135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

leikskólar.

287. mál
[16:33]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og menntun og ráðningu kennara og skólastjóra við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ég fagna því að þessi frumvörp eru komin inn í þingið og ég vil óska hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur til hamingju með að vera komin með þau til umræðu og ég hlakka til að fá að takast á við þau og vinna frekar með þau í menntamálanefnd.

Ég tel að þessi lagabálkur sé einn sá mikilvægasti sem þingið getur tekist á við, þ.e. að fjalla um uppeldi og menntun barna og unglinga í íslensku samfélagi, þessi málaflokkur varðar samfélagið allt. Þess vegna legg ég á það mjög mikla áherslu að málsmeðferðin verði öll hin vandaðasta og að við náum þjóðarsátt um alla málaflokkana, þ.e. að við náum ekki aðeins sátt í þinginu heldur við þjóðina alla um öll meginatriði sem varða skólamálin.

Ég segi þetta vegna þess að ég held að eitt af því sem er hættulegast fyrir skólasamfélagið sé að með hverri nýrri ríkisstjórn eða hverjum nýjum ráðherra sé skipt um stefnu í jafnmikilvægum málaflokki og skólamálin eru. Við eigum að geta unnið málin þannig að um þau ríki sátt og tekið síðan lögin upp til endurskoðunar með reglulegu millibili.

Um nokkurn tíma hefur verið töluvert mikil ofstýring í skólakerfinu, sérstaklega í grunnskólakerfinu. Við fengum nákvæma löggjöf, stóra námskrá upp á 1.100–1.200 blaðsíður og ég sagði á þeim tíma að sú námskrá væri mjög mikilvæg. Ég held að það hafi verið gott að fá hana á þeim tíma og gott að fá umræðu um stýringuna inn í grunnskólakerfið sem henni fylgdi en ég tel enn þá mikilvægara að losna við hana aftur vegna þess að ég held að sveigjanleikinn og fjölbreytileikinn sem þarf að vera í skólakerfinu sé afar mikilvægur. Það er útilokað að Alþingi eða ráðuneyti setji ramma um hluti á hverjum tíma til langs tíma, t.d. ramma um tæknigreinar eða um tölvur og slíka menntun, það endist ekki lengi í nútímasamfélagi.

Ég ætla aðeins að fjalla almennt um frumvörpin en þau koma svo til afgreiðslu til nefndarinnar. Ég fagna því að hér er barnið sett í forgrunn, þ.e. notendur þjónustunnar, börnin og unglingarnir eru sett í forgrunn. Við eigum að gæta þess við alla meðferð málsins að sjónarhornið verði ávallt á hvernig það nýtist sem við berum á borð fyrir börnin, þau eiga að nota þjónustuna og fjölskyldur þeirra og þar með samfélagið allt.

Í þeirri rammalöggjöf sem hér er sett er boðaður aukinn sveigjanleiki, aukið val, aukið sjálfstæði skóla og sveitarfélaga til að ráðstafa sínum málum. Það er verið að auka samfelluna á milli skóla og skilgreina hvernig nemendur færast á milli skólastiga. Ég tel þetta afar mikilvægt og sé ýmsa möguleika í opnuninni sem þar kemur fram en nú verða kennarar með svipaða menntun, allir með um fimm ára menntun sem þýðir að leikskólakennarar geta kennt í grunnskólann og öfugt, að grunnskólakennarar geta kennt leikskólabörnum að einhverju leyti eða tekið þátt í starfinu á þeirra forsendum. Við getum líka séð fyrir okkur að börn geti í auknum mæli farið á milli skólastiga, t.d. eftir afmælisdögum en ekki á milli skólaára, að við aukum sveigjanleikann í því hvenær börn og unglingar fara frá einu skólastigi til annars, hvort sem það er á milli leikskóla og grunnskóla eða grunnskóla og framhaldsskóla og þaðan upp í háskóla.

