólastiga, innan skólastiga og á milli þeirra. Tækifærið sem hér býðst, að leikskólinn og þeir starfshættir og þær aðferðir sem beitt er í leikskólum skuli geta flætt inn í yngstu bekki grunnskólans og síðan að þeir nemendur sem þess þurfa geti verið lengur innan þess stigs sem þeir þurfa á að halda og þeir nemendur sem hraðar geta farið hafi líka kost á því, það er skóli án aðgreiningar. Þetta er flæði á milli skólastiga og mér er tamara að tala um flæði á milli skólastiga heldur en upp og niður kerfið vegna þess í mínum huga byggir hvert stig undir það sem síðar kemur.

Ég vil líka fagna því sem er í þessum frumvörpum öllum, áherslunni á nemandann. Það er áherslan á barnið í leikskólanum sem við enn köllum ekki nemanda þrátt fyrir að leikskólinn sé fyrsta skólastig. Ég vil fagna því, vegna þess að skólinn er fyrir nemendur. Leikskólinn er fyrir börn á aldrinum eins til að verða sex ára og grunnskólinn frá sex til sextán ára og framhaldsskólinn síðan upp úr. Þessir skólar eru ekki fyrir starfsfólkið. Það er enginn skóli fyrir kennarana sem þar starfa. Þeir eru fyrir börnin, þess vegna á áherslan að vera á nemandann og ég fagna því sérstaklega.

Ég fagna einnig nýju einingakerfi í framhaldsskóla þar sem námsframlag nemenda skiptir máli. Þar er tekið upp nýtt einingakerfi og vinnuframlag nemenda á ársgrunni skiptir máli en ekki fjöldi kennslustunda kennarans eins og áður hefur verið. Það er mikil og góð breyting og það er stærsta áherslubreytingin að mínu mati í því að færa framhaldsskólann til nemendanna og fyrir þá en ekki að hafa hann kennaramiðaðan.

Um einstakar greinar frumvarpanna má segja margt og hv. þingmenn úr öllum flokkum hafa rakið ýmislegt. Sem skólamanneskju með réttindi á grunn- og framhaldsskólastigi og með framhaldsnám í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun þykir mér notalegt að vita að það er samhljómur á meðal hv. þingmanna í öllum flokkum um að vinna að þessum frumvörpum og skoða þau út frá því að nemandinn skipti máli.

Ég fagna því sérstaklega sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að sveitarfélögum eru hér gefin tækifæri til samreksturs skólastiga. Ég vil benda hv. þingmönnum á skemmtilega grein úr Mosfellsbænum sem er í Morgunblaðinu í dag um svokallaðan Krikaskóla þar sem sveitarfélagið fór nýstárlega leið til fagfólks, í mótun skólastarfs frá eins árs og til níu ára aldurs, þar sem leitað var til fagfólks um hönnun skólans, um skólastefnu og skólastarf og ég bið fólk um að skoða það metnaðarfulla plagg sem þar er kynnt í stuttri grein í Morgunblaðinu.

Í þessu ferli var sjálfstæði sveitarfélagsins virt og ekki síður báru fulltrúar bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ traust til fagfólksins til þess að móta hugmyndafræðina, skólastefnuna og húsnæðið, aðlagað að þeirri skólastefnu sem lögð er þar fram.

Það er sérstaklega áhugavert, frú forseti, að í þeirri verðlaunatillögu sem fyrir liggur má finna rithöfund, skólamann og arkitekt. Þar mætast því ólíkir einstaklingar en út úr þeirra viðhorfum kom afar áhugaverð skólastefna með áherslu á umhverfi þess skóla sem þar mun rísa, aðstæður í næsta nágrenni og sveitarfélagið sjálft.