Það er mikilvægt að ganga líka frá því í tengslum við þessi frumvörp að það sé skýrt hvernig grunnskólagöngunni lýkur. Sá möguleiki hefur boðist á undanförnum árum og missirum að nemendur hafa getað lokið grunnskóla fyrr og tekið samræmd próf fyrr en áður eða jafnvel farið á milli skólastiga án þess að ljúka prófum. Eins og menn vita eru samræmdu prófin valkvæð en ekki skylda og við höfum orðið vör við að framhaldsskólar sem eru að keppa um nemendur hafa verið að bjóða þeim að koma fyrr upp í framhaldsskólann. Á þessu er tekið í frumvörpum og skýrt með hvaða hætti menn verða að ljúka grunnskóla. Það er í höndum skólastjóra og skólasamfélagsins að ákveða hvernig menn ljúka skólanum áður en þeir færast á milli skólastiga jafnvel þó að það sé fyrr en nú er, þ.e. að menn þurfa ekki að ljúka 10 ára námi til að geta farið úr grunnskóla í framhaldsskóla.

Ég fagna því að eitt af frumvörpunum tekur á því að auka menntun kennara. Þar er talað um að fimm ára nám verði reglan fyrir öll skólastigin og ég fagna líka því samræmi sem verður í menntun kennara á öllum skólastigum, hjá leikskóla-, framhaldsskóla- og grunnskólakennurum, sem er mikilvæg forsenda þess að hægt sé að hafa samvinnu á þessum skólastigum um starfsfólk og kennslu.

Eitt af áhersluatriðunum er líka aukin starfs- og námsráðgjöf sem fylgir auknu vali og auknum sveigjanleika og því ber að fagna. Það er mikilvægt að útfæra það nánar í lögunum eða í greinargerð og tryggja hvernig sá aðgangur verður.

Í frumvarpinu um leikskólann er það fest í sessi að hann sé fyrsta skólastigið. Það finnst mér afar mikilvægt vegna þess að langflest börn fara í leikskóla, vel yfir 90% þriggja og fjögurra ára barna eru í leikskólum og auðvitað eigum við að líta á það sem fyrsta skólastigið og hluta af samfellu í gegnum allan skólaaldurinn þannig að við sjáum skóla frá eins til tveggja ára aldri og upp í 18 ára aldur a.m.k.

Það er líka fest og skerpt í lögunum að skólinn eigi að starfa án aðgreiningar, þ.e. að við eigum að gefa öllum jöfn tækifæri. Lögin styrkja réttindi barna með sérþarfir og einnig réttindi innflytjenda eða nýrra Íslendinga og hvort tveggja er fagnaðarefni. Ég nefndi áður fjölbreytileikann. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum ekki þessa einföldu oftrú á því að til sé einhver ein leið eða eitt próf eða innihald sem henti öllum heldur bjóðum upp á margvíslega möguleika og tökum tillit til einstaklinga með ólíkar þarfir sem geta ráðið því með hvaða hætti þeir ljúka námi sínu.

Á undanförnum árum hefur töluvert verið fjallað um kostnaðinn við skólastarf, hvort bjóða eigi upp á gjaldfrjálsan leikskóla. Sjálfur tel ég það vera æskilegt, að jafna aðstöðu barna með þeim hætti að leikskólinn verði gjaldfrjáls. Fagfólk hefur mælt á móti þessu m.a. á þeim forsendum að ekki sé til nægilegt fjármagn og því sé óheppilegt að afnema gjaldtökuna í byrjun, meðan við höfum ekki rýmra fjármagn. En ég ætla ekki að leyna því að ég tel eðlilegt að það verði stefna okkar til lengri tíma að gjaldtakan verði minni og afnumin sem fyrst en auðvitað verða sveitarfélögin að fá að ráða því og það verður svo ríkið sem þarf að skaffa fjármagn til að sinna því.

Það er aftur á móti tekið af skarið með að grunnskólinn skal vera gjaldfrjáls en þar hafa oft verið duldar innheimtur í sambandi við ferðalög eða efniskostnað. Það hafa þó verið þær undantekningar og sjálfur hef ég beitt því að ef fólk er að vinna að einhverjum stærri verkefnum, t.d. í kjólasaumi, þá hefur fólk þurft að skaffa efni þar sem skólinn hefur ekki haft ráð á því og ég sé að framhaldsskólinn gerir ráð fyrir að hafa sama hátt á, þ.e. að í einstaka tilfellum sé heimilt að krefjast þess að fólk komi með efni til vinnunnar en alla jafna á grunnskólinn og framhaldsskólinn raunar líka að vera ókeypis. Sumum kann að finnast að í frumvarpinu sé það ekki nógu skýrt og það er eitt af því sem þarf að vinna að í nefndinni að það sé á hreinu með hvaða hætti gjaldtaka í framhaldsskólum sé heimil. Innritunargjöldin eru áfram fyrir hendi þar og hefur verið mat skólameistara að það sé mikilvægt að hafa innritunargjöld til að stjórna innrituninni en þeim verður að halda í lágmarki og hafa þau aðeins formsins vegna en ekki þannig að þau íþyngi nemendum með neinum hætti.

Eitt af fyrirheitum ríkisstjórnarinnar var að afnema bókakostnað eða kennslugagnakostnað í framhaldsskólum. Þarna er í rauninni tekið af skarið um að það er ætlunin að gera það en á eftir að útfæra nánar og skilgreina nánar hvað átt er við með námsgögnum, hvort það nái t.d. yfir tölvur sem ég sé svo sem ekki að verði í fyrstu lotu þó að einstakir framhaldsskólar hafi þegar tekið það upp að útvega nemendum tölvur sem hluta af gögnum án endurgjalds. Engu að síður verður reiknað með því að skólabækurnar verði gjaldfrjálsar og aðgangur að öllu efni með þessum undantekningum sem ég nefndi áðan, þ.e. ef verið er að sníða stærri hluti eða búa til hátalara eða einhver tæki sem maður fer síðan með heim þá verði heimilt að taka efnisgjaldakostnað fyrir það.

Það eru fjölmargar nýjungar sem má benda á en margt gott hefur verið til staðar. Ég hefði kannski átt að byrja ræðu mína á því að flytja svolitla lofræðu um skólakerfið á Íslandi gagnstætt því sem margir gera, að í hvert skipti sem einhverjar kannanir koma að finna þá einhverja veikleika og byrja að tala kerfið niður. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson ætlar að víta Sjálfstæðisflokkinn fyrir stefnu í menntamálum vegna einnar PISA-könnunar. Þetta er umræða sem mér finnst ekki vera svaraverð, ekki vegna þess að það megi ekki gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn en því miður er samhengið ekki svona einfalt og ég held að við eigum öll að bera ábyrgð á því hvert innihaldið er og við verðum líka að sætta okkur við þær takmarkanir sem mælitækin hafa hverju sinni, alveg eins og samræmdu prófin á hverjum tíma hafa ekki verið mælikvarði á sveitarfélög þá er PISA-könnun ekki mælikvarði á menntakerfið á Íslandi þótt hún geti gefið vísbendingar um hluti sem þarf að laga og aðra hluti sem eru í góðu lagi.

Ég nefndi það að styrkleikar núverandi kerfis þurfa að koma fram. Þó að sveigjanleiki og sjálfstæði skóla sé hér aukið þá hefur það verið býsna mikið áður, þrátt fyrir 1.100 blaðsíður í námskrá þá höfum við skólastjórnendur leyft okkur að fara ansi frjálslega með og foreldrar og nemendur hafa stutt okkur dyggilega í því og þannig vil ég að það verði áfram. Ég held að það sé mikilvægt fyrir skólasamfélagið að fá að móta sínar eigin leiðir þannig að einlægni liggi á bak við skólastarf.