Ég held líka að með því, frú forseti, að heimila í lögum samrekstur skólastiga þá getum við enn frekar aukið listnám í grunnskólum og leikskólum og í framhaldsskólum með aðkomu tónlistarskóla, myndlistarskóla, leiklistarskóla og annarra listaskóla inn í þá samfellu sem á að vera í námi barna okkar. Þær hliðargreinar sem hingað til hafa verið taldar, eins og listgreinar, íþróttir og útivist og annað í þeim dúr, hafa vissulega sýnt að þær eru ekki síður mikilvægar í námi barnanna okkar og þær efla ef eitthvað er frumkvæði, sköpun og skipulag þeirra nemenda sem taka jafnframt þátt í slíkum hliðargreinum, ef við megum nota það orð, sem mér sýnist nú reyndar að hafi verið svona hálfgerðar hliðargreinar hingað til.

Fyrir hönd sveitarfélaganna fagna ég þessu heimildarákvæði um samrekstur skólastiganna því sérstaklega. Ég er sannfærð um að það mun verða virk þróun í þá átt að leikskólinn og grunnskólinn starfi saman og grunnskólinn og framhaldsskólinn taki upp nánara samstarf. Þetta er ekki bara til heilla fyrir börnin okkar, það má líka líta til þess að það getur skapast þarna ákveðin hagræðing og hún skiptir máli vegna þess að þessi málaflokkur, hvort heldur er hér á suðvesturhorninu eða austur í sveitum eða austur á landi eða á Norðurlandi, er fjárfrekastur allra þátta í rekstri hvers og eins sveitarfélags.

Mig langar líka að fagna, frú forseti, og geri það sem fyrrverandi skólastjóri horfandi á annan fyrrverandi skólastjóra, hv. þm. Guðbjart Hannesson, þeim breytingum sem gerðar eru á grunnskólalögum um það að skólastjórinn fær aukið sjálfræði og sjálfstæði og að sveitarfélagið getur ráðið skólastjórnarteyminu á hverjum stað eftir ástæðum. Ég fagna líka þeirri faglegu ábyrgð sem er aukin í þessu frumvarpi, sérstaklega grunnskólans, vegna þess að fagfólkið á hverjum stað er færast um að leggja þær áherslur í samvinnu og samráði við foreldra og sveitarstjórnaryfirvöld á hverjum stað.

Þess vegna ber líka að fagna aukinni aðkomu foreldra á öllum skólastigum. Það hefur stundum verið sagt, og ég held að það sé staðreynd, að foreldrar eru sérfræðingar í börnum sínum og um börnin sín. Þeirra áherslur og skólanna fara ekki endilega alltaf saman og með þessu svokallaða skólaráði sem hér er sett og bundið í lög í grunnskólalögunum, í frumvarpi til grunnskólalaga, er verið að auka aðkomu foreldra og annarra að skólanum sjálfum. Starfsfólk skólans annað en kennarar hefur aðkomu að skólaráði og í því má líka finna að nemendur eiga að eiga þar aðkomu að, enda er það ekkert skrýtið. Þetta er þeirra vinnustaður í tíu ár af þeirra lífi. Mér finnst hins vegar rétt að við horfum aðeins til þess að aukinni ábyrgð foreldra og samábyrgð nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda, fylgja réttindi og því fylgja skyldur. Það má aldrei gleyma því.

Í þriðja lagi hefur stundum verið rætt um að það mætti ekki tala um skólann sem vinnustað nemenda. En hann er vinnustaður nemenda. Það á að virða vinnustaðinn og fullorðið fólk, foreldrar og aðrir, þurfa að horfa á vinnustað barnanna sinna og sýna honum þá virðingu sem það ætlast til að þeirra eigin vinnustaður fái. Það er enginn munur þar á. Það felst í því ákveðið uppeldi gagnvart börnum okkar. Það felst líka í því ákveðin umhyggja gagnvart börnum okkar vegna þess að nemendur sem ekki virða vinnustaðinn og foreldrar sem ekki virða vinnustað barnanna eru að leggja grunn að einhverju öðru en virðingu fyrir vinnu. Ég tel það afar mikilvægt ef við horfum til þessara þátta.