Eitt af því sem ég tel vera mikinn styrkleika íslenska skólakerfisins er samleitnin í nemendahópnum, þ.e. að við höfum búið við það á Íslandi að leikskólabörn úr öllum stéttum og af öllum gerðum eru saman í leikskólunum. Sama gildir með grunnskóla og framhaldsskóla að mestu leyti. Ég held að menn hafi ekki áttað sig á því hversu mikill fjársjóður þetta er og það kemur raunar fram í hinum margumræddu PISA-könnunum, svo maður sæki rök þangað, að í þeim löndum þar sem aðgreining er hvað minnst í skólum er útkoman best, þeir skólar hafa staðið sig best. Ég held að við eigum að reyna að halda í þann þátt í skólakerfinu þrátt fyrir að opnað sé á að skólar geti orðið einkareknir. Ég tel í sjálfu sér ekki neina hættu í því fólgna vegna þess að flestir einkareknir skólar eru reknir út frá hugmyndafræði, þeir eru reknir út frá hugmyndafræði um hvernig menn vilja nálgast viðfangsefnið, hvort sem það eru Waldorf-skólar, Montessori-skólar, Steiner-skólar eða Hjallastefnan. Einhver slík flokkun getur verið af hinu góða en ég vara þó eindregið við því að hér verði farið að reka skóla sem hafa hagnaðarvonina eina að leiðarljósi, enda hafa slíkar tilraunir tekist afar illa þar sem það hefur verið reynt.

Eitt af því sem ég tel að nefndin þurfi að skoða mjög vel er matið í skólastarfinu. Ég fæ sjálfur dálítinn hroll þegar horft er mikið til formlegs ytra mats á skólastarfi. Ég nefni það vegna þess að ég hef upplifað þannig formlegt ytra mat, bæði í bresku samfélagi, í Portúgal og víðar þar sem heilar sveitir fólks koma til að gera úttektir á skólum. Ég hef afar litla trú á að slíkt skili nokkrum árangri, menn stilla upp einhverri fallegri mynd meðan sendinefndin kemur og í þetta er oft eytt miklu fé. Ég treysti á að ytra matið verði með svipuðum hætti og er nú þegar í grunnskólunum. Ytra matið þar felst fyrst og fremst í að fylgjast með því að matskerfi skólans sjálfs sé í lagi og að það sé eftirlit með gæðum innan skólans, að það sé með skipulegum hætti haldið utan um að eitthvert innra mat sé í skólanum, hvort sem verið er að meta aðstæður barnanna, starfsumhverfið, aðbúnað starfsfólks, árangur eða annað, að það sé eðlilegt að ytra mat á því hvort því verkefni sé sinnt.

Sama gildir um prófin. Próf eiga fyrst og fremst að vera leiðbeinandi og jákvæð, vísa til vegar, hjálpa nemendum til að finna betri leiðir til að halda sig betur að námi o.s.frv. Þess vegna fagna ég því að hér komi könnunarpróf, að lögð verði áhersla á símat og fjölbreytilegt námsmat fremur en stíf lokapróf sem geta verið stýrandi og villandi vegna þess að menn hafa bókstaflega verið að kenna fyrir þessi próf og látið þá aðalatriðið vera að ná árangri á prófinu og sleppt ýmsu öðru á meðan. Matskerfið þarf auðvitað að vera þannig að það þjóni líka öllum þáttum skólastarfsins og við vitum að skóla er ætlað mun meira en bara fræðsluhlutverkið eða kennsluhlutverkið. Hlutverk skólans er líka að þjálfa sköpun og styrkja sjálfsmynd og annað í þeim dúr.

Ytra mat og einföld próf byggja oftast á einhverri hugmyndafræði um að til sé einhver einn sannleikur en þannig er það einfaldlega ekki í lífinu og allra síst getum við höndlað hann í fjölbreytilegu og síbreytilegu samfélagi nútímans þar sem við vitum það eitt þegar við byrjum með nemanda í grunnskóla sex ára gamlan að við höfum ekki hugmynd um hvað bíður hans tíu árum seinna. Það er það eina sem við vitum og þá verðum við að passa okkur á því að halda ekki að við getum prófað í einhverjum sérstökum fagþáttum sem gagnast þeim fyrir lífið. Lífið er því miður ekki svo einfalt.