Í þessu frumvarpi og í öllum frumvörpunum getum við sagt með mikilli gleði, í að minnsta kosti ég, hæstv. forseti: Miðstýringin burt. Sjálfstæðið eflt. Við höfum nefnilega tröllatrú á fagfólkinu. Ég tel það færast um það á hverjum stað að skapa skóla sínum, hvort heldur er leik,- grunn- eða framhaldsskóli, þá umgjörð faglega og fjárhagslega sem þarf til þess að starfið blómstri og þar sé ánægja og gleði í fyrirrúmi. Ég vil aftur, frú forseti, taka undir orð hv. þm. Dýrleifar Skjóldal, um að miðstýringu námskrárinnar í grunnskóla mætti takmarka töluvert. Vegna þess að sjáum það í frumvarpi til framhaldsskólans að þar er það fagfólkið, þar er þar skólinn sem kemur til með að ráða mestu um á hvern hátt þeir byggja upp námsbrautir, á hvern hátt þeir ætla nemendum sínum í þeim skóla að stunda sitt nám og sækja sér menntun.

Það ber að fagna í framhaldsskólafrumvarpi aukinni áherslu á verknámið, starfs- og verknám. Við vitum að það hefur setið á hakanum fram til þessa. Það er ánægjulegt að sjá líka í lögum um framhaldsskóla að það er horft til þess að námslok nemenda geta verið með mjög ólíkum hætti. Ef þar er ekki horft til þess að um einstaklingsmiðað nám sé að ræða sem hæfir hverjum nemanda hverju sinni þá er það hvergi að finna. Þar fara framhaldsskólalögin virkilega í átt að því sem við köllum einstaklingsmiðað nám og ég fagna því sérstaklega.

Ég fagna því að til verði braut sem útskrifar nemendur og þeir fái í hendur svokallað framhaldsskólaskírteini. Það hefur löngum loðað við að nemendur hverfi úr framhaldsskólum og að þeir fari þaðan án þess að hafa neitt í höndunum. Það próf sem getið er um í 16. gr. gefur ákveðnum hópi nemenda mikla sjálfsvirðingu og rétt til þess að fara síðar á ævinni aftur inn í skólann með skírteini um það að þeir hafi lokið ákveðnum grunnþáttum og þurfi ekki að byrja upp á nýtt.

Það er líka fagnaðarefni að sjá að við er haldið í 17. gr. þróun til starfsréttinda og síðan með hvaða hætti skólunum er veitt umboð, faglegt umboð, til þess að búa til ólíkar stúdentsprófsbrautir.

Fyrir mig, hæstv. forseti, sem skólamanneskju eru þessi frumvörp sérlega ánægjuleg vegna þess að ég sé ekkert í þeim nema tækifæri fyrir skólana í landinu. Fyrir leikskólann, fyrir grunnskólann og fyrir framhaldsskólann.

Mér finnst líka skipta máli að á öllum þessum skólastigum er lögð áhersla á mat á skólastarfi. Ég vil sérstaklega hvað það varðar, fagna því að hæstv. menntamálaráðherra færði samræmdu prófin fram fyrir áramót. Vegna þess að þá verða þau virkilega leiðbeinandi fyrir nemendur og fyrir skólann til þess að undirbúa nemendur enn betur og frekar undir það stig sem tekur við haldi þeir áfram í námi.

Mat á skólastarfi, hvort heldur er innra mat eða ytra mat, er og á annars vegar að efla gæði skólastarfsins og auk þess að stuðla að umbótum og það kemur vel fram í frumvarpinu. Þetta orð, mat, hefur farið fyrir brjóstið á mörgum vegna þess að menn óttast alltaf að það hafi í för með sér mikla og vonda samkeppni en ég tel það rangt vegna þess að ég er nú einfaldlega þeirrar gerðar og þar að auki í þeim flokki að samkeppni er manni ofarlega í huga. Ég hef alltaf talið að hún væri af hinu góða (Gripið fram í.) og ég hef ekki, — alin upp á venjulegu alþýðuheimili á Akranesi, krafin um ábyrgð og virðingu og hvött til náms og dáða — ég hef aldrei getað fundið orðinu samkeppni eitthvað til foráttu vegna þess að mér hefur oftar en ekki fundist hún bara pínulítið skemmtileg.