Framhaldsskólafrumvarpinu er ætlað bókstaflega að efla iðn- og verknám og gera það jafnstætt við annað nám í framhaldsskólum og ég fagna því og bind miklar vonir við að það takist í meðförum varðandi túlkun á þeim einingum sem þar eru lagðar til grundvallar og þann fjölbreytileika sem boðið er upp á varðandi stúdentspróf.

Það er ekki ástæða til að hafa mikið lengra mál um þessi frumvörp. Þau fara nú til þingnefndar, í menntamálanefnd og ég hlakka til að fá að vinna að menntamálum þar. Ég vona að umræðan þar verði opin, að við fáum að halda ráðstefnur og fundi og að það heyrist í sem flestum í skólasamfélaginu. Mér er kunnugt um að það er ætlunin að opna heimasíðu ef það er ekki þegar búið að opna hana fyrir aðkomu almennings að þessum málaflokki. Þar verður hægt að ræða málin, senda inn athugasemdir og ábendingar og ég veit að allt þetta verður tekið inn í nefndarvinnuna til að betrumbæta málið og til að ná þeirri sátt sem ég ræddi um áður.

Það er ótal margt í þessum frumvörpum öllum sem þarf að skoða betur. Sjálfur hef ég athugasemdir við ýmislegt, sérstaklega í framhaldsskólafrumvarpinu þar sem þarf að útfæra einingakerfið og skerpa og skýra ákveðna þætti betur. Ég lít þannig á að menntamálanefnd sé einmitt rétti vettvangurinn til að gera það, í samráði við kennara. Ég hefði kannski átt að fara betur yfir það í byrjun að þessi lagafrumvörp eru öll unnin í samráði við fagfólk sem á heilmikið í þeim og þar hafa komið að málum aðilar sveitarfélaga og fleiri. Í framhaldi af 10 punkta samkomulagi hæstv. ráðherra og kennaraforustunnar voru settar í gang nefndir og niðurstaðan liggur hér fyrir og þó að ekki hafi náðst sátt um öll frumvörpin á lokastigi þá treysti ég á að sú sátt náist í meðförum nefndarinnar.

Það hefur verið bent á í þessari umræðu að með auknum kröfum til kennaranámsins og þeim kröfum sem koma fram í frumvörpunum að öðru leyti þá þurfum við að horfa til kjara kennara sérstaklega og annars starfsfólks sem annast kennslu eða uppeldisstörf. Ég tek heils hugar undir það. Það er afar mikilvægur þáttur að þessar starfsstéttir njóti tilhlýðilegrar virðingar sem oft birtist í samfélaginu í formi launa. Það er þá verkefni í framhaldi af lögunum og í væntanlegum kjarasamningum, að leiðrétta kjörin og ég treysti á að það verði gert. Ég treysti líka á að þau fyrirheit sem eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að umönnunarstéttir njóti forgangs í kjarasamningum, verði uppfyllt í framhaldinu.

Aðeins að lokum. Ég hóf mál mitt með því að segja að menntamálin væru einhver mikilvægasti málaflokkur sem væri til umræðu á hverjum tíma. Ég ítreka það sem hefur komið fram fyrr í ræðu minni að það skiptir gríðarlega miklu máli að gætt verði jafnræðis og jafnréttis varðandi velferð barna, að börn og unglingar fái jöfn tækifæri til náms, óháð efnahag, trú, kyni og búsetu. Ég undirstrika þetta með búsetuna vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að sveitarfélög úti á landsbyggðinni verði samkeppnisfær, geti boðið upp á jafngóða þjónustu og er í höfuðborginni þó með ólíkum hætti verði í mörgum tilfellum. Við þurfum að tryggja að unglingar þurfi ekki að flytja úr heimabyggð til að sækja lögboðið nám eða nám sem boðið er upp á á framhaldsskólastigi og ég treysti á að það verði haft að leiðarljósi.

Ég fagna þessum frumvörpum, geymi mér athugasemdir og ábendingar þangað til kemur að vinnu í menntamálanefnd en hlakka til að fá að takast á við það verkefni.