Að lokum, hæstv. forseti, af því að þingmaður sem hér stendur er að reyna að tileinka sér verðandi þingsköp, þ.e. að tala helst sem minnst, (Gripið fram í.) þá ætla ég að lokum að koma örlítið að menntun kennara og ég ætla að fagna aukinni menntun kennara. Ég fagna því áræði og þeim kjarki sem fram kemur í þessum frumvörpum að gera áþekkar kröfur til kennara á leikskólastigi og kennara á framhaldsskólastigi. Æviferlið frá tveggja ára til átján eða tuttugu, skiptir meginmáli í lífi barna og ungmenna og það er ekki síður mikilvægt að menntunin sé mikil á yngri stigum og það er ekkert auðveldara eins og sumir halda að kenna á yngri stigum en eldri stigum. Það þarf ekkert að kunna minna til að kenna á yngri stigum en á eldri stigum. Það er bara einfaldlega rangt. Þú þarft að ráða yfir hæfni í þeirri grein sem þú ætlar að miðla öðrum og því meiri sem hæfni þín er þeim mun auðveldara er þér að koma á framfæri og fá aðra til þess að fyllast áhuga á sömu grein.

Að lokum, frú forseti, það er ljóst að þessi metnaðarfullu frumvörp, a.m.k. þau sem taka til leik- og grunnskóla, munu hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Það kemur fram í greinargerð að Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytin munu fara yfir þá þætti og væntanlega þýðir það að fjármunir munu þá fylgja þegar í ljós kemur hver útgjaldaaukningin verður. En ég sagði jafnframt áðan og ég stend á því að þessi frumvörp, engu að síður með samrekstri skóla og samrekstri skólastiga gefa líka sveitarfélögum tækifæri til hagræðingar.

Frú forseti. Þau frumvörp sem hér eru eru metnaðarfull, fela í sér sjálfstæði, fela í sér frumkvæði. Það er eitt atriði enn sem mig langar til að minnast á, vegna þess að í frumvörpunum er sérstaklega talað um aukna sérfræðiþjónustu á flestum sviðum og það er talað um öfluga starfs- og námsráðgjöf. Mér hefði því þótt að samhliða því að lögvernda starfið leikskólakennari þá hefði starfsheitið náms- og starfsráðgjafi verið lögverndað til þess að leggja á það áherslu að sú ráðgjöf, hvort heldur er í námi til náms eða starfs sem veitt er í skólunum, sé veitt af fagfólki en ekki einhverjum öðrum.

Ég er ansi hrædd um að lögfræðingur mundi ekki sætta sig við að ef fyrirtækið Sveinn K. Sveinsson fengi ekki lögfræðinga vegna þess að þeir væru ekki í boði, að Gunnar Gunnarsson verkfræðingur yrði ráðinn í starfið og hann fengi að titla sig lögfræðing eða leiðbeinanda í lögfræðistörfum. Né heldur verkfræðingurinn ef lögfræðingurinn yrði ráðinn í starf hans.

En okkur finnst samt að það geti flestir farið í skólana, hvort heldur er í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla og gerst mentorar eða kennarar. Sumir eru færir um það. Það eru líka í kennarastétt, eins og annars staðar í öllum öðrum stéttum, misjafnir sauðir en upp til hópa menntar fólk sig til að vinna að sinni faggrein, hver sem hún er. Á það eigum við að leggja áherslu.

Við eigum samhliða að gefa öðrum starfsgreinum, eins og fram kom í máli hv. þm. Dýrleifar Skjóldal, iðjuþjálfum, þroskaþjálfum og fleiri aðilum tækifæri til að koma til starfa í skólunum án þess að þeir þurfi að hlíta orðinu leiðbeinandi. Þeir eiga að koma inn undir því heiti sem þeir eru menntaðir til og þiggja laun í samræmi við það. Ég er þess fullviss að þessi frumvörp munu efla gæði skólastarfs og stuðla að umbótum. Þau munu líka efla menntun kennara, eins og fram kemur, sem gerir það að verkum að kennarastarfið verði metið að verðleikum, ekki bara til starfs heldur líka til launa.